Tímarit lögfræðinga - 20.12.1992, Blaðsíða 14
3. SAMANTEKT UM DÓMA
Sumir dóma þeirra, sem raktir eru hér á undan, sýna, að stundum er gengið
býsna langt í gætnikröfum. Af þeim verður þó engin almenn ályktun dregin um
rýmkaða gáleysisreglu.
Ymsir aðrir dómar eru verðir athugunar, þegar kannað er viðfangsefni það,
sem hér er fjallað um. í allmörgum úrlausnum í skaðabótamálum reynir t.d. á
mat á sönnun og sönnunarbyrði, en yfirleitt er ekki unnt að sjá að dómstólar
gangi sérstaklega langt í að slaka á kröfum um sönnun.13 Hér má benda á H1968,
1271 (um banaslys af ketilsprengingu) og H 1969, 671 (um dauðsfall af völdum
elds frá olíukyntri eldavél í fiskiskipi). Stefndu höfðu ekki hlutast til um
rannsókn á tildrögum slysanna, svo sem þeim var skylt. I hvorugum þessara
dóma var vikið að hættusemi starfs, þótt rekja mætti slysin til hættulegra tækja.
Svo sem fyrr greinir finnast aðeins örfá dæmi um að Hæstiréttur skírskoti
sérstaklega til hættusemi verks, rekstrar eða tækja til stuðnings bótaábyrgð.
Athyglisvert er, að ekki verður séð, að Hæstiréttur hafi á síðastliðnum
aldarþriðjungi vísað berum orðum til hættusemi í rökstuðningi fyrir bótaábyrgð
atvinnurekanda vegna vinnuslyss. Ymsir dómar sýna hertar kröfur til aðgæslu,
án þess að vikið sé beint að hættusemi. Fáeinir dómar um vinnuslys, sem hlutust
af bilun eða galla í tæki, eru taldir bera vitni um hreina hlutlæga ábyrgð, sbr. t.d.
H 1968, 1051 og H 1970, 544.14 í forsendum þeirra er heldur ekki vísað til
hættusemi tækja.
Könnun á íslenskum hæstaréttardómum í skaðabótamálum sýnir að finna má
dóma, þar sem sakarreglunni er beitt þannig, að bótaábyrgð nálgast það að vera
eins víðtæk og bótaskylda án sakar. Þegar frá eru taldar örfáar undantekningar,
er þó erfitt að benda á dóma, sem telja má að sýni rýmkaða gáleysisreglu í þeirri
merkingu, sem þau orð virðast hafa í umræddri grein Gizurar Bergsteinssonar.
4. LOKAORÐ
Eins og rakið er í 1. kafla hér að framan virðist Gizur Bergsteinsson ekki nota
hugtakið rýmkaða gáleysisreglu í svo víðri merkingu að það taki almennt til
þess, þegar dómstólar gera ríkar kröfur til manna um gætilega hegðun á
einstökum athafnasviðum. Af greinargerð hans verður ráðið, að hann telji að
rýmkuð sakarregla eigi einkum við, þegar tjón hlýst af hættulegum tækjum eða
efnum. Notkunarsvið reglunnar er samkvæmt þessu fremur þröngt. Þess er þó
að gæta, að oft er álitamál hvaða efni eða tæki verði talin hættuleg, en út í þá
sálma verður ekki farið hér.
13Um sönnun í skaðabótamálum sjá Arnljótur Björnsson (1991), bls. 3-22.
"Um þá sjá Arnljótur Björnsson (1979), bls. 176 o. áfr. (=1990, bls. 60 o. áfr.).
244