Tímarit lögfræðinga - 20.12.1992, Blaðsíða 11
Hér er gott dæmi um að „oft veltir lítil þúfa þungu hlassi". Eyrað á hleranum
var aðeins örfáir cm á hvern veg. Varla var unnt að sjá fyrir, að það gæti valdið
slysi. Deila má um, hvort ábyrgð útgerðarmanns er hlutlæg eða reist á
sakargrundvelli.11 Ef dómarar hafa talið vanbúnaðinn afleiðingu saknæmrar
hegðunar, er enginn vafi á að sakarmat er strangt. Ljóst er, að mikil hætta er á
slysi, ef eitthvað fer úrskeiðis við meðferð víra á dráttarbát sem þessum.
H1975, 640. Umbúnaður í vélarrúmi b/v „Ingólfs Arnarsonar“
I var 3. vélstjóri á nýsköpunartogaranum „Ingólfi Arnarsyni", sem var í eigu B. Þegar I
var að þvo loft í vélarrúminu slasaðist hann við það að falla niður á gólf af rist, sem hann
stóð á. I taldi sig hafa fengið aðsvif. Að mati héraðsdóms, sem skipaður var vélfróðum
meðdómendum, er mikil hætta á að kyrrstætt loft safnist á stað þeim, er I vann á. Þar
verði mjög heitt þá er vélar skipsins eru í gangi. Slysið þótti mega rekja til ófullnægjandi
loftræstingar og óbrúaðs bils, sem I féll niður um. Umbúnaður þessi þótti ótryggilegur,
enda var byggt yfir opið eftir slysið. Var B því dæmt að greiða I óskertar bætur fyrir
tjónið, enda kom ekkert fram um gáleysi af hálfu I.
Slysið varð í desember 1969, en skipið var smíðað 1947.!: Mál þetta er líkt
málinu um slysið á „Magna“ að því leyti, að ábyrgð var lögð á útgerðarmann
vegna búnaðar, sem verið hafði í skipinu frá upphafi, og virtist hættulítill. Tekið
er fram í héraðsdómi, að litlir möguleikar hafi verið á því, að maður með fullri
meðvitund félli niður um opið, sem þarna var fyrir stækkun ristarinnar. Öðru
máli gegndi, ef um væri að ræða meðvitundarlausan eða meðvitundarlítinn
mann. í þessu máli, eins og í „Magnamálinu“ er álitamál, hvort ábyrgð
útgerðarmanns er hlutlæg eða reist á sök.
H1966, 22. Gallaður tréplanki notaður við kirkjusmíði
Við smíði kirkjuturns úr timbri stóðu smiðir á trjám, sem voru svo óhrein, að erfitt var
að sjá hvort þau voru gallalaus. Það var talin vangæsla, að verkstjóri lét þetta
viðgangast. B slasaðist er tréplanki, 2x4 þumlungar að gildleika, brotnaði undan
honum. í plankanum var brestur, sem ekki sást fyrr en eftir slysið. B var lærður
trésmiður og hafði um langt árabil starfað að húsasmíðum og stundum veitt bygginga-
framkvæmdum forstöðu. Talið var, að B hefði mátt vera ljóst, að óvarlegt var að standa
á einu tré, sérstaklega þegar þess var gætt, sem áður segir um erfiðleika á að gera sér
grein fyrir ástandi plankans. Vinnuveitanda var dæmt að bæta helming tjóns B.
Sá, sem slasaðist, var gamalreyndur smiður og virðist því ekki hafa verið þörf
á sérstökum leiðbeiningum af hálfu verkstjóra. Samt sem áður taldi Hæstiréttur
einróma, að verkstjóri hafi gerst sekur um vangæslu um eftirlit með smíðinni.
“Um dóminn sjá Arnljótur Björnsson (1979), bls. 192-3 (=1990, bls. 75-6).
12Skrá yfir íslensk skip 1970, bls. 82.
241