Stúdentablaðið - 15.12.1992, Blaðsíða 39
RAGNA STEINUNN EYJÓLFSDÓTTIR:
Gluggavofan
Þegar við fluttum í húsið vissum við ekki að Gluggavofan ætti þar
heima. Kannske hefur verið logn og þá svaf hún alltaf.
Gluggavofan átti heima í stóru sprungunni þvert yfir svefnherbergis-
gluggann. Auðvitað var hún ósýnileg og auðvitað gat hún gert sig eins litla
og hún vildi. Annars hefði hún ekki getað átt heima í sprungunni.
En það var nú áreiðanlegt að þar bjó hún. Þegar ég og Ljúfa vorum
háttaðar á kvöldin heyrðum við hana leika lögin sín.
- Hvað er þetta? sagði Ljúfa hálfsofandi. Það var í fyrsta sinn sem hún
lék heilt lag fyrir okkur.
- Uss, sagði ég. - Þetta er Gluggavofan.
Ljúfa sperrti upp augun.
- Er hún að flauta fyrir okkur?
Eftir þetta kvöld töluðum við oft um Gluggavofuna. Við gátum ekki
séð hana, en við héldum að þetta væri kannske stelpuvofa með sítt hvítt
hár niður á tær og gyllta flautu. Stundum lék hún lágt og milt, eins og hún
væri hálfeinmana. Þá sofnuðum við útaf. En stundum hélt hún meiriháttar
tónleika. Það var oftast í norðan byl. Sem belur fór kostaði aldrei neitt að
hlusta á tónlist Gluggavofunnar. Hún var ókeypis fyrir alla.
Gluggavofan þurfti heldur enga peninga. Hún lifði bara og var til.
Æ, fólkið er stundum duttlungafullt og erfitt að gera svo því líki. Þegar
norðanáttin var lengi urðu flestir þreyttir á þessum sífelldu flaututónleik-
um. Þá var sett stórt límband fyrir sprunguna vofunnar og gluggatjöldun-
um fest vel fyrir. Aumingja Gluggavofan. Auðvitað fór hún í fýlu. Næst
þegar kom rigning losnaði límbandið. En Gluggavofunni datt ekki í hug
að flauta, þó vatnið læki inn um gluggann og alla leið niður í rúm. Við
Ljúfa urðum að færa rúmið frá glugganum.
En þegar stytti upp hætti vofan að vera í fýlu og lék fyrir okkur eins og
áður.
37