Stúdentablaðið - 15.12.1992, Blaðsíða 11
reyndi hann að kinka til hennar hæversklega kolli, en þegar hún virti hann
ekki viðlits, studdi hann höndunum á bekkinn, teygði höfuðið fram og
beygði það á ýktan hátt, svo kveðja hans færi áreiðanlega ekki framhjá
henni. Þegar hún hélt áfram að stara í glerið tók hann að skurka til stál-
bökkunum í borðinu. Hann þóttist vera að lagfæra þá sem höfðu hróflast
þegar af þeim var tekið, ýtti þeim til og frá og hagræddi uns hann þreif í
bakkann með svínshöfðinu. Hann hreyfði hann þó ekki til, en hélt þétt um
brúnina og mændi upp til hennar með hótun í svipnum. Afgreiðslukon-
urnar hrópuðu á hann og sögðu honum að sleppa en hann sleppti ekki þó
þær stöppuðu korktöflunum í harðan steininn og æptu að honum.
Skyndilega tóku þær að berja í glerið með flötum lófum, hömruðu taktfast
í borðið svo buldi í því en hnífamir sem legið höfðu í snyrtilegri röð á
bekknum hrundu niður á gólf. Kjötmeistarinn sleppti bakkanum með
semingi, beygði sig eftir hnífunum og tók að raða þeim aftur upp á borðið,
saug endann á yfirvaraskegginu eins og hann gerði oft þegar hann var
hugsi.
Konan hafði lyft hendinni upp af vagnbríkinni og sett hana undir hök-
una. Hún virtist ósnortin af hamaganginum, var hætt að stara niður í glerið
og í staðinn ntændi hún beint fram fyrir sig. Ég hafði staðið við filmu-
vélina og pakkað kótelettum. Afgreiðslukonurnar báðu mig um að saga
niður lambahrygg og ég pakkaði bitunum í litlar plastöskjur sem ég
strengdi yfir gagnsæja filmuna. Ég hafði orðið var við undarlegan fiðring
sem hríslaðist um hálsinn á mér líkt og ósýnilegar flugur slæmdu í mig
loftgerðum vængjum og reyndi árangurslaust að strjúka hann í burtu.
Kjötmeistarinn var enn að raða hnífunum. Þegar ég setti kótelettupakkann
á afgreiðsluborðið heyrði ég að hann bölvaði lágt, hendurnar greyptar utan
um skeftin. Hinum megin við borðið voru augu hennar. Ég fann fyrir þeim
skríða á skyrtukraganum eins og tveimur skordýrum og tók skyndilega að
hósta. I hálsinum sat þungur kökkur sem ég reyndi að reka út í snöggum
kviðum, en áttaði mig á að þær glumdu í salnum og brá höndunum fyrir
vitin, en gat ekki stöðvað rokurnar. Ég hörfaði inn á lagerinn, settist
hóstandi niður á stól og togaði í hálsmálið, en þorði ekki að hneppa frá
tölunni. Kjötsögin í gangi, blaðið rann í gegn um freðin beinin með
eldsnöggu ískri og í einni hóstakviðunni fann ég hönd kjötmeistarans á
öxlinni, hann hélt á vinnuvettlingunum og lét þá detta niður í kjöltuna á
mér. Ég hélt á þeim á meðan ég var að jafna mig og kinkaði kolli til kon-
9