Búnaðarrit - 01.01.1984, Page 302
274
BÚNAÐARRIT
Það hefur fyrr syrt í álinn hjá bændastéttinni og íslenzku
þjóðinni, en með dugnaði, þrautseigju og bjartsýni hefur
þjóðinni tekizt að leysa erfið viðfangsefni, og mér finnst
hún vera betur í stakk búin til þess nú en oftast áður, en við
verðum í bili að staldra við og átta okkur, þar til élinu léttir.
Ég minni hér á þau þrjú höfuðatriði, sem komu fram hjá
Búnaðarþingi fyrir 5 árum síðan, þegar rætt var um
heildarstefnu í landbúnaðarmálum:
1. Byggð verði viðhaldið í öllum meginatriðum.
2. Búvöruframleiðslan fullnægi jafnan innanlandsþörf,
leggi til iðnaðarhráefni og beinist að útflutningi, þegar
viðunandi verðlag næst erlendis.
3. Tekjur og félagsleg aðstaða sveitafólks sé sambærileg
við það, sem aðrir landsmenn njóta.
Innan þessa ramma starfa félagasamtök bænda, og
bændastéttin vinnur markvisst að því að gera búskapinn og
atvinnulífið í sveitum landsins fjölbreyttara og styrkja þar
með búsetu í sveitum og nýta auðæfi landsins til sjávar og
sveita. Aðaluppistaðan í dreifðum byggðum hefur verið, er
og verður landbúnaðurinn. Fólkið, sem byggir sveitirnar og
kauptúnin víðs vegar um landið, það aflar árlega mikilla og
dýrmætra verðmæta, sem þjóðin getur ekki án verið.
Áfram er unnið að nýjum verkefnum, sem styrkja stöðu
landsbyggðar.
Búnaðarþingi bárust mörg frumvörp frá Alþingi. Meðal
þeirra eru breytingar á bæði jarðalögum og ábúðarlögum,
sem breytast óhjákvæmilega, þar sem fyrirhugað er, að
Landnám ríkisins hætti störfum sem sérstök stofnun, en
verkefni þess falli í hlut landbúnaðarráðuneytisins og
Búnaðarfélags íslands. Frumvarp til laga um breytingar á
lögum um skógrækt var meðal mála. í því er undirstrikað
markmið skógræktar, en það er gróður- og jarðvegsvernd
og framleiðsla á viði til ýmiss konar nytja.
Frumvarp til laga um breytingu á lausaskuldum bænda í
föst lán var fjallað um og sömuleiðis frumvarp til laga um