Heilbrigðismál - 01.06.1996, Blaðsíða 9

Heilbrigðismál - 01.06.1996, Blaðsíða 9
Skafti Guðjónsson (Ljósmyndasafn Reykjavíkur) Fjör, gleði og fundir Forfeður vorir stóðu í mörgum greinum framar en vér. Þeir höfðu að mörgu leyti betri húsa- kynni og voru meiri þrifnaðarmenn. Þeir gerðu sér margfalt meira far um að efla gott heilsufar og auðga líkam- ann að kröftum, liðleik og harðfengi en vér, bæði með því að temja sér margs konar íþróttir frá blautu barnsbeini og með ýmsu fleiru er miðaði að því að styrkja hörund þeirra og heilsu. Hjá þeim var og miklu meira félagslyndi og samtök, þegar einhverju þurfti áleiðis að koma, enda voru þeir miklu meiri fjörmenn og gleðimenn og sóttu betur mann- fundi bæði til þess að skemmta sér og til þess að ræða nauðsynjar sínar og framfaramál. Það er fátt sem betur eflir fram- takssemi og menningar- anda en fjör, gleði og tíð- ir mannfundir. Vallxjr Guðmundssön ritstjóri (f 1860, d. 1928). Eimreiðin, 1895. „Það er undarlegt hvað maður gengur mikið," sagði skáldið fyrir rúmri hálfri öld. Land barna vorra Við sem nú lifum er- um ekki einungis að vinna fyrir okkur sjálf, heldur og, og það jafnvel miklu fremur, fyrir kom- andi kynslóðir. Til þess erum vér nú að nema land vort að nýju og bæta öll lífskjör vor og lífsskilyrði til lands og sjávar. Ttil þess erum vér að rækta jörðina, planta skógi og melgresi og girða fyrir uppblástur og sandfok. Til þess erum vér að byggja brýr og vegi, reisa vita og búa til hafnarmannvirki. Til þess erum vér og að friða landhelgi vora og stofna til fiskiklaks. Til þessa ástundum vér íþróttir, heilsuvernd og berkla- varnir. Til þessa stofnum vér nýja og nýja skóla og menningarstofnanir. Og til alls þessa erum vér að hugsa með löggjöf vorri og stjórn. Og vér fáum ekki ann- að skilið en að vér ein- mitt með þessu menning- arstarfi voru séum að gera land feðra vorra að sem bestu og blómleg- ustu landi barna vorra. Agúst H. Bjarnason prófessor (f. 1875, d. 1952). Samtíð og saga, 1941. í leit að hamingjunni Það er undarlegt hvað maður gengur mikið í þessum heimi og ég held að það sé ekki ennþá fullsannað hvað það á að þýða. Ég hef alltaf verið á gangi frá því ég man eftir mér, út og suður, upp og niður. Ég hef meira að segja gengið aftur á bak. Sumir menn fara ríðandi eða akandi um allt, og það veit held- ur enginn hvað það á að þýða. Sennilega eru menn að leita að ham- ingjunni og vísdómnum. Steinn Steinarr skáld (f. 1908, d. 1958). Hádegisblaðið, 1940. Vel í skinn komið Lengi vel eða að minnsta kosti fram um síðustu aldamót þótti það vottur um heilbrigði og velsæld að vera vel í skinn komið. Flestir urðu þá að strita langan vinnudag fyrir daglegu brauði, sem oft var þó af skornum skammti. Það voru líka því nær eingöngu efna- eða yfirstéttamenn sem gátu látið það eftir sér að verða feitir. Alþýðu manna hætti því við að álíta nokkra offitu æskilega. Læknar höfðu þó að sjálfsögðu veitt því athygli að mikil offita var hvimleið og jafnvel háskaleg byrði en tæplega gert sér fulla grein fyrir skaðsemi offitunnar fyrr en á síðustu áratugum. Margir hafa tilhneigingu til þess að borða meira en þeir þurfa til viðhalds eðlilegri líkamsþyngd, til viðhalds líkamshita og til framleiðslu á orku sem starf þeirra hefur í för með sér. Margir brenna til agna og breyta í hita því sem er umfram þarfir þeirra. En svo eru aðrir sem verja svo að segja hverjum bita og spæni umfram daglegar þarfir til þess að hlaða á sig spiki. Þessum mönnum finnst hlutskipti sitt illt og þeir eru eins konar olnboga- börn lífsins, borið saman við hina sem geta raðað í sig krásunum að ósekju. Oft ræður það úrslitum að sá sem fitnar er værukær og beitir ekki vöðv- um sínum nema þegar nauðsyn krefur, en hann sem jafnmikið borðar án þess að fitna er fjörkálfur. Astæðan til þess að svo margir gerast nú of feit- ir hér á landi, borið saman við það sem áður var, er að sjálfsögðu bætt afkoma, styttri vinnutími og minna erfiði. Með vaxandi velmegun hættir mörg- um við að borða meira en líkaminn þarfnast og gleyma því að of mikill matur getur orðið heilsu- fræðilegt vandamál engu að síður en fæðuskortur. Valtýr Albertsson læknir (f. 1896, d. 1984). Heilbrigt líf 1957. HEILBRIGÐISMÁL 2/1996 9

x

Heilbrigðismál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heilbrigðismál
https://timarit.is/publication/638

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.