Heilbrigðismál - 01.06.1998, Blaðsíða 22
Mismunandi svefnlínurit
Á mynd A má sjá hvernig eðlilegt svefnmynstur
lítur út hjá fullorðnum manni sem hvílist vel. Eftir
að hann sofnar dýpkar svefninn fljótt og fer niður á
fyrsta, annað, þriðja og síðan fjórða svefnstig. Stig
þrjú og fjögur kallast djúpur svefn. Þar er líkaminn
kominn í kyrrð með djúpri vöðvaslökun, lækkuð-
um líkamshita, lækkuðum blóðþrýstingi, hægari
hjartslætti og svo framvegis. Eftir um hálfa klukku-
stund á djúpu svefnstigi grynnist svefninn aftur.
Um níutíu mínútum frá því að viðkomandi sofnaði
er svefninn aftur orðinn grunnur og tekur þá við
draumastig. Þar er mjög góð vöðvaslökun einnig,
en sjálfvirka taugakerfið er í virku ástandi. Á þessu
stigi dreymir fólk yfirleitt. Þegar draumastigi lýk-
ur dýpkar svefninn aftur. Endurtekning ferlisins
heldur áfram gegnum nóttina með níutíu til
hundrað mínútna umferðartíma. Svefninn grynnist
þegar nær dregur morgni. Virðist sem þörf líkam-
ans fyrir djúpsvefn hafi verið fullnægt á fyrstu
fjórum klukkustundunum. Eftir það skiptast á
langir draumar og tiltölulega grunnur svefn. Al-
mennt vaknar fólk tvisvar til fjórum sinnum á
nóttu, og telst það eðlilegt, en flestir muna ekki eftir
því.
Mynd B sýnir það sem kalla mætti hálfslæman
svefn. Sá maður vaknar níu sinnum yfir nóttina. Er
athyglisverðast að í fyrsta skiptið vaknar hann af
dýpsta svefni. Kann það að tengjast því að fólk
byltir sér almennt í dýpsta svefninum. Séu verkir í
A
líkamanum er hætta á að einmitt það sjálfsagða at-
ferli að bylta sér veki fólk eða hálfveki.
Mynd C sýnir afar slæman svefn. Sá sjúklingur er
lengi að reyna að sofna, nær tveim smádúrum uns
hann sofnar klukkan þrjú. Þá tekur við órólegur
svefn. Hann nær aðeins þriðja stigs svefni en ekki
fjórða stigi. Síðan tekur við langur draumur. Síð-
ustu tvær stundir næturinnar eru smádúrar og vök-
ur sem telja má að sé nærri gagnslaus svefn.
Mynd D sýnir einnig afar slæman svefn. Sá mað-
ur sofnar fljótlega eftir miðnætti, nær þriðja en ekki
fjórða stigi. Vaknar stutta stund, fær einn langan
draum. Eftir tveggja og hálfrar klukkustundar
svefn er svefninn sírofinn af vökum milli örstuttra
dúra. Hann vaknaði þrjátíu og einu sinni en hélt að
hann hefði vaknað þrisvar. Slíkt svefnferli er afar
ruglandi. Hinn þreytti maður veit í raun ekki að
hann fékk aðeins tveggja til þriggja stunda nothæf-
an svefn.
Fullyrða má að þeir sem myndir C og D eiga við
hafa verið í hrakningum svefnskorts lengi. Þá má
fullyrða að þeir munu ekki sofa betur næstu nótt
hjálparlaust. Spenna þreytunnar, ekki síst vöðva-
spennan, hindrar að þeir geti náð dýpsta svefni.
Verkir og erfiðir draumar, sem fylgja langvarandi
streituástandi, hljóta að vekja. Batnandi svefni
fylgja batnandi draumar. I.S.S.
c
B
D
12 3 4
5 6
7
8 klst.
2
3 4
5 6 7 8 klst.
22 HEILBRIGÐISMÁL 2/1998