Fréttablaðið - 09.03.2010, Síða 43
ÞRIÐJUDAGUR 9. mars 2010 27
UMRÆÐA
Magnús Jónsson skrif-
ar um umhverfisvæna
raforku
Mikil áhersla hefur á liðnum árum verið á
að koma umhverfisvænu
raforkunni okkar í verð
og enn virðist það vera að áliti
margra helsta leið þjóðarinnar í
gegnum kreppuna. Á þessu eru þó
ýmsar hliðar sem ástæða er til að
velta upp og taka til umræðu.
Fiskurinn fangafæði
Á árum áður gengu fiskveiðar
hér við land út á að ná í sem mest
magn fisks. Síðutogarar báru að
landi allt að 10 daga gamlan ísað-
an fisk og stór hluti vertíðarbáta
landaði oftast 2-4 nátta netafiski
sem var tekinn úr mikilvægasta
hluta hrygningarstofns þorsks-
ins. Mikið af þessum afla myndi
í dag ekki vera talinn boðlegur
til manneldis, enda var hans lítið
neytt af okkur sjálfum. Sumt af
þessum fiski var hert í skreið eða
verkað í salt en stærstur hluti afl-
ans var unninn í frystar „blokkir“
fyrir Bandaríkjamarkað. Þar var
hann þíddur upp og honum velt
uppúr fitu og brauðraspi og seldur
í fangelsi og skólamötuneyti. Var
okkur hér heima talin trú um að
mjög gott verð fengist fyrir þessa
„gæðavöru“ á bandarískum neyt-
endamarkaði.
Fyrir löngu hefur verið horf-
ið frá þessum veiðiáherslum,
vinnsluaðferðum og markaðs-
setningu á fiskinum okkar enda
alþjóðleg eftirspurn eftir honum
farið sívaxandi og verð hækkandi.
Nú er allt kapp lagt á að koma sem
mestu af fiski sem veiddur er hér
við land á dýrustu markaði heims
hvort sem það er í Evrópu, Amer-
íku eða Asíu. Gæðin og ferskleik-
inn eru sett í fyrirrúm til að sem
hæst verð fáist og magnið skiptir
minna máli.
Gæðaorka á gjafverði
Allt fram undir síðustu aldamót
var orka í heiminum tiltölulega
ódýr. Kom það einkum til af því
að umhverfiskostnaður af orku-
framleiðslu hafði lítið sem ekkert
verið metinn auk þess sem orku-
framleiðsla var og er enn víða stór-
lega niðurgreidd af stjórnvöld-
um. Er þessi niðurgreiðsla í heild
talin nema allt að 700 milljörðum
Bandaríkjadala á ári. Á síðustu
árum hefur hins vegar orkuverð
hækkað hratt og má það einkum
rekja til aukinnar eftirspurnar á
orku og minnkandi framboðs olíu
en einnig til loftslagsmála og auk-
innar umhverfisvitundar víða um
heim. Viðbrögð við þessu hafa m.a.
víða verið að leggja áherslu á nýja
og endurnýjanlega orkugjafa s.s.
vind, sólgeislun og sjávarföll eða
umhverfisvænt eldsneyti.
Ekkert land í heiminum býr við
betri orkuaðstæður en Ísland. Nán-
ast öll innlend orka hér á landi er
umhverfisvæn og mengunarlítil og
fer um 80% af henni til stóriðju.
Þegar skoðað er verð á raforku í
Evrópu kemur í ljós að þessi orka
okkar er seld á lægsta verði sem
fyrirfinnst í álfunni og þótt miklu
víðar væri leitað. Raforkuverð til
almennings hér er u.þ.b. þriðjung-
ur af því sem það er að jafnaði í
ríkjum ESB og í Danmörku kost-
ar rafmagn 4-5 sinnum meira en á
Íslandi (1 Evra = 180 kr.). Verðið á
raforku til stóriðjunnar er svo enn
miklu lægra en það sem almenn-
ingur greiðir hér. Ekki er að sjá
að lífskjör og samkeppnishæfni
þeirra þjóða sem verðleggja ork-
una hæst sé lakari en Íslendinga,
nema síður sé.
Misheppnuð
markaðssetning?
Svo lengi sem ég man
hefur því verið haldið
fram hér að engin alþjóð-
leg eftirspurn væri eftir
hinni umhverfisvænu orku
hér á landi nema hjá álfyr-
irtækjum. Þannig væri
enginn áhugi hjá öðrum
kaupendum en þeim sem
gætu helst keypt alla orku hvers
og eins risaorkuvers. Þetta er
mér umhugsunarefni nú á sama
tíma og flestar þjóðir leggja ofur-
áherslu á að breyta samsetningu
orkuframleiðslu sinnar og alþjóð-
leg fyrirtæki eru nánast á harða-
hlaupum um allan heiminn í leit að
umhverfisvænni orku. Vitað er að
álverum fækkar ört í Evrópu, og
á Nýja Sjálandi sem er með álíka
orkuaðstæður og Ísland er ekki
gert ráð fyrir fjölgun álvera næstu
áratugi og er þó aðeins eitt álver í
landinu.
Getur verið að eitthvað sé að í
markaðssetningu okkar á orkunni
ekki síður en þegar fiskvinnsla í
landinu miðaðist við að koma sem
mestu af frosnum þorskblokkum á
hinn „ómissandi og dýra“ Banda-
ríkjamarkað? Allt hefur sinn tíma
og jafnsjálfsagt og það var að reisa
virkjanir við Búrfell og Sigöldu í
tengslum við álversbyggingar er
kominn tími á að hverfa frá orku-
magnsstefnunni yfir í orkugæða-
stefnuna. Flestar þjóðir sem við
viljum bera okkur saman við, t.d.
Norðurlönd, ætla sér að byggja
efnahagsframfarir og hagvöxt
næstu áratuga á sjálfbærni í nýt-
ingu auðlinda, minni losun gróð-
urhúsalofttegunda og minni orku-
notkun. Við hljótum að eiga meiri
samleið með þessum grönnum
okkar en þeim þjóðum sem enn
þurfa að reiða sig á ódýra hráefnis-
vinnslu og ofnýtingu takmarkaðra
náttúruauðlinda.
Við höfum mótað þá stefnu að
selja takmarkað magn af góðum
fiski okkar eins dýrt og kostur
er. Sama hefur a.m.k. að hluta til
verið uppi á teningnum þegar um
ferðaþjónustuna er að ræða. Við
viljum frekar fá færri ferðamenn
sem eyða miklu en fleiri sem eyða
litlu. Við eigum takmarkaðar auð-
lindir á landi og í sjó og eigum að
selja þær dýrt. Um leið þurfum
við að tryggja á þeim eignarhald
þjóðarinnar, sjálfbærni þeirra
og gæði. Orkan okkar er þar ekki
undanskilin.
Höfundur er veðurfræðingur.
Orkan og fiskurinn
MAGNÚS JÓNSSON
Hringdu í síma
ef blaðið berst ekki