Samtíðin - 01.09.1970, Blaðsíða 18

Samtíðin - 01.09.1970, Blaðsíða 18
14 SAMTlÐIN ÞEGAR SNILLINGAR LiFA SJÁLFA SIG ALLIR kannast við finnska tónskáldið Jean Sibelius, sem lézt árið 1957, tæpra 92ja ára gamall. Menn dá beztu tónverk hans, sem mörgum finnst túlka dýpstu eigindir lands hans og þjóðar. íslendingar hafa lengi haft ríka samúð með finnsku þjóðinni, metið hreysti hennar og heiðarleik og hrifizt af snilli öndvegismanna hennar á sviði bók- mennta, húsagerðar og íþrótta. Kvæði Rune- bergs og tónverk Sibeliusar hafa vakið fólki rómantíska hrifningu og fölskvalausa aðdáun á finnskri snilli og hetjudáð. Talið er, að fá tónskáld hafi í lifanda lífi notið jafn mikillar og almennrar hylli og meðlætis með þjóð sinni og Sibelius. Wagn- er og Verdi urðu á öldinni sem leið að eins konar menningarvitum þjóða sinna í krafti frábærra tónverka sinna og vaxandi þjóð- emismeðvitundar fólksins í löndum þeirra. En Sibeliusi auðnaðist að verða enn meira. Hann varð sú þjóðhetja Finna, er skyggði á stjórnmálaskörunga þeirra og aðra forustu- menn. Hann var sæmdur prófessorsnafnbót, sem löngum hefur þótt ákaflega fínn titill á Norðurlöndum, en í daglegu tali var hann kallaður meistarinn, sem teljast verður enn meiri almenn viðurkenning. Örlagabarátta og þrengingar finnsku þjóð- arinnar á dögum Sibeliusar juku frægð hans meðal annarra þjóða, en reisn beztu og þjóð- legustu tónsmíða hans varð Finnum ómetan- legur siðferðisstyrkur. Varla mun ofmælt, að list hans hafi orðið tákn hins sterkasta og þjóðlegasta í finnskri menningu. Þetta kunnu Finnar vel að meta. Þeir veittu Sibeliusi, aðeins 32ja ára gömlum, listamannslaun ævilangt, og síðustu æviár hans töldu þeir hann ekkert minna en fremsta mann finnsku þjóðarinnar. Þeim fannst þá sjálfsagt, að forseti landsins heim- sækti tónskáldið á meiri háttar afmælisdög- um þess. Tónlistarháskólinn í Helsinki hlaut nafnið Sibeliusarakademían. Sibeliusarhátíð- ir voru haldnar með mikilli viðhöfn, og heið- ursmerkjum rigndi yfir tónskáldið utan úr víðri veröld. Sibelius var gerður að minnis- merki (monumentum) finnskrar hámenning- ar. En meðal tónlistargagnrýnenda heimsins voru skoðanirnar á verkum hans skiptar. Engilsaxar sæmdu þau hinu mesta lofi. Enski gagnrýnandinn Cecil Gray gekk svo langt, að hann varpaði tónskáldum eins og Schu- bert, Mendelsohn, Brahms og Tjaikovskij fyr- ir róða og taldi Sibelius einan þess verðan að heita eftirmaður Beethovens sem sinfóníutón- skáld. Þetta álit Grays bergmálaði síðan um gervallt Bretland. í Bandaríkjunum gekk gagnrýnandinn Olin Downes svo langt að setja Sibelius skör hærra en sjálfan Beethov- en, og var það álit hans viðurkennt við al- menna atkvæðagreiðslu í New York á miðj- um 4ða tug aldarinnar! Á Norðurlöndum hafa tónverk Sibeliusar notið almennrar vinsældar og aðdáunar, sem vænta mátti. Aftur á móti nutu þau fremur skammvinnra vinsælda í Þýzkalandi, og Frakkar hafa ekki lært að meta þau. Andúð þeirra á Sibeliusi varð auk heldur svo mögn- uð, að kunnur franskur tónlistarfræðingur skrifaði bók, er hann nefndi: Sibelius, lak- asta tónskáld heimsins! FYRIR nokkmm árum kom út bók um Si- belius eftir ameríska tónlistarsöguihöfundinn Harold E. Johnson. Kveðst höfundur hennar hafa dvalizt tvö ár í Finnlandi til að viða að sér efni í hana. Bókin er 255 bls., og byggist hún á nákvæmri rannsókn á verkum Sibel- iusar. Er þar margt dregið fram í dagsbirtuna,

x

Samtíðin

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samtíðin
https://timarit.is/publication/647

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.