Fréttablaðið - 14.09.2010, Blaðsíða 14

Fréttablaðið - 14.09.2010, Blaðsíða 14
14 14. september 2010 ÞRIÐJUDAGUR Í Fréttablaðinu laugardaginn 11. september segir fyrrverandi heilbrigðisráðherra aðspurður um hvers vegna hann hafi skipt út allri stjórn Sjúkratrygginga Íslands: „Hinu er ekki að leyna að framúrkeyrsla Sjúkratrygg- inga er ólíðandi. Mér fannst ríkja ákveðin uppgjöf innan stjórnar- innar gagnvart því að halda sig innan ramma fjárlaga.“ Ljóst er að ráðherrann hefur ekki skilið hvernig útgjöld Sjúkra- trygginga Íslands (SÍ) verða til. Hef ég þó á mörgum fundum með ráðherranum reynt að skýra það, en er ljúft og skylt að gera það aftur. Rétt er að útgjöld SÍ stefna í það að fara fram úr fjárlögum. Meginástæður eru samningar sem samninganefnd heilbrigðis- ráðherra gerði árið 2008 við sér- fræðilækna og ákvörðun á fjár- lögum 2010 um að skera niður útgjöld til sérfræðikostnaðar um nærri þriðjung eða nálægt tvo milljarða króna. Engar tillögur komu frá ráðherranum um sparn- að en tillögum SÍ þar um hafnað. SÍ hafa ekki aukið útgjöld á þessu sviði. Samningar við lækna Allt frá því að SÍ tóku til starfa árið 2008 hafa samningar við lækna verið unnir í nánu samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og ráðherra (HBR). Forræði á samningum var hjá heilbrigðisráðherra til 1. október 2008. Samningar við sérfræði lækna vorið 2008 voru gerðir með vilja og vitund ráðherra. Hann vissi að þeir samningar fælu í sér kostnaðaraukningu og hafði samráð við fjármálaráðherra um 777 milljóna viðbótarfjárveitingu vegna þess. Fjármálaráðherra samþykkti að styðja málið og fjárveiting var veitt árið 2008. Hún var hins vegar ekki veitt vegna ársins 2009. Samningarnir voru þó enn í gildi. SÍ verða að uppfylla gerða samninga við allar stéttir. Sjúkra- tryggðir eiga líka rétt samkvæmt lögum. SÍ ákveður því ekki ein- hliða að borga ekki reikninga sem sendir eru í samræmi við gerða samninga. Vorið 2009 var gert viðbótar- samkomulag við sérfræðilækna þar sem þeir féllu frá 9% hækkun á töxtum sem þeir áttu rétt á. Fjárlög 2010 Skv. tillögum til fjárlaga 2010 átti að spara 2 milljarða króna á læknakostnaði. Í því fólst um 30% niðurskurður á þessum lið. Á fundi formanns SÍ með ráðuneytisstjóra nálægt mánaðamótum sept.-okt. taldi ráðuneytisstjórinn þetta óraunhæft markmið. Leiðir til sparnaðar ríkisins á sérfræðikostnaði eru þrjár: 1. Lækkun taxta með samning- um við heilbrigðisstéttir 2. Aukin kostnaðarhlutdeild almennings 3. Takmörkun á aðgengi að þjónustunni eða með því að draga úr eftirspurn SÍ sendi frá sér tillögur um aðgerðir í nóvember 2009. Þær fólu meðal annars í sér aukna hlutdeild almennings þannig að menn bæru stærstan hluta kostn- aðar upp að ákveðnu marki, lið- lega 20 þúsund krónum. Hlutdeild yrði ekki aukin þar yfir og því ekki snert alvarlega veikt fólk. Einnig voru hugmyndir um að draga úr dýrum rannsóknum og freista þess að lækka taxta með samningum við heilbrigðisstarfs- menn. Þessum tillögum var hafn- að af ráðherra. Eftir áramót komu fram í starfs- hópi undir forystu ráðuneytis- stjóra HBR fram svipaðar hug- myndir til sparnaðar. Breytingar á gjaldskrám hinna sjúkratryggðu, sem hefðu leitt til sparnaðar hjá SÍ upp á 650 til 850 milljónir króna. Þeim hugmyndum var einnig hafn- að af ráðherranum. Að ósk ráðherra var vorið 2010 ráðinn sérstakur trúnaðarmaður ráðherra til að stýra samningum S Í v i ð s é r f r æ ð i l æk n a . Samningaviðræðum lauk án árangurs. Ráðherrann ber ábyrgðina Sparnaður um 30% í einum af stærstu útgjaldaliðum sjúkra- trygginga fæst ekki nema ráð- herra samþykki þær aðgerðir sem gripið er til því að hann ber á þeim pólitíska ábyrgð. Þær tillög- ur komu ekki frá Alþingi og engar tillögur þar um komu frá ráðherr- anum þá mánuði sem hann sat í ráðuneytinu. Tillögum SÍ var hafnað. Það er létt verk ráðherra að segja nei, erfiðara að koma með ábyrgar tillögur. Heilbrigðismál eru viðkvæm- ur málaflokkur og mikilvægt að ætíð sé góð samvinna og sátt milli stjórnvalda og heilbrigðisstarfs- manna. Á fundum með ráðuneyt- inu hefur ítrekað verið varað við þeirri hættu að íslenskir læknar leiti til útlanda þar sem þeim byð- ust betri kjör. Því miður virðist svo sem þessi varnaðarorð séu nú komin fram, því að víða gengur illa að manna stöður lækna. Það kann að hafa villt um fyrir ráðherranum að Sjúkratryggingar í góðri sam- vinnu við ráðuneytið náðu allt frá vorinu 2009 miklum sparnaði í útgjöldum vegna lyfjakostnað- ar með því að binda niðurgreiðsl- ur við ódýrasta lyfið í hverjum lyfjaflokki. Því miður finnast engir samheitalæknar sem hægt er að leita til í því skyni að draga úr útgjöldum. Ráðherra í framúrkeyrslu Sjúkratryggingar Benedikt Jóhannesson fv. formaður stjórnar Sjúkratrygginga Íslands Engar tillögur komu frá ráðherranum um sparnað en tillögum SÍ þar um hafnað. AF NETINU Ráðherrar sitji hjá Þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögur um máls- höfðanir gegn fv. ráðherrum, þá eiga bæði núverandi og fyrrverandi ráðherrar í röðum þingmanna að sitja hjá. Núverandi ráðherrar eiga að sitja hjá af virðingu við óbreytta þingmenn. Það er Alþingi sem er að taka afstöðu til ákæra og með því er Alþingi að sýna ríkisvaldinu sjálfstæði sitt, eins og Atli Gíslason formaður þingmannanefndarinnar hefur lýst yfir. Fyrrverandi ráðherrar eiga að sitja hjá af því að þeir áttu aðild að þeim ríkisstjórnum sem mótuðu þá efnahagsstefnu sem hrundi. Það er ekki eðlilegt að þeir taki afstöðu til ákæru yfir samráðherrum sínum eða eftirmönnum eins og þeir hafi sjálfir hvergi verið nærri. Þetta á bæði við ráðherra síðustu ríkis- stjórnar og þeirrar sem á undan sat. blog.eyjan.is/fi a Soffía Sigurðardóttir Úrelt fyrirkomulag Forsætisráðherra á helst að kjósa beinni kosningu. Hún eða hann velur ráðuneyti sitt, gjarnan fyrir kosningar. Þingmenn geta ekki jafnframt verið ráðherrar. Ráðuneyti eru þá skipuð fólki með fagþekk- ingu, gott orðspor og dómgreind; reynslumikið fólk af viðkomandi sviðum. Þetta er svipað því sem tíðkast í Frakklandi og Bandaríkj- unum. Samhliða þarf að breyta störfum þingsins og gera það mun öflugra og sjálfstæðara sem stefnumótandi vettvang pólitískrar rökræðu. vthorsteinsson.blog.is Vilhjálmur Þorsteinsson Í Verðbréfa- og lífeyrisþjónustu Arion banka starfar öflugur og reynslumikill hópur sérfræð- inga sem veitir viðskiptavinum faglega þjónustu varðandi sparnað í sjóðum, verðbréfaviðskipti og lífeyrissparnað. Hringdu í síma 444 7000 eða komdu við hjá okkur í Borgartúni 19. Við tökum vel á móti þér. Starfsfólk Verðbréfa- og lífeyrisþjónustu Arion banka. Getum við aðstoðað? arionbanki.is/eignastyring ÍS LE N S K A S IA .IS A R I 4 9 7 3 0 0 8 /1 0

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.