Morgunblaðið - 06.03.2009, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 06.03.2009, Blaðsíða 35
Minningar 35 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. MARS 2009 ✝ Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför ástkærrar stjúpmóður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, VALDÍSAR ÞÓRÐARDÓTTUR, Silfurtúni, Búðardal, áður Búðardal II, Skarðsströnd. Sérstakar þakkir til starfsfólks Silfurtúns fyrir frábæra umönnun. Guðrún Þorsteinsdóttir, Eyjólfur Kristjánsson, Guðbjörg Þorsteinsdóttir, Þorgeir Hafsteinsson, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Hjartans þakkir til allra sem sýndu okkur hlýhug, vináttu og samúð við andlát og útför eiginmanns míns, föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, STEFÁNS BJÖRNSSONAR frá Grjótnesi, Norður-Þingeyjarsýslu, síðast til heimilis Hvassaleiti 24, Reykjavík. Sérstakar þakkir færum við starfsfólki á Droplaugarstöðum fyrir mjög góða umönnun. Svanhvít Friðriksdóttir, börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabarn. ✝ Cecilie Sofie Hjel-vik Mikaelsson fæddist í Bergen í Noregi 24. apríl 1912. Hún lést á hjúkr- unarheimilinu í Sól- túni 2, 24. febrúar sl. Foreldrar hennar voru Ellen Marie Thomasen og Elling Martin Hjelvik. Hún var elst fjögurra systkina, en hin, sem öll eru látin, voru Lin- ken Hjelvik, Kirsten Hjelvik Lie og Erling Hjelvik. Á árunum 1929-34 var Cecilie við kokkanám og nám í sjúkranuddi við Kurbadet í Osló og við Kurbadet í Haugesund. Hún var síðan 2 ár, 1934-36 , við nám við Onsrud trú- boðsskóla Sjöunda-dags aðventista. Cecilie giftist í Reykjavík hinn 17. júní 1937 Snorra Mikaelssyni húsa- smíðameistara, f. 18. júlí 1901, d. 17. febrúar 1972, og fluttist til Siglu- Þórisdóttur, börn þeirra eru Ásta María og Thea Magdalena, c) Er- ling Bjarki, kvæntur Desiree Ere- nius, börn þeirra eru Andrea Sofie, Benjamín Hrafn og Júlía Eir. 2) Anna María, f. 1941, gift Jóni Æv- ari Karlssyni, börn þeirra: a) Örn kvæntur Steinunni H. Theódórs- dóttur, börn þeirra eru Marel Snær og Jón Steinar, b) Helgi, kvæntur Helgu Magneu Þorbjarnardóttur, sonur þeirra er Marteinn Cheng. 3) Erling Bernhard, f. 1941, kvæntur Jeanette Ann Snorrason, börn þeirra: a) Brynja Kathleen, gift Iv- an Davis, börn þeirra eru Margaret Bryndís og Leifur Snorri, b) Rhonda Marina, gift Pavel Yurie- vich Tomenko, 4) Ragnhildur Lin- ken, f. 1947, gift David West, börn þeirra: a) A. Melanie, gift Brynjari Ólafssyni, börn þeirra eru Katrín, Emil og Kjartan, b) Eydís, gift Kar- im Zarhloul, börn þeirra eru Miri- am Sóldís og Soufian Snorri. Cecilie sat um tíma í stjórn barnaverndar á Siglufirði og kvik- myndaeftirliti bæjarins. Hún vann einnig við safnaðarstörf í kirkju Sjöunda-dags aðventista og í líkn- arfélagi safnaðarins. Cecilie verður jarðsungin frá Að- ventkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 15. fjarðar þar sem þau bjuggu til ársins 1961. Cecilie vann við Sjúkrahús Siglu- fjarðar sem nuddari, en hafði einnig nudd- stofu í heimahúsi. 1961 fluttust þau hjónin til Hlíðardals- skóla í Ölfusi, þar sem Cecilie vann sem for- stöðukona og síðan sem kokkur fram yfir sjötugt. Þá flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún bjó til dauða- dags. Cecilie og Snorri eignuðust 4 börn. Þau eru 1) Björgvin Martin Hjelvik, f. 1939, kvæntur Hallgerði Ástu Guðjónsdóttur, börn þeirra: a) Cecilie Björg Hjelvik, gift Kristni Ólafssyni, börn þeirra eru Andri Þór, kvæntur Ester Gunnarsdóttur, Arnar Bjarki, sambýliskona Bryndís Óðinsdóttir og Anna María, b) Guð- jón Snorri, kvæntur Guðbjörgu Rut Nokkur orð um mömmu. Þegar lit- ið er um öxl líðu dagarnir allir sem andvarp. Þeir hurfu á braut sem vind- urinn sem þýtur yfir hæðir. En – þeir koma aftur, vegna vonarinnar miklu um upprisuna frá dauðum. Frá bernskudögum sagði mamma okkur frá þessari von um nýjan himin og nýja jörð, þar sem eilíft líf væri jafn- mikill raunveruleiki eins og þegar dauðinn knýr dyra hér. Hún fór með okkur í anda inn í framtíðina hinum megin, sem var henni jafn raunveru- leg og sú sem við eigum hér og nú. Í dag á ég líka þessa framtíð hið innra með mér fyrir hennar orð. Það var erfitt að kveðjast hérna megin í hinsta sinn, en það verður þeim mun ljúfara að heilsast aftur hinu megin. Það er mjög margs að minnast þegar horft er yfir farinn veg. Sumt stendur þó upp úr eins og tindur sem gnæfir hátt yfir láglendið. Ég man það, eins og það hefði gerst í gær, þegar ég þorði ekki að koma heim níu ára gamall, af því að ég hafði brotið stóra rúðu, óvart, við leik. Það var orðið dimmt, ég var kaldur og svangur, og ég hafði klárað öll tárin, þegar ég loksins afréð að fara heim. Ég var ekki fyrr kominn inn í forstof- una en að ég var umvafinn hlýjum örmum. Engin skammaryrði, engar hótanir, heldur aðeins: „Hvað kom fyrir?“ Það var enginn leikur að greina frá því sem hafði gerst. Orðin komu hægt og slitrótt, en að lokum var myndin öll framkölluð, hvert púsl á sínum stað. Það er ekki orðum aukið að undrunarsvipur hafði færst yfir andlit foreldra minna á meðan á frá- sögninni stóð. Að henni lokinni sagði mamma að þau myndu tala við eig- andann á morgun. Hlý orð, heitt bað, matur og hrein föt flýttu auðveldlega fyrir værum svefni. Dagur uppgjörs rann upp. Pabbi bankaði á dyrnar. Húseigandinn opn- aði. Ég þorði ekki að líta upp. „Við er- um komin með strákinn, sem braut rúðuna hjá þér í gær,“ sagði pabbi. „Okkur þykir þetta mjög miður,“ sagði mamma. „Við tökum alla ábyrgð á okkur fyrir hönd sonar okkar, og borg- um skaðann að fullu,“ hélt mamma áfram. Eigandinn þagði um stund, en sagði svo að þetta yrði allt í lagi. Dóm- ur hafði gengið í mínu máli. Ég fór heim saklaus, þótt sektin væri öll mín, af því að elskuleg mamma og hjartfólg- in pabbi höfðu tekið sekt mína á sig, og borgað skuldina að fullu. Þetta atvik og önnur þessu lík hafa aldrei liðið mér úr minni. Seinna skildi ég, að það sem þau gerðu fyrir mig þennan eftirminnilega dag, var það sama sem Jesús Kristur gerði fyrir allt mannkynið, þegar hann greiddi skuldina miklu við kærleikann, sem getur aldrei afnumið réttlætið, en fyr- irgefið ranglætið, þar eð Kristur upp- fyllti allar kröfur réttlætisins í garð hins seka með dauða sínum. Þegar að þau borguðu rúðuna fyrir mig, upp- fylltu þau kröfu réttlætisins. Þau bættu fyrir skaðann. Sekur gekk því saklaus heim. Af þessum sökum kaus ég kristindóminn, sem mína leiðsögn í gegnum lífið og inn í eilífðina fyrir dauða og upprisu Jesú Krists. Meira gátu þau ekki gefið mér. Sjáumst um síðir. Ykkar sonur, Björgvin. Elsku tengdamóðir mín er látin. Hún varð tæplega 97 ára gömul og því margs að minnast. Minningar mínar um hana eru margar og góðar. Hún og tengdafaðir minn tóku mér, korn- ungri unnustu elsta sonarins, á ein- stakan hátt og það markaði alla okkar samveru í þau 48 ár sem við þekkt- umst. Ciss, eins og hún var ævinlega kölluð, var sérstök kona. Hún var fædd í Bergen, en kom til Íslands til að giftast manninum sem hún elskaði. Þótt hún væri alltaf trú landi sínu og þjóð, þá fannst mér hún vera eins mikill Íslendingur og Norðmaður. Hún talaði góða íslensku, ekki lýta- lausa málfræðilega séð, en hafði svo góðan orðaforða að hverjum góðum Íslendingi hefði verið sómi að. Ísland var landið hennar og hér vildi hún vera. Hún átti þó eftir að heimsækja gamla landið sitt oft. Ciss fluttist frá fallega menningarbænum Bergen í hinn norðlenska bæ Siglufjörð, heimabæ mannsins síns. Hún lærði að elska þennan norðlæga, fagra bæ, með fjöllunum háu, moldargötunum, vetrarkulda og myrkri, en yndislega björtum og hlýjum sumarveðrum. Hún var einangruð í þessum lokaði firði, en aðlögunarhæfni hennar var góð. Hún var skapmikil og gat verið stjórnsöm, en ákaflega hjálpsöm og alltaf reiðubúin ef ég þurfti á henni að halda. Hún hjálpaði mér meira en nokkur annar í gegnum veikindi, sem ég átti við að stríða fyrstu ár mín í hjónabandi. Ég var henni ævinlega þakklát fyrir það. Hún var vel gefin og skemmtileg kona, sem var gaman að tala við, var fróðleiksfús og fylgdist vel með því sem var að gerast innan fjölskyldunnar og í þjóðfélaginu. Hún hafði mjög gott skopskyn og kom oft, alveg fram í það síðasta, með hnyttin tilsvör sem við hlógum dátt að. Ég gat talað við tengdamömmu um allt, líka þegar ég var ósammála syni hennar, manninum mínum um eitthvað. „Segðu bara já við hann“ sagði hún „og gerðu svo bara eins og þú vilt“. Ég var ekki endilega sammála aðferð- inni, en hafði gaman af því hvernig hún vildi miðla málum.Hún dvaldi hjá okkur Björgvin tvo vetur í Kaliforníu þegar við vorum við nám þar og naut þess mjög. Henni fannst gaman að borða appelsínur beint af trjánum og upplifa menninguna þar. Hún meira að segja las bók um Elvis Presley og hlustaði með mér á tónlist hans því hún vissi að mér líkaði hún. Þannig var hún tilbúin að hlusta á og taka þátt í því sem hún vissi að öðrum þótti áhugavert. Ciss var fjölskyldumann- eskja og vildi vera sem mest með börnum sínum og fjölskyldum þeirra. Börnin okkar og barnabörn elskuðu hana. Með þeim deildi hún ýmislegu frá sinni norsku arfleifð, bakaði handa þeim lomper/kartöflukökur og lefser/ hveitikökur, sem þau tala ennþá um. Já, það er margs að minnast frá sam- verunni við hana. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni og vera henni samferða svo lengi. Henn- ar skarð fyllir engin, en ég lít fram á við og enda þessi minningarbrot með orðum yngsta barnabarns okkar Björgvins, þriggja ára snúllu, sem sagði, er hún vissi að langamma var mikið veik „Ciss amma er deyjandi, en það er allt í lagi, við fáum að sjá hana þegar Jesús kemur aftur.“ Blessuð sé minning tengdamóður minnar. Hallgerður Ásta Guðjónsdóttir. Það er erfitt er að sætta sig við sumar staðreyndir lífsins, sérstaklega þá staðreynd að allir sem fæðast munu á endanum hverfa á braut. Nú er sorgardagur í okkar lífi runninn upp, þú hefur kvatt í bili og það eina sem við höfum eru allar einstöku minningarnar sem þú hefur skilið eft- ir þig okkur til huggunar. Þessar minningar eru afar fjölbreyttar og margar en þær sem standa upp úr eru minningar úr æsku þegar þú passaðir okkur oft. Við munum það eins og það hefði gerst í gær þar sem þú sast með okkur og passaðir, eldaðir grjóna- graut og smjörgraut til skiptis, bak- aðir lefsur og lomper að norskum sið. Hver stund með þér var svo dýrmæt. Þú varst alltaf svo hugsunarsöm, þeg- ar við vorum farin að stálpast og flækjast um ein í strætó þá gafst þú okkur silfurnisti í jólagjöf með nöfn- unum og kennitölunum okkar á til að vera þess að vera fullviss að ef eitt- hvað skyldi henda okkur þá fyndust foreldrar okkar ekki seinna en strax. Við systkinin eigum þér afar margt að þakka og öll eigum við okkar uppá- haldsminningu. Andri minnist þess þegar þú góm- aðir hann 4 ára labbandi á þakbrún Hlíðardalsskóla og hann kallaði niður til þín „Amma, amma, sérðu hvað ég gat,“ og þú leist upp og brostir, hélst ró þinni, þó dauðhrædd og sagðir: „Vá Andri minn, sýndu mér nú hvernig þú fórst upp og komdu niður,“ þannig náðir þú honum niður heilu og höldnu. Arnar minnist þess þegar þið ásamt mömmu og Andra voruð á flug- vellinum í Phoniex Arizona á leið til Kaliforníu, rétt að missa af tengiflug- inu svo flugvallarstarfsmenn kröfðust þess að þú settist í hjólastól með Arn- ar lítinn í fanginu og svo var tekið á rás þvert yfir flugvöllinn, maðurinn sem var að keyra okkur flýtti sér svo mikið að þegar við komum að flugvél- inni hvolfdi hann ykkur inn í vélina þannig að þú endasentist á hnén og Arnar á undan þér, þú gast ekki ann- að en hlegið því við vorum ómeidd, en þér fannst þetta óborganlega fyndið. Anna minnist þess þegar þið vinkon- urnar kveiktuð á kertum á jólakrans- inum á Norðurbrún, allt í einu var kviknað í skreytingunni og þú hentir blautu handklæði á hana – þegar þú varst að því leist þú út um gluggann og sást slökkviliðið fyrir utan og sagðir: „Æ, aumingja fólkið sem hefur kveikt í“ það næsta sem þið vissuð var að slökkviliðsmenn stóðu í dyrunum og þú horfðir á þá og varst eitt stórt spurningarmerki og sagðir „Hva, eru þið að koma til mín?“ Þegar þeir voru svo farnir sagðirðu þessi fleygu orð „Það var nú ekki leiðinlegt að fá þá í heimsókn, þeir voru svo fallegir“. Aldrei munum við gleyma því þeg- ar þú sagðir „Ég hlakka til að fara til himna og verða aftur ung og falleg með sítt dökkt hár, með fléttur í hárinu og hitta hann afa ykkar aftur“. Þú vildir líka alltaf vera viss um að við yrðum ekki hrædd við að fara til himna því það væri svo fallegur og góður staður. Amma, þú varst alltaf falleg, við verðum að segja bless í bili því við munum hittast á ný og við hlökkum til endurfundanna. Tusen takk for alt du har gjort for oss ! Andri Þór, Arnar Bjarki og Anna María Kristinsbörn. Hún Ciss-amma er dáin, það var erfitt að tilkynna krökkunum að langamma þeirra væri dáin, missirinn varð eitthvað svo raunverulegur þeg- ar ég þurfti að setja þetta í orð. Miss- irinn er ljúfsár enda var amma orðin háöldruð , ljúfur því við eigum svo ótrúlega margar góðar minningar til þess að orna okkur við en sár vegna þess hve dauðinn er endanlegur í þessu jarðlífi. Amma var sannkallaður heims- borgari, og að mörgu leyti langt á undan sinni samtíð. Hún var fædd í Bergen, menntaðist sem sjúkranudd- ari, lagði stund á kokkanám í græn- metisfæði, var útivinnandi alla sína tíð og ferðaðist vítt og breitt um heiminn. Hennar nærvera var samtvinnuð mínu lífi alla tíð, ég var ótrúlega hepp- in sem krakki að alast upp á Hlíðó með ömmu í næsta húsi, í Noregi sem unglingur – amma kom og var hjá okkur veturlangt, í USA sem ung kona – amma deildi herbergi með drengjunum og svaf í neðri koju, Andri í þeirri efri og Arnar í rimla- rúmi vor og sumar, aftur á Hlíðó nú sem ung þriggja barna móðir – amma enn í næsta húsi, faðmurinn alltaf op- inn jafnt fyrir mig og langömmubörn- in og að síðustu í Reykjavík – amma í Háagerði, ég í Hraunbæ, hún kom oft til þess að hjálpa til með heimilisverk- in og krakkana. Amma bjó yfir ótrúlegri aðlögunar- hæfni, var alltaf til í að prófa eitthvað nýtt og halda því sem gott var, sér- staklega ef það var fæðistengt, henni fannst flestur matur góður og var al- veg til í að borða ítalskt, indverskt, mexíkóskt eða ekta amerískan skyndibita. Að öllu öðru ólöstuðu fannst ömmu gosdrykkir ótrúlega góðir, var þyrst í fizzið og hún varð snemma coke-isti sú fyrsta í fjölskyld- unni en þetta er eitt af því sem ég hef skammlaust erft frá þeirri gömlu. Amma gat verið býsna stjórnsöm, ég veit svo sem hvaðan ég hef þetta, enda kallaði hún sig generalinn, þeg- ar hún sá að ég var ekki minni ráðs- mennskurass þá tilkynnti hún mér að nú væri titillinn minn! Ég vona að ég beri gæfu til þess að vera jafnjákvæð, hlý og þolinmóð og hún amma var. Amma varð sjöunda dags aðvent- isti sem ung kona, hún var alla tíð afar trúrækin og sótti styrk í lestur ritn- ingarinnar og bænarinnar. Ömmu verður sárt saknað en ég hlakka til endurfundanna þar sem hún verður aftur gereralinn – ég kveð að sinni, Cecilie Björg (Cissie). Nokkrum sinnum á ævinni kynnist maður fólki sem auðgar líf manns, gerir mann að betri einstaklingi vegna fordæmis þess og framkomu. Ciss var þannig kona. Ég kynntist henni í raun fyrst á Hlíðardalsskóla þar sem hún var í eld- húsi og ég nemandi. Síðar urðu kynni okkar nánari eftir að ég fór að vera með og giftist barnabarni hennar og nöfnu. Hún var alla tíð stór hluti af okkar lífi og okkar barna. Hún bjó oft nálægt okkur og var fastur punktur í lífi barnanna sérstaklega þegar við þurftum að vinna mikið. Börnin sóttu í hana á öllum tímum og var alltaf tek- ið opnum örmum. Hún var tilbúin til að hlusta á öll þeirra dægurmál og sýndi því alltaf áhuga sem þau voru að fást við. Hún lék sér með þeim, eldaði fyrir þau norska grauta og pönnukök- ur og hafði endalausa þolinmæði. Hún var alltaf glöð og þakklát fyrir allt sem var gert fyrir hana. Þessir eiginleikar drógu að henni fólk, jafnt ættingja sem aðra samferðamenn. Hennar er því sárt saknað. Síðustu árin var hún á hjúkrunar- heimilinu Sóltúni. Minnið var farið að gefa sig, en það breytti ekki lundar- fari hennar. Hún sagði alltaf að sér liði vel og var ánægð með hvað allir væru sér góðir, ekki síst starfsfólkið á Sóltúni. Við sem kveðjum hana í dag stönd- um í þakkarskuld við hana vegna alls þess sem hún var okkur og alls þess kærleika sem hún sýndi okkur, því munum við aldrei gleyma. Kristinn Ólafsson. Cecilie Sofie Hjelvik Mikaelsson  Fleiri minningargreinar um Ceci- lie Sofie Hjelvik Mikaelsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.