Morgunblaðið - 07.03.2009, Qupperneq 25
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 7. MARS 2009
útlendingar skildu ekkert í þessum
sögum fyrr en maður tengdi þær við
landafræði. Þetta eru sögur um fólk
sem berst við að skapa sér líf í nýju
landi og það hvernig það kom til
þessa nýja lands er nauðsynlegur
hluti af sögunni.
Á 19. öld töluðu menn eins og
Collingwood um að fara til Íslands,
eyju Íslendingasagnanna og Geysis.
En á 20. öld þegar við fórum að
markaðssetja landið seldum við
ferðamönnum bara Geysi en ekki
Íslendingasögurnar því þær voru í
okkar huga svo heilög vé að ein-
ungis fræðimenn máttu komu ná-
lægt þeim. Það sem við Sirrý viljum
gera með Landnámssetrinu er að
miðla fornsagnaarfinum til þeirra
sem hafa ekki kynnst honum.
Þú spurðir um hugmyndina. Það
er fyrirferðarmikil staða að vera
leikstjóri í leikhúsi eins og ég hef
verið mestan hluta míns lífs. Mönn-
um er ekki endalaust sætt á slíkum
stóli. Ég vissi að það kæmi að því að
fólk vildi losna við mig og það er
miklu betra að fara áður en fólk vill
losna við mann. Ég hugsaði með
mér: Er ekki einhvers staðar nýtt
og spennandi verkefni þar sem ég
get notað þekkingu mína og kunn-
áttu úr leikhúsinu? Þá fæddist hug-
myndin um Landnámssetrið og ég
segi stundum að hún hafi orðið til af
öfund.
Sumarið 2003 skoðuðum við Sirrý
Vesturfarasetrið á Hofsósi og Síld-
arminjasafnið á Siglufirði. Þá kom
til okkar hugsunin um að það væri
gaman að vinna að álíka verkefni,
eldast með því og verða virðulegur
karl og kerling í menningarlegri
stofnun sem við hefðum byggt upp í
héraði.
Staður eins og Vesturfarasetrið
stækkar sjálfsímynd héraðsins og
Síldarminjasafnið er kannski besta
dæmið um þessi áhrif. Fólk skamm-
aðist sín fyrir drulluna og draslið
frá síldarárunum en allt í einu fór
það að líta á einmitt þetta sem hluta
af menningararfi og sagði: Höldum
utan um þetta, gerum þetta að ein-
hverju. Síldarminjasafnið er eina
safnið á Íslandi sem hefur fengið
Evrópsku safnaverðlaunin. Al-
gjörlega stórkostlegur staður. Við
hjónin erum að reyna að skapa eitt-
hvað í líkingu við þetta með Land-
námssetrinu.
Svo er líka afskaplega skemmti-
legt að vera beðinn um að koma til
baka í leikhúsið og leikstýra eins og
einni sýningu en vera ekki háður
leiklistinni upp á líf og dauða eins
og þegar maður er sívinnandi at-
vinnumaður. Auðvitað er ég at-
vinnumaður en ég er orðinn virðu-
legi gamli karlinn sem kemur
aftur.“
Óttalegur krati
Þú virkar mjög glaðsinna maður,
ertu bjartsýnisamaður?
„Ég lifi nokkuð góðu lífi. Ég er
bjartsýnn fyrir hönd Íslands. Mér
finnst Jónas Haraldz hafa lýst
bankahruninu best í Silfri Egils
þegar hann sagði að á árunum þeg-
ar síldin hvarf og efnahagshrun
varð hefðu undirstöður hússins gef-
ið sig og húsið því hrunið. Í banka-
hruninu núna, sagði hann, hefðu
einungis allir gluggarnir brotnað og
það væri helvíti kalt. En húsið stæði
enn á grunninum og nú þyrfti að
taka til hendinni og setja í það nýjar
rúður. Mér fannst þetta mjög góð
líking hjá hinum aldna hagfræð-
ingi.“
Ertu pólitískur?
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga
á pólitík. Ég er af ’68 kynslóðinni og
gekk í Æskulýðsfylkinguna, fór í
framboð fyrir Alþýðubandalagið en
studdi Davíð Oddsson í borg-
arstjórnarkosningum vegna þess að
hann var svo einarður bar-
áttumaður fyrir byggingu Borg-
arleikhússins. Eins og Halldór Lax-
ness sagði: Sá sem er ekki róttækur
ungur og hallast svo til hægri þegar
hann fer að eldast er fífl.
Mér finnst að framtak í atvinnu-
rekstri sé miklu farsælla í höndum
einstaklinga en ríkisins en ég tel
líka að samhjálp og samábyrgð sé
grundvallaratriði í samfélaginu.
Ætli ég sé ekki bara óttalegur
krati.“
Hvernig leikstjóri ertu?
„Milos Forman var eitt sinn
spurður hvað góður leikstjóri þyrfti
að hafa til að bera. Hann sagði:
„Góður leikstjóri þarf aðallega að
hafa kjark til að velja gott fólk með
sér og þora að láta það hafa áhrif á
vinnuna.“
Góður leikstjóri er með höfund
sem er betri textasmiður en hann
sjálfur, leikara sem er betri leikari
en hann sjálfur, leikmyndateiknara
sem er betri útlitshönnuður en hann
sjálfur og svo framvegis. Á öllum
póstum á maður að reyna að hafa
einstakling sem bætir við mann
sjálfan. Maður verður að hafa kjark
til að hlusta á þetta fólk en hafa um
leið heildarsýn og nasasjón af öllum
þáttum verkefnisins sem verið er að
vinna. Þetta er eins og að vera góð-
ur ritstjóri eða góður verkstjóri yf-
irleitt. Það þarf kjark til að hafa
frekt og fyrirferðarmikið fólk í
kringum sig. Ég held að ég hafi
fengið með árunum æ meiri kjark til
að vinna með frekjunum.“
Væri það skelfileg tilhugsun fyrir
þig að fá aldrei aftur að leikstýra?
Nei. Ég er kominn á þann aldur
að ég er hættur að vænta þess að
verða með árunum betri leikstjóri.
Gagnrýnendur eru farnir að segja
um leiksýningar mínar: „Þetta er
kjartönsk sýning.“ Kannski get ég
tekið því sem hrósi en á hinn bóginn
finnst mér leiðinlegt ef farið er að
líta á mig sem gefna stærð.
Ég er orðinn mótaður maður en í
nýsköpunarvinnunni í menningar-
tengdri ferðaþjónustu finnst mér ég
vera ungur maður sem er að hefja
ferilinn. Draumur minn er að gera
Ísland að menningarskemmtigarði,
segi ég stundum, og þá á ég við að
ég vil eiga þátt í því að ferðamenn
hafi gaman af að upplifa landið.
Mér finnst afar skemmtilegt að
koma að leiklistinni en ég bíð ekki
eftirvæntingarfullur eftir því hvað
komi næst frá Kjartani Ragn-
arssyni. Það eru aðrir og yngri leik-
stjórar sem ég býst við að eigi eftir
að koma mér meira á óvart en ég
sjálfur.“
» Ég er kominn á þann aldur að ég er hætturað vænta þess að verða með árunum betri
leikstjóri. Gagnrýnendur eru farnir að segja um
leiksýningar mínar: „Þetta er kjartönsk sýning.“
Kannski get ég tekið því sem hrósi en á hinn bóg-
inn finnst mér leiðinlegt ef farið er að líta á mig
sem gefna stærð.
» Það er fyrirferðarmikil staða að vera leik-stjóri í leikhúsi eins og ég hef verið mestan
hluta míns lífs. Mönnum er ekki endalaust sætt á
slíkum stóli. Ég vissi að það kæmi að því að fólk
vildi losna við mig og það er miklu betra að fara
áður en fólk vill losna við mann. Ég hugsaði með
mér: Er ekki einhvers staðar nýtt og spennandi
verkefni þar sem ég get notað þekkingu mína og
kunnáttu úr leikhúsinu? Þá fæddist hugmyndin
um Landnámssetrið og ég segi stundum að hún
hafi orðið til af öfund.