Morgunblaðið - 15.05.2009, Qupperneq 8
8 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 15. MAÍ 2009
Eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur
gag@mbl.is
SEÐLABANKI Íslands mat á vor-
mánuðum, fyrir fall bankanna, að
heildartap fjármálaáfalls gæti sam-
tals numið um 400-500 milljörðum
króna. Þar af væri kostnaður við
lausn fjármálaáfallsins á bilinu 179-
230 milljarðar króna og hagvaxtar-
tapið í kjölfarið hlypi á 217-256 millj-
örðum króna. Þetta kemur fram í
stöðugleikaskýrslu bankans fyrir árið
2008.
Tapið var reiknað út eftir ábend-
ingu fjármálakrísusérfræðingsins
Andrew Gracie, sem Seðlabankinn
réð í febrúar í fyrra. Bankinn vann
með honum áætlanir um hvað þyrfti
að gera nægðu bankarnir ekki að fjár-
magna sig og færu í þrot; Glitnir fyrir
október 2008 og Kaupþing á fyrsta
ársfjórðungi 2009.
Katrín Ólafsdóttir, lektor við við-
skiptadeild Háskólans í Reykjavík,
segir ljóst að áfallið hér á landi sé
meira en bankinn reiknaði út. Hann
miði sína útreikninga við reynslu
þeirra ríkja sem hafi gengið í gegnum
áföll á síðustu 35 árum. Áfall Íslend-
inga sé einfaldlega meira en þeirra.
„Reikna má með því að bæði kostn-
aður við lausn áfallsins og hagvaxt-
artapið í kjölfarið verði meiri en
nefndur er í útreikningum Seðlabank-
ans,“ segir hún. „Sé horft til kostn-
aðar við lausn á fjármálaáfallinu má
sjá að bara eiginfjárframlagið inn í
Seðlabankann var 270 milljarðar.
Þessi eina fjárhæð er því komin yfir
töluna sem bankinn reiknaði út.“ Þá
eigi enn eftir að greiða kostnað vegna
Icesave-deilunnar og leggja bönkun-
um til eiginfé svo eitthvað sé nefnt.
Katrín segir að Seðlabankanum
hafi að sumu leyti átt að vera ljóst að
tjónið yrði meira hér.
„Við vorum með samþjappaðan
markað, aðeins þrjá banka, og vitað
að gjaldeyrisforðinn dugði ekki fyrir
þá þrjá, heldur hugsanlega aðeins
einn, varla tvo og alls ekki þrjá,“ segir
Katrín. „Í ljós kom hins vegar eftir á
að tengslin á milli bankanna gerðu
björgun nær ómögulega. Erlendis
spáðu menn lítið í hvaða banki var
hvað. Þetta voru bara íslensku bank-
arnir.“
Mesta fjármálaáfallið í 35 ár
Seðlabankinn reiknaði út kostnað við lausn fjármálaáfalls og hagvaxtartapið
í kjölfarið Lektor í HR segir áfallið kostnaðarsamara sem hefði mátt sjá fyrir
Fékk meira í eigið fé en hann mat tjónið verða.
Seðlabankinn hefði mátt sjá að tjón yrði meira.
Unnu matið í vinnu við viðlagaáætlun bankans.
Tengsl milli banka gerðu björgun ómögulega.
Enn óljóst hver endanlegur kostnaður verður.
HALDA mætti að báturinn hefði hafið sig til
flugs og hygðist komast á skrúfunum einum
saman upp í himinhvolfið. Þeir fóru allavega um
í loftköstum félagarnir í Björgunarfélagi Akra-
ness þar sem þeir voru við æfingar í brimrótinu
úti fyrir Akraneshöfn. Sjórinn hefur verið úfinn í
rokinu sem gengið hefur yfir landið en er nú á
undanhaldi. Þótt flestir kjósi að halda sig inni
láta björgunarkapparnir veðrið ekki aftra sér.
Flugbátur í Akraneshöfn
ÁKVÖRÐUN um að víxla þingflokksherbergjum milli
framsóknarmanna og VG var tekin með stuðningi forseta
Alþingis og síðar forsætisnefndar, að sögn Helga Bern-
ódussonar, skrifstofustjóra Alþingis. Sigmundur Davíð
Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, taldi í
gær að ákvörðun lægi ekki fyrir, eftir því sem hann best
vissi. Hann kvaðst ekki hafa náð að fylgjast með málinu
síðustu daga og áleit að ný forsætisnefnd Alþingis, sem
kjörin verður í dag, mundi taka málið fyrir.
Helgi sagði að forseti þingsins hefði falið sér að ganga
frá skrifstofum handa nýjum þingmönnum og öðrum ráð-
stöfunum sem gera þyrfti. Þingflokkur Vinstrihreyfing-
arinnar – græns framboðs kæmist ekki fyrir í herberginu
sem hann hefði haft og því hefði verið ákveðið að víxla
herbergjum milli þingflokka VG og Framsóknar. Helgi
sagði að vel mætti vera að þetta mál kæmi til kasta nýrr-
ar forsætisnefndar. Hann kvaðst vona að málið leystist í
góðu samkomulagi. Aðalatriðið væri að allir fengju fund-
arherbergi eins og þeir þyrftu.
Alþingi verður sett í dag. Þingsetningin hefst með
guðsþjónustu í Dómkirkjunni kl. 13.30. Séra Helga Soffía
Konráðsdóttir predikar og séra Einar Sigurbjörnsson
þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, Karli Sigur-
björnssyni. Siðmennt ætlar að bjóða þingmönnum sem
ganga ekki til kirkju að koma á Hótel Borg og hlýða á
hugvekju um „mikilvægi góðs siðferðis í þágu þjóðar“.
Forseti Íslands setur síðan 137. löggjafarþingið í þing-
húsinu. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, starfs-
aldursforseti þingsins, tekur þá við fundarstjórn og
stjórnar kjöri kjörbréfanefndar.
Hlé verður gert á þingsetningarfundinum til kl. 16. Þá
verða kjörbréf afgreidd og nýir alþingismenn undirrita
drengskaparheit. Starfsaldursforseti stýrir síðan kjöri
forseta Alþingis, en Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
tekur við embættinu. Einnig verða kosnir sex varafor-
setar og kosið í fastanefndir Alþingis. Síðan verður varp-
að hlutkesti um sæti þingmanna. gudni@mbl.is
Endurnýjað Alþingi
verður sett í dag
Morgunblaðið/Sverrir
Þingflokksherbergi Framsóknar Flokkurinn hefur haft
herbergið frá því á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.
Forysta Alþingis studdi
víxlun þingflokksherbergja
SAMTÖK atvinnulífsins telja óraun-
hæft að stytta vinnuvikuna en í sam-
starfsyfirlýsingu nýrrar ríkis-
stjórnar er ákvæði um aðgerðir til
þess að sporna gegn atvinnuleysi og
þess getið í því samhengi að metnir
verði kostir þess að stytta vinnuvik-
una.
Segir á vef SA að þetta ákvæði
komi nokkuð á óvart því vinnutími er
viðfangsefni kjarasamninga og með-
al samningsaðila hafa undanfarin ár
ekki farið fram neinar umræður um
styttingu vinnuvikunnar. Orlof er
töluvert lengra á Íslandi en í flestum
öðrum ríkjum og sérstakir frídagar
sömuleiðis fleiri. Ársvinnutími í dag-
vinnu er hvergi lægri nema í Þýska-
landi og Frakklandi og hvorki séu
tilefni né aðstæður til þess nú að
eyða miklum tíma í skoðun á því
hvort stytta eigi vinnuvikuna á Ís-
landi.
Stjórnvöld höfðu síðast afskipti af
vikulegum vinnutíma hér á landi árið
1972 þegar lög um 40 stunda vinnu-
viku voru lögfest, en áður var vinnu-
vikan 44 stundir. Lagabreytingin fól
í sér 10% hækkun tímakaups í dag-
vinnu og ef 44 stundir voru unnar
áfram ( frá 8-13 á laugardögum) þá
fól hún í sér 18% hækkun vikukaups.
Þá er í gildi vinnutímatilskipun ESB
um 48 stunda hámarksvinnutíma að
meðaltali, samkvæmt vef SA.
Markmið ríkisstjórn-
ar kemur SA á óvart
Óraunhæft
að stytta
vinnuviku
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Umdeilt Ríkisstjórnin vill skoða
kosti þess að stytta vinnuvikuna.
Mesta úrval landsins af rafgeymum í allar gerðir farartækja
mælum • skiptum um • traust og fagleg þjónusta • 30 ára reynsla
MEÐ TUDOR
fæst í Sólningu Kópavogi, Njarðvík og Selfossi
og Barðanum Skútuvogi