Morgunblaðið - 12.09.2009, Page 25
myndum ella ekki samþykkja. Það
var talað eins og þjóðin hefði aldrei
fyrr orðið fyrir áföllum.
Það þarf ekki að fara langt aftur til
að rifja upp aflabrest, haftatíma og
aðrar hremmingar. Við getum líka
farið tvær til þrjár kynslóðir aftur í
tímann og hugsað um aðstæður fólks
sem átti þá varla til hnífs eða skeiðar
og daglaunamennina sem fóru niður
á bryggju og það valt á því hvort þeir
fengju vinnu þann dag hvort þeir
gætu fætt fjölskylduna að kvöldi.
Amma mín gat ekki séð fyrir börn-
unum sínum og þurfti að láta öll nema
eitt frá sér. Hún flutti af landi brott
um 1950 og sneri aldrei aftur. Pabbi
var mjög heppinn en bræður hans
áttu misjafnan uppvöxt og svo var um
marga á þessum tíma. Það er ekki svo
langt síðan þetta var en það virðist
eins og við séum búin að gleyma
þessu.
Við verðum að muna að við búum
við góðar aðstæður þrátt fyrir að
skuldabyrði ríkisins nú sé hrikaleg og
við verðum að gera okkar besta til að
verja velferðarsamfélagið sem við
eigum. Við höfum áður unnið okkur
út úr erfiðum aðstæðum og það mun-
um við líka gera nú.“
Að sumu leyti nörd
Þú varst þekkt andlit í sjónvarpi.
Muntu ekki sakna þess að vera ekki
eins sýnileg og áður?
„Nei, mér finnst mikill kostur að
vera það ekki. Ég var alltaf meiri út-
varpsmanneskja en sjónvarpsmann-
eskja í mér. Í útvarpinu var auðveld-
ara að skilja á milli vinnunnar og
einkalífsins. Þar var maður bara rödd
og kannski nafn en ekki andlit. Þegar
maður er í sjónvarpi vill fólk ansi oft
ræða við mann um vinnutengd mál
sem er svo sem allt í lagi, nema
kannski ef maður slysast til að vera
niðri í bæ eftir miðnætti um helgar.“
Ertu einrænni manneskja en ætla
mætti?
„Því er stundum haldið fram í fjöl-
skyldu minni að ég sé með snert af fé-
lagsfælni og símafælni. Oft nenni ég
ekki á mannamót og ef ég fer á þau
held ég út í þrjú korter eða svo. Ég
kann best við mig heima með bók. Að
sumu leyti er ég nörd. Það kemur til
dæmis fram í því að ég þarf mjög oft
að lesa mér til á vefnum um sjón-
varpsþætti eða myndir um leið og ég
horfi. Ég bý þess vegna yfir býsna
viðamikilli þekkingu á amerískum
sjónvarpsleikurum sem er auðvitað
vitagagnslaus. Mér finnst gaman að
grúska og í vor eyddi ég talsverðum
tíma í að lesa mér til um sullaveiki,
bara vegna þess að mér fannst það
spennandi.
Ég er sveitastelpa, alin upp í Lax-
árvirkjun í Aðaldal þar sem pabbi
minn vann. Þarna var lítið þorp við
virkjunina og þar bjuggu að jafnaði
sjö fjölskyldur. Þetta var sérstakt
samfélag og mér finnst það á við
happdrættisvinning að hafa fengið að
alast upp úti á landi. Ég ætlaði mér
aldrei að ílendast í Reykjavík en hlut-
irnir æxlast oft öðruvísi en maður
ætlar.
Við Logi eigum hús á Dalvík og er-
um mikið þar. Maður andar dýpra og
öðlast meiri ró í sálinni þegar maður
kemst út á landsbyggðina. Það skipt-
ir mig máli að börnin mín kynnist
landinu, náttúrunni og dýrum. Við
búum líka að því að systir mín og
mágur búa í Mývatnssveit og þar
kann ég einstaklega vel við mig, í
skítagallanum að tuða yfir því hvort
kálfunum hafi verið gefið nýlega. Það
er mikið ég sjálf.“
Nú eigið þið Logi von á öðru barni
ykkar saman en þið eigið börn frá
öðrum samböndum. Hvernig gengur
þetta fjölskyldumynstur?
„Það bara gengur, þótt heimilið sé
stundum eins og lestarstöð, með ótal
börnum og þremur köttum. Við Logi
eigum eina dóttur saman, Brynhildi
sem er þriggja ára. Logi átti fyrir
fjórar dætur og ég son. Brynhildur er
mikill brúarsmiður milli systkinanna
og veit fátt betra en að hafa systur
sínar hjá sér. Brynhildur er annars
algjör snillingur og það skoppa upp
úr henni gullmolar á hverjum degi.
Hún hefur ævintýralegt ímyndunar-
afl. Um daginn sagðist hún verða að
fá plástur vegna þess að litla hænan
hefði bitið sig. Við vildum fá að vita
hvaða hæna þetta væri en fengum
ekki svar við því. Það eru alltaf hæn-
ur, tígrisdýr, fílar, skrímsli, risaeðlur,
hundar, kettir, ljón og sebrahestar í
kringum hana.
Krakkarnir aðlöguðust heimilislíf-
inu fljótt og samskiptin hafa gengið
ótrúlega vel frá fyrsta degi. Börnin
okkar eru mjög ólík, eru hvert með
sínu lagi. Valur er eini strákurinn og
hefur þannig talsverða sérstöðu sem
hann mun sennilega halda. Ég held
að hann hafi eiginlega gefið upp von-
ina um bróður hjá okkur, þótt nýtt
systkini sé á leiðinni enda virðist Logi
bara búa til stelpur. Við Fanndís,
fjórtán ára dóttir hans Loga, náum
mjög vel saman. Hún er mikill bóka-
ormur og finnst gott að vera út af fyr-
ir sig. Ég skil mjög vel þegar hún fer
inn í herbergi og kemur ekki út fyrr
en sex tímum síðar, af því að hún var
að lesa. “
Þegar þið Logi kynntust var hann
í hjónabandi og þú í sambandi.
Fannst þér erfitt þegar samband
ykkar var á milli tannanna á fólki?
„Kjaftagangurinn var yf-
irgengilegur. Þetta var mjög leið-
inlegt tímabil fyrir okkar nánustu en
við Logi lokuðum okkur af og vorum í
okkar prívatheimi. Þetta tímabil var
námskeið í að búa sér til skráp. Eftir
þetta finnst mér ekkert vera mjög
erfitt og finnst þetta í raun eitthvað
sem er svo löngu liðið að ég skil oft
ekkert af hverju fólk er ennþá að
spyrja okkur út í þetta og langar eig-
inlega ekkert að tala um þetta.
Ég get þó sagt að það sem truflaði
mig mest var þegar fólk virtist álíta
að ákvörðun okkar Loga um að taka
saman væri tekin í léttúð. En okkur
var mikil alvara. Við gerðum okkur
grein fyrir að þessi ákvörðun snerti
svo miklu fleiri en bara okkur.
Ég var búin að vera í sambúð í tæp
níu ár og Logi í löngu hjónabandi.
Það væri erfitt fyrir hvern sem er að
umbylta lífi sínu og fara í kjölfarið út í
eins flókið fjölskyldumynstur og okk-
ar er, þótt hann þyrfti ekki að þola
opinbera umfjöllun um það í of-
análag. Það er meiriháttar ákvörðun
að flækja líf sitt svona mikið og það er
ekkert grín að samhæfa þetta allt
saman. Samt gengur þetta allt upp og
við höfum aldrei séð eftir þessu.
Logi er besti vinur minn og sálu-
félagi og það er ómetanlegt að geta
deilt hverju sem er með maka sínum.
Það er alveg sama hvað er að angra
annað hvort okkar, við erum eins og
hraðvirk gleðipilla fyrir hvort annað.“
Engin villt frjálshyggja
Nú ferðu að vinna í pólitík.
Hefurðu lengi haft áhuga
á stjórnmálum?
„Það er erfitt að hafa ekki áhuga á
pólitík því hún snertir svo margt.
Áhugi á þjóðmálum hefur fylgt mér
frá unglingsárum. Í fyrsta bekk í
menntaskóla man ég eftir að hafa rif-
ist um búvörusamning við skóla-
félaga minn. Ég gekk í Sjálfstæð-
isflokkinn um það leyti sem ég var að
ljúka menntaskóla og varð formaður
Varðar sem er félag ungra sjálfstæð-
ismanna á Akureyri. Ég var virk í
pólitísku starfi í fimm ár en dró mig
út úr því aftur vegna þess að ég var
farin að vinna við fjölmiðla og fannst
pólitísk afskipti og fjölmiðlastarf ekki
fara saman.“
Af hverju valdirðu
Sjálfstæðisflokkinn?
„Logi lýsir mér sem gamaldags
íhaldi og ég held að það sé rétt hjá
honum. Það er í það minnsta engin
villt frjálshyggja í mér. Ég kann að
meta grunngildin í sjálfstæðisstefn-
unni og gömul slagorð eiga enn við,
eins og stétt með stétt. Ég vil búa í
þannig samfélagi; þar sem fólk hefur
jafnan aðgang að nauðsynlegri þjón-
ustu, að menntakerfi og heilbrigð-
iskerfi og að almannatryggingar geta
boðið þeim sem á þurfa að halda góð-
an stuðning. Um leið trúi ég því að í
einstaklingunum felist kraftur sem
ríkið má ekki draga úr. Þótt við
einkavæðum ekki þá þarf að gefa
einkaframtakinu tækifæri til að fóta
sig á þessum sviðum, en það á ekki að
rýra neitt gæði þeirrar þjónustu sem
ríkið veitir. Samkeppni er af hinu
góða, eins og ég komst að þegar ég
fór aftur í Háskóla Íslands eftir nokk-
urt hlé. Það má ábyggilega þakka
samkeppni á háskólastigi það að
vinnubrögð og kennsluaðferðir höfðu
gerbreyst til hins betra á örfáum ár-
um. Ég er líka svolítið rúðustrikuð og
vil að hlutir séu í lagi og reglur virki.
Mig langar til að búa í heiðarlegu
samfélagi þar sem passað er upp á þá
sem þurfa á því að halda og að það sé
gert almennilega en öðrum sé hjálpað
til að hjálpa sér sjálfum. Ég óttast
það ástand að fólk fari að hanga í ör-
yggisnetinu og taka frá þeim sem
netið á að bjarga.
Ég veit líka, öfugt við það sem
margir virðast halda, að Sjálfstæð-
isflokkurinn lætur sig velferðina
varða. Oft hefur það ekki farið hátt
þegar hann gerir góða hluti í þeim
efnum, kannski af því að Sjálfstæð-
isflokkurinn hefur verið feiminn við
að vera mýkri og nær miðjunni en
hægrisinnaðri flokksmenn telja að
hann eigi að vera. “
Er ekki mjög líklegt að þú eigir
eftir að enda á þingi?
„Þegar ég var tvítug hélt ég að ég
myndi fara á þing en líf mitt tók aðra
stefnu og ég hætti við öll framboðsá-
form. Þó að maður vilji vinna að því
að bæta samfélagið er hægt að gera
það víðar en á þingi. Góðar hug-
myndir koma frá öllum flokkum og ég
sakna þess stundum að stjórn-
málamenn skuli ekki sameinast um
þær, óháð flokksböndum.
Núna er mikilvægt að menn vinni
saman og gleymi sér ekki í endalausri
leit að sökudólgum. Þess vegna vildi
ég að mynduð yrði þjóðstjórn síðasta
vetur. Við þurfum á öllu okkar að
halda til að sigla út úr þessu ástandi
og með þjóðstjórn hefði verið hægt að
gera alla flokka ábyrga fyrir þeim
ákvörðunum sem teknar eru. Með því
móti hefðum við frekar getað myndað
samstöðu um aðgerðir og vonandi
losnað við endalausar ásakanir
manna á milli næstu árin um það hver
hefði ákveðið hvað og hvenær, fyrir
hrun eða eftir. Það hefði getað hjálp-
að okkur að fjarlægjast þetta ástand
hraðar og einbeita okkur að því að
byggja upp.
Ég hef trú á þessari þjóð, við þurf-
um bara að gæta þess að hafa góða
jarðtengingu, vera samstiga og
styðja við hvert annað og þá verða
okkur allir vegir færir á ný.“
STÆÐISMANNA
» Mér fannst þjóð-félagsumræðan
vera orðin þreytandi og
á röngum nótum. Allir
voru reiðir og allt var
sagt vera að fara fjand-
ans til.
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 12. SEPTEMBER 2009
– meira fyrir áskrifendur
Heimili
og hönnun
Fáðu þér áskrift á
mbl.is/askrift
Í blaðinu verða kynntir geysimargir
möguleikar sem í boði eru fyrir þá
sem eru að huga að breytingum á
heimilum sínum.
Nánari upplýsingar veitir
Katrín Theódórsdóttir í síma 569-1105,
kata@mbl.is
Tekið er við auglýsingapöntunum til kl. 16.00
mánudaginn 14. september.
Morgunblaðið gefur út glæsilegt
sérblað um Heimili og Hönnun
föstudaginn 18. september 2009
Meðal efnis verður :
Ný og spennandi hönnun..
Innlit á falleg heimili.
Áberandi litir í haust og vetur.
Lýsing á heimilum.
Sniðugar lausnir á heimilum.
Upprennandi hönnuðir.
Stofan.
Eldhúsið.
Kósý hlutir fyrir haustið.
Þjófavarnir.
Ásamt mörgu öðru spennandi efni.