Morgunblaðið - 20.09.2009, Page 31
sagði að þeir myndu aldrei fá eins
hreint blóð og 100% víkingablóð.
Þetta féll í góðan jarðveg og mér var
kippt inn.“
Demantafrumskógur
Magnús segir afar mikilvægt fyrir
sig að vera í þessum klúbbi. Hann sé
eini Íslendingurinn sem sérhæfi sig í
demöntum og í þessum viðskiptum
skipti miklu máli að geta selt stóra
demanta, hvað sem viðskiptavinir
girnist hverju sinni. Það gengi illa án
þess að vera í klúbbnum. „Sem með-
limur hef ég líka aðgang að besta
mögulega verði.“
Til nánari skýringar bendir Magn-
ús á að verðið sé hreinn frumskógur,
en ákveðin verðskrá gildi og eftir
henni fari helstu demantasalar
heims. Demantar líti oft eins út vegna
þess að þeir séu slípaðir eins. Hins
vegar séu þeir mjög misjafnir og séu
flokkaðir eftir stærð, hreinleika, lit og
öðru. „Þú sérð varla mun á þessum
tveimur demöntum en þeir eru mjög
ólíkir og þar með verðið líka,“ segir
hann um leið og hann bendir á tvo
ólíka demanta sem virðast vera eins.
Annar kostar um 650 þúsund krónur
og hinn um þrjár milljónir. „Það er
auðvelt að láta mann kaupa hlut á
röngu verði hafi maður ekki nauðsyn-
lega þekkingu,“ heldur hann áfram
og viðurkennir að hann hafi svo sem
verið plataður. „Eftir að ég var kom-
inn í klúbbinn tók ég eftir að verið var
að bjóða hráa demanta til sölu og þá
kom gamli Íslendingurinn upp í mér.
„Ég fer bara til Afríku og kaupi þetta
sjálfur,“ sagði ég við sjálfan mig. Það
eru mestu mistök sem ég hef gert.
Ég er alinn upp við heiðarleika og til
þess að komast í klúbbinn þarf vott-
orðið að vera hreint en ég komst fljótt
að ýmsu misjöfnu í Afríku. Ég byrj-
aði á því að fara til Namibíu og þar
stinga heimamenn í þessum bransa
hreinlega úr þér augun. Þeir eru
rosalegir. Ég sá nokkra steina sem
stóðust allar kröfur og sölumaðurinn
byrjaði að pakka þeim inn. Ég fylgd-
ist vandlega með en allt í einu brutust
út slagsmál við hliðina á okkur og
einn maður lenti á borðinu hjá okkur.
Ég leit af demöntunum augnablik og
til þess var leikurinn gerður því þá
skipti sölumaðurinn á pökkum og
hélt áfram að pakka eins og ekkert
hefði í skorist. En auðvitað var þetta
allt skipulagt og þessir menn eru allt-
af fjórir eða fimm saman.
Ég hef nokkrum sinnum verið plat-
aður en hef lært af reynslunni og
treysti þessum sölumönnum ekki
lengur. Kvikmyndin Blood Diamond
lýsir þessum skuggahliðum við-
skiptanna vel. Einu sinni hafði ég
keypt steina og var með þá inni á hót-
elherbergi, hafði reyndar falið þá,
þegar barið var að dyrum um klukk-
an 11 um kvöld. Þetta var lögreglan
sem hafði fengið vitneskju um söluna,
sem hún sagði ólöglega, og heimtaði
að fá steinana. Ég afhenti þeim varn-
inginn en þeir vildu meira og sögðust
koma morguninn eftir með hand-
tökuheimild. Ég kannaði strax með
flug og komst að því að vél færi frá
Windhoek eftir klukkutíma. Ég náði í
bíl og keyrt var á um 200 kílómetra
hraða, en fljótlega tókum við eftir því
að okkur var veitt eftirför og skotið
var á okkur. Ég komst í vélina og
slapp með skrekkinn, en á þessum
tíma vissi ég ekki að ólöglegt er að
versla með demanta í Namibíu og
reyndar í Afríku nema hafa til þess
sérstök leyfi.“
Afríka heillar
Meðan við spjöllum saman hringir
viðskiptamaður frá Lýðveldinu
Kongó í Afríku. „Þeir eru alltaf að
reyna að selja mér gull,“ segir Magn-
ús eftir að hann hefur sagt viðkom-
andi að hann sé upptekinn og hringi
seinna. „Ég hef oft verið í höfuðborg-
inni Kinshasa í Lýðveldinu Kongó.
Hún var byggð fyrir 300 til 500 þús-
und manns en þar búa rúmlega níu
milljónir og þar er um 70 til 80% at-
vinnuleysi. Ferðamenn eru sjaldséðir
og þegar ég kom þangað fyrst var ég
eini hvíti maðurinn í vélinni. Lög-
reglumenn með hríðskotabyssur
tóku á móti mér og gerðu mér ljóst að
það væru þeir sem réðu um leið og
vegabréfið var tekið af mér. Þarna
eru drepnar þúsundir manna á ári,
jafnvel tugþúsundir, en það þykja
engar fréttir. Ástæða þess að ég fer
til Kóngó er að þar er ég að setja upp
aðstöðu til þess að kaupa gull. Það
tekur tíma að fá öll leyfi en ég er að
vinna í málinu. Þetta er flókið kerfi og
tímafrekur undirbúningur, en maður
verður að gera allt á löglegan hátt því
annars er voðinn vís.“
Peningar og viðskipti
Meðan umræðan snýst um Afríku
stendur ekki á sögunum hjá Magn-
úsi. „Einu sinni hitti ég fjóra menn
sem vildu selja mér gull í Kinshasa.
Þar eru tvö boðleg hótel og á öðru
þeirra, sem ég bjó á, kostaði hálfur
kjúklingur 100 dollara, meira en
mánaðarlaun innfæddra. Ég varð að
bjóða fjórmenningunum í mat en
fannst ótækt að eyða 400 dollurum í
kjúkling handa þeim, um 50 þúsund
krónum á núverandi gengi. Því
stakk ég upp á að fara eitthvað ann-
að og nefndi pizzustað í nágrenninu.
Meðan við vorum að bíða eftir af-
greiðslu tók ég eftir manni sem var
að skera niður grænmeti. Í sömu
mund sá ég mús skjótast eftir gólf-
inu hjá honum og önnur fylgdi rétt á
eftir. Reyndar var allt morandi í
músum þarna á þessum virta pizzu-
stað. Ég vakti athygli mannanna á
þessu en mýsnar röskuðu ekki ró
þeirra. Allt í einu sá ég að maðurinn,
sem var að skera sveppina í pizz-
urnar okkar, stökk skyndilega til
hliðar og sprengdi eina músina. Síð-
an tók hann hana upp og fleygði
henni út í horn en hélt síðan áfram
að skera sveppina. Ég sleppti því að
borða pizzu þetta kvöldið.“
Magnús og Margrét eiga hús á
Flórída og eru nágrannar margra
þekktra atvinnukylfinga. Hann hefur
kynnt þeim framleiðsluna og segir að
þegar þeir eigi leið um Belgíu líti þeir
gjarnan inn og kaupi skartgripi eftir
sig. „Þeir hafa verið góðir við-
skiptamenn,“ segir Magnús.
öndunum
Pottur Gullið sett í bræðslupottinn.Demantagreinir Magnús greinir demanta. Bræddur málmur Gullinu helt í deigluna eftir bræðslu.Fljótandi Gull í um 1.100 til 1.200 gráðu hita.
31
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 20. SEPTEMBER 2009
MAGNÚS Steinþórsson á margar
skemmtilegar minningar frá Manor
House Hotel.
„Einu sinni leigði íhaldsflokk-
urinn hótelið og John Mayor, þá-
verandi forsætisráðherra, mætti
með fríðu föruneyti. Þetta var á
þeim tíma þegar Írarnir voru hvað
harðastir við að sprengja í London
og því var mjög öflug örygg-
isgæsla í kringum forsætisráð-
herrann. Eftir einhvern fundinn
komu ráðherrarnir inn á barinn og
Mayor spurði mig hvað hann ætti
að fá sér að drekka. „Það er bara
einn drykkur sem þið eigið að fá
ykkur, strákar mínir, og það er Ice-
landic Black Death,“ svaraði ég.
Ég var með nokkrar flöskur í frysti
og hellti í glösin hjá þeim þessum
þykka, ískalda vökva. Ég fékk mér
líka til að undirstrika orð mín og
skálaði í botn. Þeir voru ánægðir
með drykkinn en sögðust ekki
finna neinn mun og báðu um
meira. Svo fór að þeir fengu sér
fjóra tvöfalda og þá vildi einn fara
í bað. Hann fór upp í herbergi sitt,
skrúfaði frá vatninu í baðinu og
ákvað að leggja sig á meðan baðið
var að fyllast en sofnaði. John Ma-
yor var í herbergi á hæðinni fyrir
neðan og þegar leið á nóttina fór
að leka úr loftinu hjá honum. Loft-
plötur losnuðu og duttu niður með
miklum látum og öryggisverðirnir
voru sannfærðir um að einhver
hefði hent sprengjum inn í her-
bergi forsætisráðherrans. Allt
fylltist af lögreglumönnum, ég var
rifinn á fætur og fljótlega komst
ég að því hvað hafði gerst, en
ríkisstjórnin bað ekki um meira ís-
lenskt brennivín.“
Giftingarveislur voru tíðar á
Manor House og man Magnús
sérstaklega eftir einni.
„Ríkasti maðurinn í Torquay átti
aðeins eina dóttur,“ rifjar Magnús
upp. „Hún var hrifin af manni, sem
faðir hennar kunni engan veginn
við, en skoðun hans breytti því
ekki að þau gengu í hjónaband.
Um 250 manns voru í veislunni og
ekkert til sparað. Þegar allir voru
sestir niðri í sal átti þjónninn að
kalla á brúðhjónin, sem áttu þá að
ganga niður stigann og inn í sal-
inn. Brúðguminn vildi sýna
tengdaföður sínum að hann væri
meiri maður en hann héldi og ætl-
aði að flytja ræðu því til staðfest-
ingar. Hann var á tauginni og var
búinn að marglesa ræðuna fyrir
mig. Ég reyndi að styðja hann og
sagði að ræðan væri fín, hann
þyrfti engu að breyta. Hann bað
mig um snafs og ég lét hann fá ís-
lenskt brennivín. Hann sagðist
ekki finna nein áhrif og bað um
annan. Hann hafði ekkert borðað
og ég sagði honum að það væri
ekki gott fyrir hann að drekka
meira og allra síst á fastandi
maga. Neitaði honum um drykk.
Þá sagðist hann ætla að kaupa
annan og ég gæti ekki bannað
honum það. Ég varaði hann við en
hann gaf sig ekki og svo fór að
hann fékk sér nokkra snafsa, því
gestirnir voru svo lengi að koma
sér fyrir við borðin. Loksins þegar
þjónninn kom og sagði brúðhjón-
unum að nú gætu þau gengið nið-
ur í salinn var vinurinn orðinn
frekar drukkinn. Hann gekk að há-
borðinu, settist við hliðina á
tengdaföður sínum og skömmu
síðar missti hann höfuðið ofan í
súpudiskinn. Í kjölfarið var hann
borinn í gegnum salinn og upp í
brúðarsvítuna en fyrir vikið missti
hann af veislunni. Enn eitt dæmið
um að nenn eiga að fara varlega
og ekki drekka brennivín á fast-
andi maga.“
Brennivín á fastandi maga
Morgunblaðið/Kristinn
Manor House Hotel Veislusalurinn neðst og móttakan með barnum á jarðhæðinni.
Morgunblaðið/Kristinn
Barinn Engu var til sparað á Manor House Hotel og barinn vinsæll.