SunnudagsMogginn - 08.11.2009, Síða 50

SunnudagsMogginn - 08.11.2009, Síða 50
50 8. nóvember 2009 Et l’ancienne maison, Je sens sa rousse tiédeur Vient des sens á l’esprit. Og gamla húsið, ég finn mjúkbrúna hlýjuna skynja hana, leitar á hugann. Jean Wahl, Poémes. úr Poetics of Space e. Gaston Bachelard V erk Högnu Sigurðardóttur arkitekts er ekki einfalt að staðsetja. Hún sækir í þau þræði aftur í tímann, í menningararf gamallar ís- lenskrar byggingarlistar, og hún spinnur þau inn í nútímann með óvenjulegri og djarfri listrænni voð. Þau eru hvort tveggja og allt í senn gömul og ný, dul- arfull og auðlesin, lífræn og fáguð. Högna er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, á virkri eldfjallaeyju í ólgandi norðurhafi og innritaðist í arki- tektadeild hins aldargamla École Nationale Supérieure des Baux-Arts í gömlu heimsborginni París skömmu eftir stúdentspróf. Þar hóf hún nám – ein fárra kvenna á deildinni og með lítinn sem engan undirbúning í frönsku máli en lauk engu að síður námi með afburðaár- angri árið 1960. Með lokaverkefni sínu, Garðyrkjubýli í Hveragerði, sló hún tón í byggingarlist sinni sem átti eftir að þróast og þroskast á afar persónulegan hátt og kristallast í frumlegum byggingum bæði hérlendis og í Frakklandi. „Það sem ég gerði,“ segir Högna, „voru gróðurhús og híbýli fyrir þann mann sem átti gróðurhúsin. Hinir ýmsu hlutar byggingarinnar voru tengdir saman svo myndaðist eins konar innra flæði á milli plantnanna og íbúðarhússins. Ég hugsaði um að setja hana inn í lands- lagið þannig að það félli að henni. Ég notaði eftir föngum efni sem er á staðnum og leyfði byggingarefnunum að koma fram í sem óbreyttastri mynd.“ Ein margra viðurkenninga sem Högna fékk fyrir loka- verkefni sitt fól í sér leyfi til að starfa sem arkitekt í Frakklandi. Hún en fékk strax ýmis verkefni í París og flutti því ekki heim en hefur átt starfsferil sinn að mestu leyti þar. En hún hefur án nokkurs vafa unnið sín per- sónulegustu og sterkustu verk hér á Íslandi, þar sem ná- in tenging hennar við sértæka veðráttu og náttúru landsins, auk sterkrar sannfæringar um að byggja með hverjum stað hafa getið af sér einstakar byggingar hér heima. Það er áhugavert að flest verka hennar í Frakklandi hafa verið stórar, opinberar byggingar sem skrifa sig inn í þéttbýlt, manngert umhverfi, á meðan íslensku verkin eru smá í sniðum, persónulegri í útfærslu og í beinu sambandi við náttúrulegt landslag. Byggingarnar úti hverfast um tengsl eða samskipti á milli fólks. „Það voru mest skólabyggingar, alveg frá vöggu- stofum og leikskólum upp í háskóla. Ég hafði mjög ákveðnar hugmyndir um að opna fyrirkomulagið í hús- unum og örva þannig samskipti manna á meðal,“ segir hún. Byggingarnar hér heima hverfast um samskipti manns og náttúru, veðurs og birtu. „Ég held að íslensk bygg- ingararfleifð hafi haft mikil áhrif á mig, en það var ekki meðvitað. Ég veit heldur ekki hvort ég leita í íslenska náttúru, hún býr bara í mér. En ég hugsa mikið um veðráttuna. Og söguna. Ég veit ekki hvernig það brýst fram, en tekur á einhvern hátt völdin í sköpun minni án þess ég fái við ráðið.“ Íbúðarhús sem Högna teiknaði og stendur við Sunnu- braut í Kópavogi er staðsett neðst við voginn í stóru rými landslags. „Þetta var einstök lóð, alveg við hafið, og afskaplega dýrmæt að fást við. Mér fannst mikilvægt að undirstrika andstæður hafsins og hússins. Efnið í byggingunni er ómeðhöndluð sjónsteypa sem í eru lagðar grófar stein- hellur til að sýna eða draga fram styrkinn í því skjóli sem húsið veitir gegn náttúruöflunum,“ segir hún. Húsið er tiltölulega lokað að götunni en innandyra opnast það smátt og smátt að útsýninu og birtunni. Ekkert er lokað af eða heft, en veggjum stillt þannig upp að myndist skútar og kimar eins og lítil rými í rýminu þótt það sé í raun ein órofa heild. Annað íbúðarhús sem Högna teiknaði er við Bakkaflöt í Garðabæ, staðsett í miðju íbúðarhverfi þar sem litlu út- sýni er fyrir að fara. Þar fer hún öfugt að og mótar húsið eins og inn í hól með því að hlaða jarðveg að útveggjum þess og tyrfa yfir. „Þetta hús er ekki lokað í rauninni því birtan er tekin niður með arninum í miðju hússins þaðan sem hún streymir út í meginvistarverur þess: stofuna og opið eldhúsið með stóru borðstofuborði þar sem margir geta komið saman,“ segir hún. „Húsgögn og innréttingar eru steypt með gólfi og veggjum og mynda eins og stöðugan grunn, en veggir eru hreyfanlegir renniflekar úr hlýleg- um við þannig að birta frá gluggum á útveggjum nær djúpt inn í húsið. Það er ekki allt opið heldur er birtunni stjórnað.“ Húsið á Bakkaflöt hefur vakið óskipta athygli og hlotið margar viðurkenningar, en það hefur meðal annars ver- ið úrskurðað eitt af hundrað bestu byggingum 20. ald- arinnar í Evrópu. Nokkur þeirra verka sem Högna gerði tillögu að hér heima voru aldrei byggð en hefðu næsta örugglega auðgað íslenska byggingarlist að sama skapi hefðu þau risið. Meðal þeirra er tillaga að kapellu við Ofanleiti í Vestmannaeyjum þar sem var prestssetur til forna. „Hún var hugsuð staðsett í grasi vöxnu landinu nálægt hamrinum, úti við hafið þar sem sjórinn lemur oft nöt- urlega,“ segir Högna. „Byggingin sjálf er felld inn í landslagið og gengið niður fyrir hana þar sem við ytra anddyri er útikapella. Þegar þar er setið sést út á hafið. Gengið er í gegnum dimm göng inn í kapelluna, en birt- an streymir inn að ofan og beinir athyglinni til himins þegar komið er inn í sjálft guðshúsið.“ Sterkur þráður í verkum Högnu Sigurðardóttur arki- tekts er umhyggja og næmi fyrir efniskennd, samsetn- ingum og frágangi byggingarhluta. Hún stefnir gjarnan festu á móti mýkt, svo sem hörðum steini á móti hlýleg- um viði, skugga á móti birtu, jörð á móti himni – eins og til að koma til móts við eða staðfesta ólík öfl efnis og anda á upplifun og skilning mannsins á umhverfi sínu. Nálgun hennar í byggingarlist sinni er bæði persónuleg, ákveðin og auðmjúk gagnvart höfuðskepnunum. Verk hennar eru bæði einstök og almenn í senn. Stefnumót forms, efnis og birtu draga í höndum Högnu athyglina að líkamlegri skynjun sem aldrei getur orðið annað en persónuleg, innileg og breytileg frá degi til dags. „Ég reyni að draga fram það sem efnið hefur sérstakt til að bera. Sjónsteypan gefur til dæmis svo mikinn kar- akter og er svo sterk. Það er mikilvægt í byggingarlist að sýna fram á hvað maður er að fara,“ segir Högna. Þessi nálgun höfðar til eðlislægrar skynjunar mannsins ásamt því að vekja hugsanir eða hugrenningar um gildi eða dýrmæti fegurðar í tilveru okkar á jörðinni. Efnis og anda í byggingarlist. Arkitektúr Guja Dögg Hauksdóttir guja.dogg@reykjavik.is Opnuð hefur verið á Kjarvalsstöðum sýning á byggingarlist Högnu Sigurðardóttur arki- tekts með áherslu á íslensk verk, byggð sem óbyggð. Högna, sem varð áttræð á dögunum, hefur verið meðlimur frönsku arkitektaakademíunnar frá 1992 og hlaut heiðursorðu Sjónlistarverðlaunanna 2007. Hún er heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands. Sýning- arstjórinn Guja Dögg, deildarstjóri við Listasafn Reykjavíkur, fjallar um verk Högnu. Náttúran, veðráttan og sagan Lesbók

x

SunnudagsMogginn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.