Organistablaðið - 01.12.1994, Blaðsíða 9

Organistablaðið - 01.12.1994, Blaðsíða 9
Undir lok orgelnámsins hjá Páli, einkum síðasta veturinn, 1966 til 1967, var hann orðinn þungt haldinn af þeim sjúkdómi sem hann átti við að stríða síðustu æviárin, það var svokallaður „Parkinsons-sjúkdómur". Vegna þessara veikinda átti Páll í vaxandi erfiðleikum með að spila af því öryggi semjafnan einkenndi orgelleik hans. En þegar hann var sestur á bekkinn við Frobenius-orgelið var hreint ótrúlegt og aðdáunarvert hversu lengi honum tókst með einbeitingu og harðfylgi að spila við heilar kirkjuathafnir án þess að nokkur gæti heyrt að við orgelið sæti sjúkur maður. En Páll gerði ávallt, og allt til þess síðasta, mjög miklar kröfur til sín sjálfs sem hljóðfæraleikara og llytjanda og svo fór að lokum að hann hafði ekki lengur það vald yfir orgelinu að það stæðist hans listrænu kröfur. Ég var hér í kirkjunni við eina af síðustu guðsþjónustunum sem Páll spilaði við. Þá heyrði ég í fyrsta skipti á orgelleiknum hversu langt hann var leiddur. Ég hitti Pál eftir þessa messu. Honum var brugðið, sýndist mér, og hann sagði eitthvað á þá leið að nú væri þetta orðin sér of mikil áreynsla, hann gæti þetta ekki lengur, nú væri kominn tími til að hætta. Og skömmu síðar lét hann af störfum sem dómorganisti eftir að hafa gegnt því starfi næstum þrjá áratugi með þeim glæsibrag sem öllum var minnisstæður. Um svipað leyti varð Páll einnig að hætta kennslustörfum og í samráði við hann tók Haukur Guðlaugsson við og kenndi hann mér síðustu mánuðina til lokaprófsins sem ég tók haustið 1967 í Landakotskirkjunni. Að prófinu loknu fór ég til útlanda og var þar við nám í Austurríki og Þýskalandi um þriggja ára skeið. Á námsárunum og eftir að heim var komið árið 1970 hélt ég vinskapartengslum við Pál, ég kom nokkrum sinnum á heimili hans og hann fylgdist af miklum áhuga með öllu því sem maður var að fást við hverju sinni. Síðustu árin voru honum afar þungbær, hann sat lengstum í hjólastól og átti í erfiðleikum með að tala og tjá sig. Á þessum tíma voru oft í heimsókn hjá honum vinir hans Ragnar Jónsson í Smára, sem einnig þjáðist af sama sjúkdómi og Árni Kristjánsson píanóleikari. Þeir hafa vafalaust spjallað mikið saman, en mér er ennþá minnis- stæðara hvernig þessir þrír þjóðkunnu forystumenn í listalífi þjóðarinnar gátu setið langtímum saman og þagað, án þess þó að það væri á nokkurn hátt óþægilegt þeirn sem nærstaddir voru. Slíkt geta einungis þeir sem þekkst hafa lengi og vel og eru tengdir nánum vináttuböndum. Ég tel ekki ofmælt að Páll ísólfsson hafi haft mjög margþætt áhrif á okkur sem vorum svo lánsöm að njóta tilsagnar hans í orgelleik. Það var ekki bara kennarinn og orgelsnillingurinn heldur einnig og engu síður maðurinn sjálfur, persónuleiki hans og skapgerð, sem höfðu nrótandi áhrif á okkur. Páll var stórmenni bæði að vallarsýn og andans atgervi, fluggáfaður, víðlesinn og hámenntaður í mörgum greinum tónlist- ar, enda bera margþætt störf hans í þágu íslenskrar tónlistar vott um það enn þann dag í dag. Mér hefur oft orðið undrunarefni hvernig þessi maður gat stundað öll sín fjölþættu störf af þeirri elju og samviskusemi sem alkunn var, en jafnframt fundið tíma til að semja stórfengleg tónverk og haldið sér í æfingu sem orgelsnillingur í 9 ORGANISTABLAÐIÐ

x

Organistablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Organistablaðið
https://timarit.is/publication/787

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.