SunnudagsMogginn - 28.03.2010, Blaðsíða 24
24 28. mars 2010
„Já, ég er hundleið á nútímanum. Mér finnst alltaf að heim-
urinn sé að versna. Ég er í húsafriðunarnefnd sem segir kannski
dálítið um mig. Ég sæki í að vernda sumt það sem er gamalt og í
útrýmingarhættu.
Ein af ástæðunum fyrir því að ég ákvað að snúa mér að námi í
miðaldafræðum eru orð sem Ármann Jakobsson sagði í viðtali hjá
mér. Hann vildi meina að við Íslendingar héldum gjarnan að við
værum best á hinum og þessum sviðum, í bankamálum, í popp-
tónlist og svo framvegis. En á einu sviði erum við í fremstu röð og
ævinlega miðlæg, það er í miðaldafræði.
Þessi setning kveikti hugmyndina um að fara í miðaldafræði.
Svo varð hrunið og það sannfærði mig fullkomlega um að þetta
væri leiðin sem ég ætti að ganga. Þegar Ísland hrundi var ég í tíma
í textafræði í Háskólanum. Ég sat inni í kennslustofu í Árna-
stofnun, var umkringd gömlum bókum og hofði á hrörlega krist-
alsljósakrónu og gömul húsgögn sem eru örugglega búin að vera
þarna frá því húsið var byggt. Ég hugsaði: Hér fyrir utan stendur
varla steinn yfir steini, en hér inni er allt jafn verðmætt og það var
áður, ef ekki verðmætara. Þá ákvað ég að fara þessa leið.“
Hvað ætlarðu að gera þegar þú ert orðin miðaldafræðingur?
„Það væri gaman að sameina miðaldafræðin og fjölmiðlaþekk-
inguna og setja fram bókmenntaarfinn okkar á þann hátt að kom-
andi kynslóðir kveiki á honum, sjái hvað hann er merkilegur,
skemmtilegur og mikið djásn. Þessi gamli bókmenntaarfur þarf allt-
af að vera í stöðugri endurskoðun og ég vil gjarnan taka þátt í því.“
Ný ást
Fyrr í viðtalinu nefndirðu kreppu í einkalífi. Þú varst gift Ósk-
ari Jónassyni kvikmyndagerðarmanni en þið skilduð. Skiln-
aður ykkar hjóna var óvæntur, þið virtust svo hamingjusöm. Af
hverju skilduð þið?
„Dóttir mín spurði mig um daginn: Er raunverulegt band í
hjónabandi? Ég svaraði: Kannski ekki raunverulegt band sem þú
getur séð en það er samt band á milli hjóna. Þá sagði hún: Og
slitnar það aldrei? Ég sagði: Jú, þú sérð hvernig fór fyrir okkur
pabba þínum. Hún spurði: Af hverju slitnar þetta band? Ég sagði:
Þegar fólk fer of langt í burtu hvort frá öðru.
Það eru auðvitað ótal ástæður sem maður getur tínt til fyrir
skilnaði. Maður gerir ekki áætlun um að skilja. Þetta er sennilega
ákveðið einhvers staðar annars staðar. Maður gerir heldur ekki
áætlun um að koma með sjöunda barnið í hópinn. Þetta eru örlög
sem mér hafa verið spunnin og ég er mjög sátt við.“
Er mjög erfitt að ganga í gegnum skilnað?
„Þegar maður gengur í gegnum skilnað kemur í ljós úr hvaða
efni maður sjálfur er gerður, og sá sem maður skilur við. Sem bet-
ur fer reyndumst við Óskar ágætlega viðuð. Ljótleikinn varð aldr-
ei ríkjandi í skilnaði okkar. Við erum blessuð að því leyti.“
Svo fannstu nýja ást.
„Já, hún kom algjörlega óvænt.“
Hvernig gerðist það?
„Eftir skilnaðinn lagði ein dætra minna fram ósk um það
hvernig nýi maðurinn minn ætti að vera. Hún sagði að hann ætti
að vera alltaf í stuði og ekki reykja. Mér leist ágætlega á þessa lýs-
ingu. Fólk var oft að spyrja mig hvernig mér liði eftir skilnaðinn
og hvernig börnunum liði. Eitt sinn var ég á vinnutengdum fundi
og þegar honum var lokið fór kona að spyrja mig þessara spurn-
E
va María Jónsdóttir er að hætta að vinna hjá Sjónvarpinu,
en síðasti útsendingardagur hennar er í Gettu betur nú í
kvöld, laugardagskvöld. Við taka sumarfrí og fæðing-
arorlof því Eva María á von á sínu fjórða barni. Eftir það
hyggst hún snúa sér að námi í miðaldafræðum við Háskóla Íslands.
„Ég hef ekki hugmynd um hvort ég sný aftur á RÚV,“ segir Eva
María. „Mér hefur liðið vel þar en mér finnst alveg jafnlíklegt að
ég muni festast í annars konar verkefnum eftir nám. Haustið
2008 tilkynnti ég yfirmönnum mínum á RÚV að ég ætlaði að láta
af störfum og fara í nám í miðaldafræði. En svo kom kreppan og
ég glímdi einnig við mína kreppu í einkalífinu. Þess vegna var
mér ekki stætt á að hætta að vinna þannig að ég tók einungis einn
kúrs í Háskólanum samhliða vinnu.“
Heldurðu að þú munir ekki sakna fjölmiðla?
„Það er alltaf jafn gaman að vinna við dagskrárgerð, hvort sem
það er fyrir útvarp eða sjónvarp. Ef ég sæi fram á mjög krefjandi
verkefni framundan þannig að mér fyndist að ég væri stöðugt að
bæta mig og þróast þá væri enn jafn eftirsóknarvert og áður að
vinna við dagskrárgerð. En nú er fyrirsjáanlegt að hlé verði á ný-
sköpun í dagskrárgerð sökum fjárskorts. Ég held að lífið verði
áhugaverðara ef maður sökkvir sér ofan í verkefni sem eru krefj-
andi og nýstárleg.“
Þú hefur verið það sem kallað er sjónvarpsstjarna, var það
ekki gott fyrir egóið?
„Nei, það skiptir engu máli, þú veist það sjálf. Ég hef unnið við
dagskrárgerð og slík verk verða opinber af því dagskráin birtist í
opnum fjölmiðli. Sem betur fer hefur það aldrei orðið partur af
minni sjálfsmynd að vera það sem fólk kallar sjónvarpsstjarna. Ég
held að sá sem telur sig vera sjónvarpsstjörnu á Íslandi byggi á
fremur veikri sjálfsmynd. Mér finnst ágætt að finna að það hvar
ég bý, við hvað ég starfa eða hverjum ég er gift kemur því ekki við
hvernig ég upplifi sjálfa mig.“
Ég er stráheil
Hefurðu sterka sjálfsmynd?
„Já, núorðið. Auðvitað var ég broguð sem unglingur. Mér
fannst ég ómöguleg og síðan kom tímabil á fullorðinsárum þar
sem mér fannst ég ekki nógu góð í neinu. En svoleiðis tímabil eru
bara til þess að maður átti sig betur á því hver maður raunveru-
lega er og þau kenna manni að treysta ekki á ytri aðstæður.
Fyrir nokkrum árum var ég eitt sinn á fjölmennri kvenna-
samkomu þar sem við konurnar áttum að segja deili á okkur án þess
að nefna starf okkar, stöðu og fjölskylduhagi. Þetta var ekkert mál
fyrir suma en nýjung fyrir mér. Ég gat auðvitað ekki þolað að hafa
ekki gott svar við þessu. Á þessum tíma var ég byrjuð í mikilli sjálf-
skoðun þannig að ég linnti ekki látum fyrr en ég gat svarað þessu.“
Og hver ertu?
„Ég er stráheil. Ég skapaði þá persónu sjálf því það er hún sem
ég vil vera. Heill getur maður ekki verið ef maður er svolítið
óheill, það liggur í orðinu. Auðvitað er ég gölluð, eins og allar
manneskjur eru, en þá er mikilvægt að gangast við göllum sínum.
Það er vissulega erfitt því ekki vill maður einblína á gallana en
maður getur líka reynt að njóta þess hvað maður er stundum
mikill kjáni. Maður á ekki stöðugt að vera að skamma sjálfan sig.“
Af hverju ákvaðstu að læra miðaldafræði, ertu leið á nútím-
anum?
Viðtal
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Hundleið á
nútímanum
Eva María Jónsdóttir er að láta af störfum hjá
Sjónvarpinu og hyggst einbeita sér að námi í
miðaldafræðum. Í einkalífinu eru einnig breyt-
ingar því hún er komin í sambúð og á von á
fjórða barni sínu í sumar.