SunnudagsMogginn - 19.09.2010, Blaðsíða 19
19. september 2010 19
Leikritið Enron vekur spurninguna hvort svona hefði
farið fyrir Enron hvernig sem aðstæður hefðu verið, eða
hvort rekja megi hrun fyrirtækisins til skorts á reglum og
aðhaldi.
„Ég er hlynnt reglum og aðhaldi og held að sumar þær
reglur, sem nú er verið að tala um að innleiða, sérstaklega
í Bandaríkjunum, séu mjög mikilvægar og nauðsyn-
legar,“ segir hún. „Timothy Geithner, fjármálaráðherra
Bandaríkjanna, var nýlega spurður hvort einhvern tím-
ann yrði hægt að breyta hugarfarinu á Wall Street og svar
hans var frekar niðurdrepandi. Hann kvaðst ekki telja að
það væri hægt, en brýnt væri að nota hvata í bland við
reglur og aðhald. En eftir því sem ég tala við fleiri verð ég
sannfærðari um að þetta sé spurning um hugarfar. Flest-
ir, sem vinna í fyrirtækjaheiminum, líta ekki á sig sem
slæmar manneskjur. Þeir eru hins vegar í umhverfi þar
sem þess er krafist að ná sem mestum hagnaði og það
skipti ekki máli hvernig það sé gert. Í Enron var sett fram
ómenguð hugmynd um frjálsan markað og henni var
fagnað. Þannig að ef hægt var að ná ákveðnum hagnaði
skipti ekki máli hvernig það var gert. Ágengni og sam-
keppni voru alltaf af hinu góða.
Skaðlegt hugarfar
Ég held að þetta sé mjög skaðlegt hugarfar. Ef fólk í fjár-
málaheiminum skildi hvaða afleiðingar gerðir þess hefðu
á venjulegt fólk frá degi til dags myndi það flest hegða sér
öðruvísi. Ég segi þó ekki að allir myndu gera það, sjálf
þekki ég fólk, sem gæti ekki verið meira sama. Ég held
hins vegar að það væri hægt að byggja mörg fyrirtæki
upp með öðrum hætti þannig að ekki væri jafnmikil
áhersla á græðgi og samkeppni. Ég held því að umhverfið
sé gallað og á því þurfi að taka.“
Prebble tekur Kaliforníu sem dæmi um þetta. Þar var
reglum breytt og samkeppni innleidd í orkumálum. En-
ron var í fararbroddi að leika á hið nýja kerfi þannig að
verð á orku fór upp úr öllu valdi og íbúar Kaliforníu
máttu búast við rafmagnsleysi í tíma og ótíma.
„Hjá Enron var afstaðan sú að reglurnar, sem þeir
þurftu að fara eftir, væru leikur og þeir þyrftu að komast í
kringum þær eftir mætti í stað þess að velta fyrir sér
hvernig fyrirtækið gæti unnið með stjórnvöldum í Kali-
forníu,“ segir hún. „Þeir hugsuðu bara með sér að þessir
drjólar væru að reyna að stöðva sig og þeir væru í stríði
við þá. Þessi afstaða hafði hræðilegar afleiðingar fyrir allt
ríkið.“
Fyrirboði um fjármálahrun
Enron reyndist vera eins konar fyrirboði um það sem
gerðist á fjármálamörkuðum heimsins haustið 2008 og í
leikritinu minnir margt á það, sem nú hefur komið í ljós
að var í gangi inni í bönkunum í aðdraganda hrunsins á
Íslandi.
„Þetta er ótrúlegt og ég tók eftir því að íslenskir stjórn-
málamenn nota iðulega Enron sem samlíkingu um það,
sem gerðist á Íslandi,“ segir Prebble. „Mér finnst sláandi
og niðurdrepandi að enginn lærdómur skyldi dreginn af
Enron. Ástæðan fyrir því að í lokin læt ég Skilling halda
ræðu þar sem hann segir að við séum öll að einhverju
leyti ábyrg er sú að þegar ég var að kynna mér Enron sá
ég vitnisburðinn um það sem koma skyldi, hvort sem það
var á Íslandi, í Bandaríkjunum eða annars staðar. Eftir
Enron ákváðu Bandaríkjamenn að þar hefði bara verið
um að ræða nokkur skemmd epli og ef hinir seku yrðu
settir í fangelsi þannig að enginn vafi væri á að þeir þyrftu
að taka afleiðingum gjörða sinna myndi þetta aldrei ger-
ast aftur. Þeir fóru ekki ofan í heildarmyndina eða hið út-
breidda hugarfar. Ekki misskilja mig, ég held að þeir hafi
átt skilið að fara í fangelsi, en það var barnalegt að loka þá
inni og halda að þar með væri vandinn leystur.“
Prebble segist hins vegar ekki viss um að þetta muni
breytast við fjármálakreppuna núna.
„Þar horfi ég líka til Íslands,“ segir hún. „Það eru mikil
bönd á milli Bretlands og Íslands og ég skammast mín
fyrir margt sem bresk stjórnvöld hafa gert á und-
anförnum árum og hegðunina gagnvart Íslandi upp á síð-
kastið. Menn eru að reyna að verja sjálfa sig, gæta þjóð-
arhagsmuna, en um leið að finna sökudólginn alls staðar
annars staðar en hjá sjálfum sér.“
Leikritið Enron sló í gegn á Bretlandi, en viðtökurnar
voru öllu dræmari í Bandaríkjunum.
„Málið var dálítið eldfimt um það leyti, sem leikritið
var sett upp í Bandaríkjunum,“ segir Prebble. „Ég held að
þeim hafi þótt dálítið yfirlætislegt að Breti skyldi vera að
fjalla um atburði í Bandaríkjunum, líkt og verið væri að
segja þeim til syndanna. Það vakti hins vegar aldrei fyrir
mér og mér finnst að ábyrgðin liggi hjá okkur öllum og
sérstaklega Bretum. Það vill bara svo til að mér fannst
saga Enron lýsa best því sem ég vildi segja og því urðu
Bandaríkin sögusviðið. Á Bretlandi er líka meiri hefð fyrir
því að hæðast að valdinu en í Bandaríkjunum og því held
ég að það hafi kannski verið dálítið barnalegt af Bret-
anum að koma með þennan boðskap til Bandaríkjanna.
En maður lærir,“ bætir hún við og hlær.
Prebble fer fjölbreyttar leiðir til að sviðsetja sögu En-
ron. Hún notar að hluta form dans- og söngleikja, sjóðir,
sem notaðir voru til að fela skuldir Enron, lifna við á
sviðinu í gervi snareðla og þrjár blindar mýs paufast um.
Snareðlurnar eru vísun í nafnið, sem Fastow gaf sjóð-
unum. „Mér komu strax í hug bíómyndir frá tíunda ára-
tugnum á borð við Júragarðinn og ég hugsaði með mér að
þetta væri gjöf fyrir uppfærsluna,“ segir hún. „Ég vildi
ekki skrifa leikrit, sem snerist bara um menn í her-
bergjum að tala um tölur. Það er kannski það sem fólk
myndi búast við, en myndi verða þurrt og leiðinlegt. Ég
var því alltaf að velta fyrir mér hvort væri hægt að gera
það óáþreifanlega áþreifanlegt. Þannig yrðu sjóðirnir
meira ógnvekjandi.“
Mýsnar tók hún úr auglýsingum Enron, sem hægt er að
finna á Youtube. Í auglýsingunum áttu mýsnar að tákna
öll önnur fyrirtæki en Enron. „Þeir höfðu ekki hugmynd
um að þeir væru að gera grín að sjálfum sér,“ segir hún.
Fjármálaheimurinn kallar ekki fram myndir af glansi
og glaumi, en það er þó gert í leikritinu. „Ef við ætluðum
að sýna fjármálabólu á sviði þjónaði engum tilgangi að
gera það út frá því hvað þetta var fáránlegt eins og við
vitum nú. Við vitum að þetta voru lygarar og glópar. En
það er allt annað andrúmsloft inni í bólunni. Þar ríkir
sæluvíma og ástand sem með sínum hætti er fallegt. Mér
fannst þurfa meira en orð til að sýna hvað fólk var hátt
uppi og það þyrfti hreyfingu og tónlist til að sýna fólki að
það var raunveruleg víma fólgin í að græða peninga.
Annars myndi fólk ekki standa í því og svona hlutir ekki
gerast. Og þó vitum við að fjármálabólur eiga sér stað og
hafa gert það svo öldum skiptir. Það væri óheiðarlegt að
reyna ekki að koma því til skila.“
Enron verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu fimmtu-
daginn 23. september og Prebble verður viðstödd frum-
sýninguna. Þetta er fyrsta uppfærslan á leikritinu á öðru
tungumáli en ensku, en sýningar á öðrum tungumálum
eru í undirbúningi.
„Það er mér heiður að það eigi að setja sýninguna upp á
Íslandi í svona veglegri uppfærslu og ég er mjög spennt,“
segir Prebble. „Ég held að ekkert land hafi orðið jafnilla
úti í fjármálakreppuni og Ísland, sem hefur verið steypt í
kreppu. Eftir því sem ég skoða málið betur verð ég sann-
færðari um að Ísland er réttur staður til að sýna leikritið,
ekki bara vegna þess að Enron hefur verið líkt við Ísland,
heldur vegna þess að heimurinn hefur allur gengið í
gegnum glundroða yfirgangs og sektar og Ísland hefur
orðið rækilega fyrir barðinu á því. Það er mér heiður að
leikhús á Íslandi ætli að fara í gegnum þessi mál með því
að setja upp leikrit eftir mig. Þegar ég byrjaði að skrifa
átti ég aldrei von á að ná svona langt og mér finnst þetta
vera mikil forréttindi.“
2004–2006 Andrew Fastow er höfuðvitni eftir langvarandirannsókn á fyrirtækinu. Þessi fyrrverandi
fjármálastjóri Enron samþykkir dómssátt sem felst í tíu ára fangelsisdómi. Kenneth
Lay er fundinn sekur í sex ákæruatriðum og Jeff Skilling í nítján ákærum af tuttugu
og átta. Kenneth Lay deyr úr hjartaslagi og því fellur afplánun niður. Jeff Skilling er
dæmdur í tuttugu og fjögurra ára fangelsi auk fjögurra mánaða og fjörutíu og fimm
milljóna dollara sekt. Hann situr nú Englewood-fangelsinu í Littleton, Colorado.
2001
Október. Enron
tilkynnir 618
milljóna dollara
tap á þriðja
ársfjórðungi.
2001 Nóvember. Enron leiðréttir reikningsskil síðustu fimm ára.Í stað verulegs hagnaðar sem kynntur hafði verið er tapið
586 milljónir dollara. Í kjölfarið tilkynnir bandaríska verðbréfaeftirlitið að
það muni rannsaka Enron og skoða nánar viðskipti Enron og fyrirtækjanna
sem Fastow stýrði. Samdægurs var lögsókn á stjórnendur, stjórnarmenn og
endurskoðendur fyrirtækisins skráð fyrir dómi.
2001 Desember. Til að bjarga fyrirtækinu reyndi Enronyfirtökusamruna við Dynegy til að halda hluta-
bréfaverðinu uppi og fá þannig lán til rekstrarins. Samningar renna
út í sandinn og Dynegy dregur sig út úr samningaviðræðum vegna
skorts á upplýsingum. Þar með hrundi hlutabréfaverðið endanlega,
Enron er sett í greiðslustöðvun og fyrrum sjöunda stærsta fyrirtæki
Bandaríkjanna sækir um gjaldþrotameðferð.
2010 September.Jeffrey Skilling
var þann 3. sept. 2010 neitað um
lausn úr fangelsi gegn tryggingu.
Alríkisdómarinn Edward C. Prado
féllst ekki á ósk lögmanna Skilling
um að honum yrði sleppt.
2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010
ENRON TRIAL
Höfuðpaurarnir hjá Enron, Andy Fastow, jeff Skilling og Kenneth Lay, voru
dregnir fyrir dóm fyrir stórsvik þegar í ljós kom að fyrirtækið var ímyndin ein.
’
Ef fólk í fjármálaheiminum
skildi hvaða afleiðingar
gerðir þess hefðu á
venjulegt fólk frá degi til dags
myndi það flest hegða sér öðruvísi.
Reuters
AP
AP