Morgunblaðið - 12.02.2010, Blaðsíða 40
Eftir Helga Snæ Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
ÍSLENDINGAR hafa ekki verið þekktir fyrir stefnu-
mótamenningu á borð við þá sem finna má í Banda-
ríkjunum en það er allt að breytast. Stefnumóta- og
skemmtiþátturinn Djúpa laugin, sem hóf göngu sína
árið 2000, er nú kominn aftur á dagskrá SkjásEins og
fyrsti þátturinn verður sýndur í kvöld með nýjum
laugarvörðum, Röggu og Tobbu, þ.e. Ragnhildi
Magnúsdóttur, dagskrár- og kvikmyndagerðarmanni,
og Þorbjörgu Marinósdóttur, blaðamanni, bloggara
og nú einnig dagskrárgerðarmanni. Þættirnir verða
sýndir í beinni útsendingu á föstudagskvöldum kl. 21.
Mikilvægt að hafa gott flæði
Blaðamaður hringdi í Röggu og spurði hvernig
þátturinn yrði hjá þeim Tobbu. „Í fyrsta lagi þá eru
tvö sett af þátttakendum, í stað eins líkt og áður var,
það mætti segja að tempóið væri hraðara í þættinum,“
segir Ragga. Það sé mikilvægt að hafa gott flæði í
þættinum. „Einnig er ýmislegt sem við munum bæta
við þáttinn. Annars vegar er það fræðslutengt efni,
auðvitað mjög létt, og hins vegar persónulegt efni þar
sem við ætlum að fá Íslendinga til að koma og opna
sig um ástarmál sín og reynslu af stefnumótum.“
Ragga segir nú breytta tíma hvað stefnumóta-
menningu varðar. Á þeim tíma er foreldrar hennar
voru að draga sig saman hafi fólk kynnst á dans-
leikjum. Nú sé tíðin önnur, stefnumótamenningin hafi
færst frá börunum út í hið daglega líf, nú kynnist fólk
á netinu, á námskeiðum, í líkamsræktinni og víðar.
„Það þykir ekkert hallærislegt lengur að kynnast
makanum á Facebook eða Einkamál.is,“ segir Ragga.
Þær Tobba ætli að skoða þessa þróun og vera ófeimn-
ar við að ræða þessi mál. „Við höfum verið að vinna
efni fyrir þáttinn og ég get alveg lofað því að ég mun
fá fólk til að opna sig um þessi mál í þættinum.“
Ragga segir markmið þáttarins að draga fólk sam-
an og koma því á stefnumót. Þær Tobba vilji gjarnan
að þátttakendur verði á öllum aldri, ekki aðeins fólk
undir þrítugu og hvetja fólk til að skrá sig á vefsíðu
Skjásins, skjarinn.is. Áhuginn hefur verið mikill og
margir sótt um að taka þátt. Ragga og Tobba fá svo að
glíma við þá þraut að velja fólk í þættina, að skoða
umsóknir og ákveða hver eigi mögulega vel við hvern.
Fólk á djamminu ekki flott dagskrárgerð
– Fer fólk svo á stefnumót líkt og í fyrri þáttum?
„Já, já, það eru alltaf stefnumót en helsta breyt-
ingin hvað þau varðar er sú að viljum taka þau inn í af-
þreyinguna, af börunum. Auðvitað fer fólk út að borða
og kannski á bar en við ætlum ekki að fara að mynda
fólk á djamminu, við ætlum að breyta því, hafa þetta
meira í takt við þessa breyttu menningu. Þar að auki
er það ekki flott dagskrárgerð að mynda fólk á
djamminu, að mínu mati,“ segir Ragga. Þá væri æð-
islegt að fá eitt brúðkaup út úr þessu öllu saman.
– En að lokum, smáheilræði frá sérfræðingnum:
Hvað á fólk ekki að gera á fyrsta stefnumóti?
„Ekki drekka þig pissfulla eða -fullan, ekki tala um
fyrrverandi kærasta eða kærustu og ekki tala bara
um þig sjálfa eða sjálfan,“ segir Ragga og hlær inni-
lega. „Einlægni er lykillinn, þú getur notað það sem
fyrirsögn,“ segir hún að lokum um þáttinn og blaða-
maður tekur hana á orðinu.
„Einlægni er lykillinn“
Djúpa laugin hefur göngu sína á ný í kvöld, eftir fimm ára hlé Átta
þátttakendur verða í hverjum þætti og tvö pör send á stefnumót hverju sinni
Ljósmynd/Sigurjón Ragnar Sigurjónsson
Djúpa laugin Tobba vinstra megin og Ragga hægra megin, í rosalegu stuði að spila billjard.
40 MenningFÓLK
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 12. FEBRÚAR 2010
Og meira af hinu ágæta,og
greinilega Íslandsvæna riti Clash. Í
viðtali við Mugison segir hann frá
nýja hljóðfærinu sínu, talar um
væntanlegan Bretlandstúr og raf-
tónlistarplötu sem hann hyggst
kalla Music For Cafes And Com-
mercials. Allir vildu Mugga gamla
kveðið hafa, líka Bretar …
Sonur Súðavíkur
heillar Breta
Fólk
Eftir Hólmfríði Gísladóttur
holmfridur@mbl.is
DAUÐAROKKSHLJÓMSVEITIN
Beneath efnir í kvöld og á laug-
ardaginn til útgáfutónleika til að
fagna útkomu nýrrar sex laga
þröngskífu. Platan hefur hlotið
nafnið Hollow Empty Void, en hún
var tekin upp í Stúdíó Fosslandi og
Jóhann Ingi Sigurðsson, gítarleik-
ari sveitarinnar, mixaði hana og
masteraði. Aðrir sveitarmeðlimir
eru Unnar Sigurðsson, Gísli Rúnar
Guðmundsson, Ragnar Sverrisson
og Gísli Sigmundsson, fyrrverandi
bassaleikari og söngvari Sororicide.
„Við gerðum samning við banda-
rískt útgáfufyrirtæki í haust, Mord-
brann Musikk. Þeir höfðu samband
upprunalega við Sororicide út af
endurútgáfu á The Entity, sem var
svo hafnað, en í framhaldi af því
vorum við í sambandi við þá annað
kastið,“ segir Gísli. Mordbrann mun
gefa skífuna út og dreifa henni í
Bandaríkjunum en að sögn Gísla
munu strákarnir sjálfir sjá um
dreifinguna hérna heima. Sveitin er
búin að taka upp stærri plötu sem
verið er að vinna í Svíþjóð en það á
enn eftir að semja um útgáfu á
henni.
„Við viljum helst gefa stóru plöt-
una út í Bandaríkjunum og í Evrópu
og vonandi getum við fylgt henni
eitthvað eftir með tónleikahaldi er-
lendis. Við erum að fara að spila í
Þýskalandi í júní á festivali og við
erum svona að skoða hvort við get-
um ekki gert eitthvað meira í kring-
um það í leiðinni, en það er ekkert
komið á hreint ennþá.“
Aðspurður hver munurinn sé á
dauðarokkssenunni hér heima núna
og fyrir tuttugu árum segir Gísli
margt hafa breyst. „Þetta var nátt-
úrlega svakalega lokað, við höfðum
ekki einu sinni netið. Markaðurinn
hérna heima fyrir þessa tegund af
tónlist er mjög lítill og það er nátt-
úrlega eina vitið að reyna að koma
sér á framfæri erlendis,“ segir hann
og heldur áfram: „Munurinn er að-
allega sá að hljóðfæraleikararnir í
dag eru almennt betri, þeir eru
teknískari. Þetta er búið að hafa
tuttugu ár til að þróast og það hefur
gerst svo margt á þessu tímabili að
standardinn hefur breyst svo mikið.
Senan hérna heima er mjög sterk,
það er mikið af góðum þunga- og
dauðarokksböndum hérna. En hóp-
urinn er ekki stór, þetta eru
kannski einhver hundruð manna
sem mæta á tónleika nokkuð reglu-
lega.“
Tónleikarnir 12. febrúar verða
haldnir á Sódómu og hefjast kl. 22
en 13. febrúar verða þeir í Hellinum
í Tónlistarþróunarmiðstöðinni og
hefjast kl. 19.
Beneath kemur sér á framfæri erlendis
Beneath Fagnar útkomu nýrrar sex laga þröngskífu.
Nú er kominn sæmilegasti hiti í
hinum stóra útheimi fyrir vænt-
anlegri sólóplötu Jónsa sem kemur
út 5. apríl næstkomandi. Þannig rit-
ar hið virta Clash Magazine frétt
þess efnis en blaðið skriplar þó
herfilega á skötunni þegar Jónsi er
kallaður Bergison í tíma og ótíma í
langri fréttaskýringu. Einföld upp-
fletting í Wikkipedíunni hefði leið-
rétt þennan misskilning. Í byrjun
vikunnar var tónleikaferð um
Norður-Ameríku staðfest en Jónsi
mun taka tæpt ár í það að fylgja
plötunni eftir. Ítarlegt viðtal við
Jón Þór Birgisson verður að finna í
Sunnudagsmogganum.
Jónsi „Bergison“
gefur út sólóplötu
Allnokkur umræða er um hlut
kvenna í stjórnun fyrirtækja um
þessar mundir og því ágætt að
draga fram þá staðreynd að stjórn-
endur Miðjunnar, afþreyingar- og
menningarvefsins sem er í mikilli
sókn um þessar mundir, eru allir
konur. Ritstjóri er Bryndís Ísfold
Hlöðversdóttir, eini fasti blaða-
maðurinn er Þórhildur Ólafsdóttir,
ljósmyndari er Julia M. Staples og
vefstjóri er Rósa Stefánsdóttir.
Kannski það sé ástæð-
an fyrir farsældinni?
Verst að það var ekki föstudag-
urinn 13! Alltént, Grasrót-
artónleikaröð Grapevine og go-
gyoko er með langlífari
tónleikaröðum og í kvöld koma
fram Dynamo Fog, Tamarin/
(Gunslinger) og eitt leyniband. Tal-
ið verður í á Hemma og Valda að
venju en þess má geta að tónleika-
röðin fagnar árs afmæli nú um
stundir.
13. grasrótartónleik-
arnir haldnir í kvöld
Djúpa laugin hóf göngu sína á SkjáEinum í júní árið 2000. Fyrstu laugarverðir voru Laufey Brá
og Kristbjörg Karí, svo tóku við Dóra Takefusa og Mariko Margrét Ragnarsdóttir og haustið
2001 Þórey Eva og Júlíus Hafstein. Á eftir þeim komu Hálfdán Steinþórsson og Kolbrún
Björnsdóttir og haustið 2003 urðu laugarverðir þrír, Bryndís Ásmundsdóttir, Auður Lilja Dav-
íðsdóttir og Arthúr Karlsson. Djúpa laugin lagðist í dvala árið 2004 en hóf göngu sína á ný í
apríl 2005, undir stjórn Helga Þórs Arasonar og Gunnhildar Helgu Gunnarsdóttur. Síðasti
þátturinn fór í loftið 27. júní 2005 en nú hafa Ragnhildur og Þorbjörg tekið við kyndlinum.
Laugarverðir frá upphafi eru nú orðnir 15 talsins