Skólablaðið - 01.12.1962, Qupperneq 23
-115 -
Voru ferðir þessar stórfróðlegar og
gerðu ráðstefnuna bæði lifandi og
skemmtilega. Einnig kynntumst við borg-
inni miklu betur á þennan hátt en annars
hefði orðið.
Ekki reyndu ítalarnir neitt að leiða
fram hjá okkur það, sem miður fer í
borginni, heldur sýndu okkur ýmislegt,
sem maður skyldi halda, að ekki væri
hægt að sýna útlendingum kinnroðalaust.
Virðist fátæktin vera gífurleg á mörgum
stöðum þarna, einkum þó í Borgata fá-
tækrahverfunum. Þó vakti það athygli
okkar, að upp úr mörgum hrörlegum kof-
anum teygði sig sjónvarpsloftnet eða
gljáfægður Fiat stóð fyrir framan. Þegar
við spurðum að því, hvers vegna fólkið
byggi í svona hjöllum, ef það hefði efni
á að eiga bíl og sjónvarp, þá fengum við
það svar, að það væri ánægt með að búa
svona og kærði sig ekkert um að flytja
í nýbyggingar þær, sem ítalska ríkis-
stjórnin er að láta reisa í stórum stíl í
Róm, til að reyna að bæta úr húsnæðis-
skortinum. Eru byggingarframkvæmdir
svo miklar, að byggingariðnaðurinn er
stærsta atvinnugreinin í borginni. Sem
dæmi um hina öru stækkun borgarinnar
má nefna, að meir en 300 nýjum götum
er gefið þar nafn á ári hverju.
Ekki er þó öllum byggingum sinnt
sem skyldi, t. d. er skorturinn á skóla-
húsnæði gífurlegur. Þannig vantaði árið
1961 1700 skólastofur fyrir börn á barna-
skólaaldri og 950 fyrir gagnfræðaskóla-
stigið. Einnig er öll þjonusta eins og
strætisvagnaferðir og verzlanir mjög
ófullkomin í þessum nýju hverfum enn
sem komið er.
A þessum ferðum okkar um Róm kom-
um við á alla merkustu staði borgar-
innar: Forum Romanum, Capitolium,
Colosseum, kirkju heila^s Péturs o. s.frv.,
en til að lengj'a ekki frasgögnina um of
ætla ég ekki að fara nánar út í þá sálma
hér.
Kvöld eitt var okkur öllum boðið í
útióperuna Terme de Caracalla. Um
tíma leit þó helzt út fyrir, að ekkert
yrði úr för þangað, því um sjöleytið um
kvöldið skall á þrumuveður með tilheyr-
andi eldingum og rigningu. Það stóð þó
ekki lengi yfir og eftir á var loftið
hreint og tært og hin kæfandi hitamolla,
sem gerir manni þungt um andardrátt,
horfin. Skilyrði voru því hin ákjósan-
legustu. Héldum við til rústanna af böð-
um Caracalla keisara, en á þeim er úti-
óperan reist. Inn á milli hálfhruninna
turna og veggja umvöfðum grænum vafn-
ingsviði, er sviðinu, því stærsta í heimi,
komið fyrir. Allt í kring teygja krónu-
mikil tré sig upp í stjörnubjartan nætur-
himininn og ljóskastarar, sem komið er
fyrir af einstakri smekkvísi, varpa þægi-
legum töfrablæ á umhverfið. Og í þess-
um fagra og sérkennilega ramma sáum
við óperuna La Traviata. Það er kvöld,
sem seint gleymist.
Þrjár opinberar móttökur voru hafðar
fyrir okkur. Að kvöldi hins 31. ágúst
hafði Segni Italíuforseti boð inni fyrir
hluta þátttakenda, og 2. sept. veitti páf-
inn okkur áheyrn í móttökusal sínum í
Vatikaninu. Síðasti dagur ráðstefnunnar
var 4. sept. Þá um kvöldið bauð vara-
utanríkisráðherra Italíu okkur til stór-
glæsilegrar móttöku í Villa Madame
Martedi, sem stendur utan í hlíð Monte
Mario í Róm. Þegar það sama kvöld
héldu þeir fyrstu af stað heimleiðis, en
daginn eftir var almennur heimfarardag-
ur. Þá tvístraðist þessi glaði hópur,
sem hafði lifað og starfað saman níu
dásamlega daga í borginni eilífu. Var
ekki laust við, að skilnaðurinn yrði sum-
um sár og mátti sjá höfug tár hrynja af
meyjarhvörmum. Allir hurðu þó á braut
með þá von í brjósti, að mega hittast
síðar á lífsleiðinni.
Af mínum högum er það að segja, að
ég dvaldist enn nokkra daga á ítaliu.
Lagði ég land undir fót og hélt suður til
Napóli, Pompeii og Caprí. Ekki ætla
ég að rekja þá ferðasögu hér. Það
verður að bíða betri tíma.
Italíu yfirgaf ég svo þann 9. sept. og
hóf ferð mína yfir þvera Evrópu með
fyrsta áfangastað í Sviss og svo koll af
kolli unz ég kom aftur til Reykjavíkur
þann 19.sept. Það var sannarlega þægi-
legt að stíga aftur á íslenzka grund
eftir langt og strangt ferðalag og þrýsta
hendur kátra bekkjarfélaga, sem tóku
mér opnum örmum á flugvellinum.
Sigurgeir Steingrímsson