Morgunblaðið - 30.07.2010, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 30.07.2010, Blaðsíða 25
óvörum, langt fyrir aldur fram, þá notaði hún sinn tíma vel. Hún lifði líf- inu lifandi og lífsgleðin, orkan og góða skapið var alltaf með í för. Það eru forréttindi að hafa þekkt slíka mann- eskju. Það eru forréttindi að hafa þekkt Ingu. Það sáu það allir sem stigu fæti inn á Rauðalækinn og seinna meir Selvogsgrunn að hér var töffari á ferð. Hvort sem um var að ræða þær ljósmyndir sem hún safn- aði, listabækurnar í bókahillunum eða málverkin sem hún málaði. Svo ekki sé minnst á þær svarthvítu ljósmynd- ir sem hún tók sjálf. Það koma ótal myndbrot í hugann. Pössun á Rauðalæknum. Vel valdar djassvínylplötur á fóninum. Þau fjöl- mörgu jól og áramót sem hún átti með okkur. Skrýtna snakkið sem var oft á boðstólum hjá henni. Esjugangan. Akureyrarferðin. Þegar hún sýndi mér svarthvítu myndirnar sem hún tók hjá Hiro, góðar minningar sem verða vel varðveittar. Ég er Ingu æv- inlega þakklátur fyrir þann ósvikna áhuga sem hún sýndi mér á öllu því sem ég tók mér fyrir hendur og veit að ég er ekki einn um það. Það er óhjákvæmilegt að slík manneskja skilji eftir sig mikið tóm í lífi margra. Þó að það sé sárt að kveðja, þá er ég þakklátur fyrir að hafa átt jafn ynd- islega frænku og vinkonu eins og hún Inga var. Anton Kaldal Ágústsson. Elsku vinkona, margt kemur upp í hugann og það er þungt að setjast niður og skrifa kveðju til þín. Minningarnar eru svo margar og góðar um góða vinkonu. Þetta ljóð vil ég tileinka þér. Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi, hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér. Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi, og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér. (Ingibjörg Sigurðardóttir) Hvíl í friði, kæra vinkona. Sigríður Sigurðardóttir. Það er með mikilli sorg í hjarta að við setjumst niður og ritum þessar línur til að minnast okkar yndislegu vinkonu, Ingibjargar Kaldal, sem kvaddi þennan heim svo skyndilega og óvænt. Ingibjörg var dásamleg manneskja sem kannski var of góð fyrir þennan heim. Hún var sérstaklega listræn í sér og hafði næmt auga fyrir listum og hafði yndi af góðri tónlist. Ingi- björg var ávallt traustur vinur vina sinna. Hún var ákaflega lítillát, við- kvæm, tilfinningarík, ljúf og góð kona sem vildi öllum vel; ávallt reiðubúin að hjálpa ef hún varð vör við einhver vandamál. Ingibjörg öfundaði aldrei neinn en samgladdist alltaf öðrum í velgengni, og var sátt við sitt. Aldrei heyrðum við Ingibjörgu nokkurn tíma tala illa um nokkra manneskju. Vinátta okkar var mikil og áttum við saman óteljandi stundir þar sem við glöddumst saman, ræddum sam- an um lífið og tilveruna, um listir, menningu og allt milli himins og jarð- ar. Það er svo margs að minnast frá liðnum árum og er mér sérstaklega hjartfólgin minningin um ferð til Par- ísar með Ingibjörgu, Sigga og Rúnu í tilefni af sextugsafmæli Ingibjargar. Ingibjörg var mikil heimskona og er yndisleg minningin um hana þar sem hún gengur um götur Parísar í fylgd ástvina sinna, með bros á vör, klædd á sinn einstaka og smekklega hátt svo að eftir var tekið. Hún naut þess að anda að sér menningu og stemningu Parísarborgar og tylla sér niður til að horfa á iðandi mannlífið. Djasstónlist, heimsborgaralegt andrúmsloft, góð- látlegt bros, mildur hlátur. Nærvera hennar var griðastaður í veröld þar sem allt er á fleygiferð. Ingibjörg var dásamleg vinkona, bæði heillandi og skemmtileg, og verðum við hjónin ávallt þakklát fyrir að hafa átt hana að vini. Ingibjörg hafði erft listrænt auga föður síns, Jóns Kaldals ljósmyndara, en hann er einn þekktasti ljósmyndari landsins fyrir frábærar ljósmyndir sínar. Ingibjörg var einnig lærður ljósmyndari og rak ljósmyndastofu föður síns í nokkur ár eftir lát hans. Síðar starfaði hún gjarnan við verslun með fallega muni og nutu listrænir hæfileikar hennar sín ávallt vel á þeim vettvangi. Ingibjörg hafði einstaklega hlýja og þægilega nærveru og nutu samferðamenn hennar þess hvort sem hún var meðal vina eða við vinnu. Ingibjörg vann í hjáverkum við ljós- myndir föður síns og sá um að koma þeim á framfæri á sinn hæverska hátt. Veggir með ljósmyndum Jóns Kaldals prýða nú mörg falleg heimili. Elsku Ingibjörg, að leiðarlokum kveðjum við þig með sárum trega, þú verður alltaf hjá okkur í huga okkar og við munum aldrei gleyma þér. Við þökkum þér fyrir vináttu þína og dásamleg kynni og allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Siggi minn og Rúna, þið hafið misst mikið og við vottum ykkur og börnum ykkar okkar innilegustu samúð. Fjöl- skyldunni allri á Laugarásveginum sendum við okkar innilegustu samúð- arkveðju. Ásta og Haukur. Mig langar að minnast Ingibjargar minnar í örfáum orðum. Dýrmætur vinskapur Ingu við mömmu og Rósu frænku færði mér þá gæfu að tengj- ast Ingu til fjölda ára, fyrst í sumarfríi á Rimini 1977 og síðar á lífsleiðinni sem yndislegri vinkonu. Það var alltaf gott að heimsækja Ingu í spjall um allt og ekkert, fá að gráta ef á þurfti að halda og hlæja þegar tilefni gafst til – sem var tals- vert oft. Ávallt var hægt að leita til hennar í trúnaði með öll sín mál og fá leiðsögn og góð ráð. Maður fór alltaf ríkari í sálinni eftir að hafa verið í heimsókn hjá Ingu. Ég gleymi því aldrei þegar Inga sagði mér frá New York-árunum og minntist í lítillæti sínu á að hafa hitt John Lennon. Ég átti ekki til orð af aðdáun. Það er sárt þegar Guð kallar á útvalda engla sína alltof fljótt. Í byrjun sumars fórum við fimm saman til Berlínar og áttum ljúfar stundir. Á sólríkum sunnudegi í Berl- ín sátum við Ingibjörg tvær saman og borðuðum sushi og spjölluðum mikið. Þetta spjall var einstaklega eftir- minnilegt þar sem við ræddum mikið fortíðina. Í lok ferðarinnar tók Inga upp myndavélina mína og smellti einni mynd af mér og sagði: Þetta er gott sjónarhorn. Það er mikill sjónarsviptir að elsku Ingibjörgu, einstaklega glæsilegri og flottri konu. Elsku Siggi og fjölskylda, hugur minn er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum og ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Birna G. Guðmundsdóttir. Kær vinkona, Ingibjörg Kaldal, er látin, langt um aldur fram. Hún varð bráðkvödd að heimili sínu aðfaranótt 22. júlí. Stórt skarð er höggvið í hóp- inn. Kynni okkar fimm vinkvenna hófust upp úr 1970. Þá vann Ingibjörg á ljósmyndastofu föður síns að Laugavegi 11, hafði lokið námi í greininni. Stofan varð eins konar samkomustaður okkar. Þar var gott að líta inn – þar var límið í hópnum – Ingibjörg hnýtti okkur saman, í gegn- um hana urðum við hópur. Ingibjörg var góður og vandvirkur ljósmyndari og voru ljósmyndir alla tíð stór þáttur í lífi hennar þó svo starfsvettvangur yrði annar. Þar þroskaðist hennar næma auga og feg- urðarskynið styrktist. Höfum við all- ar notið góðs af, og hvert á nú að leita næst þegar á að hengja upp mynd eða flytja til sófa, tala nú ekki um ef mála á íbúðina? Hver á að finna rétta gráa tóninn? Litaskynið algjörlega óbrigð- ult. Ingibjörg var borgarbarn en um leið heimsborgari, alltaf glæsileg, virðuleg í fasi, kvik í hreyfingum, kurteis en ákveðin og tranaði sér aldrei fram. Hugulsemi var henni í blóð borin, alltaf að gefa og miðla til annarra. Tónlistin var rokk og ról en síðar tók djassinn yfir; Miles, Dizzy og Chet Baker voru hennar menn, og stundum var dansað fram á nótt. Hennar útlönd voru stórborgirnar all- ar með tölu, bjó um tíma í New York og líkaði vel. Við áttum eftir að fara aðra ferð til Flórens, einnig var Tók- ýó ofarlega á blaði. Nú verða þær ferðir ekki farnar. Ingibjörg lögð af stað í annað ferðalag án okkar. Ekki framar grínast og hlegið saman í hóp, engin framtíðarplön lögð. Þýðingar- laust að deila við almættið – það er sem er og ekkert fær því breytt. Með söknuði og trega kveðjum við Ingibjörgu Kaldal. Samúð okkar er hjá fjölskyldunni, syninum Sigga, Rúnu konu hans, barnabörnunum þremur Villa, Írenu og litlu Ingi- björgu. Systurinni Daggý, mágkon- unni Steinu og fjölskyldum. Ásta, Halldóra (Ditta), Rósa og Þóra. Það er komið að þeirri stund að kveðja góða vinkonu og samstarfs- félaga til nokkurra ára. Ótímabært fráfall Ingu kom mér og öðrum í opna skjöldu. Unglegt yfirbragð og háttvísi hennar villti um fyrir fólki hvaða ald- ur hún bar í raun og veru enda glæsi- leg og ungleg kona á ferð. Inga hafði mikla smekkvísi til að bera og innsæi fyrir fögrum hlutum og samsetningu þeirra. Slíkir hæfileikar komu sér vel í því starfi sem hún valdi sér. Ég fékk að njóta hæfileika Ingu sem starfs- félagi hennar til nokkurra ára. Fágun og smekklegheit voru alltumlykjandi þar sem Inga tók til hendi. Slíkir hæfileikar voru efalaust ekki langt sóttir því faðir hennar var einn af merkilegustu listamönnum þjóðar- innar, Jón Kaldal ljósmyndari. „Ég þarf að segja þér svo margt“ voru síðustu orðaskipti milli mín og Ingu í síma. Símtalið endaði svoleiðis því hún var að fara með ömmubarni sínu í skemmtigöngu um miðbæinn. Vegna þess hve yndislegan og já- kvæðan persónuleika Inga bar er ég sannfærð um að það hafi verið eitt- hvað gott og skemmtilegt sem hún vildi segja mér. Eitthvað sem byggði upp og gerði fólk glatt og til að fegra umhverfið. Besta orðið til að lýsa hennar persónuleika er fagurkeri sem hún kunni að deila með öðrum. Smáir sem stórir hlutir fengu annað og betra útlit þegar Inga hafði hand- leikið þá. Svo gat hún gantast og sagt sögur af fólki en þó aldrei svo að það meiddi eða særði enda ekki stíll Ingu að sverta umhverfið sitt með ein- hverjum neikvæðum hugsunum eða gjörðum. Hún var mér traust og góð vinkona sem lét sér annt um velferð mína og minna. Lét sig varða börnin mín og þeirra líf, spurði mig ávallt hvort lífið léki ekki við mig og mína. Gaf frá hjarta sínu allt það besta sem hún átti. Ég mun ávallt standa í þakk- arskuld fyrir að hafa kynnst svo góðri vinkonu. Nú er falleg og góð vinkona farin sinn veg og það sem hún á eftir að segja mér fæ ég að heyra síðar. Votta öllum aðstandendum mína dýpstu samúð. Drífa Harðardóttir. Það er erfitt að trúa því að ég hitti ekki Ingibjörgu Kaldal aftur. Fyrir rúmlega viku hittumst við á Þróttara- vellinum þar sem við vorum að fylgj- ast með honum Villa okkar. Það var alltaf gaman að hitta Ingibjörgu og mér fannst sérstaklega gaman að heyra hana tala um Villa. Það kom glampi í augu hennar enda var sam- band þeirra fallegt og einlægt og Ingibjörg fékk aldrei nóg af því hrósa honum og segja sögur af honum. Ingibjörg var einstök kona, hún hugsaði vel um sína nánustu vini og ættingja og var með eindæmum gjaf- mild og örlát. Hún var svo stolt af barnabörnunum sínum og naut þess að dekra við þau. Villi, Irena og Ingi- björg litla nutu svo sannarlega góðs af því. Hún var mikill fagurkeri og hafði gott auga fyrir hönnun og listum. Ljósmyndasafn hennar er einstakt enda var hún frumkvöðull í ljósmynd- un og því að kenna fólki að meta góðar ljósmyndir. Þeir eru ófáir sem smit- uðust af þessum áhuga hennar og hófu að safna ljósmyndum. Fag- mennska hennar, auga fyrir smátrið- um og nákvæmni endurspeglaðist í öllu hennar starfi. Ingibjörg var svo lánsöm að eiga góða og samheldna fjölskyldu og vini sem veittu henni mikla gleði og studdu einnig á erfiðum tímum. Ég mun minnast hennar um ókomna tíð sem yndislegrar ömmu og góðrar vin- konu. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar, Siggi, Rúna, Villi, Irena, Ingi- björg, Daggý og fjölskyldunnar allrar og vinkvenna. Megi guð veita ykkur styrk til að takast á við sorgina. Þórey Vilhjálmsdóttir. Kveðja frá starfsfélögum í Tekk Company Við héldum að þetta yrði bara venjulegur vinnudagur, fimmtudag- urinn 22. júlí, þangað til við uppgötv- uðum að Ingibjörg var ekki mætt, hún sem mætti aldrei mínútu of seint nema vera búin að láta okkur vita. Við kynntumst Ingibjörgu fyrst ár- ið 2000 þegar Tekk kaupir Company. Því var strax hvíslað í eyra okkar að við ættum að reyna að halda í hana Ingibjörgu, starfsmann verslunarinn- ar. Eftir smá umhugsunarfrest ákvað hún að gefa þessum nýju vinnuveit- endum tækifæri og það er enginn vafi í okkar huga að það dýrmætasta sem við fengum út úr þeim viðskiptum var að njóta krafta Ingibjargar í þessi 10 ár. Ingibjörg átti stóran hóp viðskipta- vina sem litu oft inn hjá okkur til að fá ráðleggingar hjá henni varðandi heimilið og ekki síst að spjalla við hana um heima og geima. Þeir voru ófáir dagarnir sem hún sagðist vera búin að drekka allt of mikið kaffi – „en það komu bara svo margir sem ég varð að drekka einn bolla með,“ sagði hún svo. Þó Ingibjörg hafi verið ald- ursforsetinn í hópnum var aldrei neinn vafi á því að hún var töffarinn í hópnum. Hún var alltaf með nýjustu tískustraumana á hreinu, þorði að vera öðruvísi og var okkar fyrirmynd í klæðaburði, enda valin best klædda kona landsins fyrir nokkrum árum. Hún hefur frá upphafi verið órjúf- anlegur hluti af kompaníinu okkar, hún fegraði tilveruna með fallegum uppstillingum í versluninni en ekki síst með fallegum orðum, alltaf svo næm á hvernig okkur leið. Fyrst til að hrósa þegar við gerðum eitthvað vel og svo tilbúin með uppörvandi orð þegar við þurftum á þeim að halda. Við erum enn að reyna að átta okk- ur á að hún sé ekki lengur hérna með okkur og við vitum að skarðið sem hún skilur eftir verður aldrei fyllt. En hún verður áfram með okkur í hjört- um okkar, hvetjandi okkur áfram. – „Jæja krakkar, nú kveikjum við á kertum og góðri músík og verðum í stuði í dag“ – og við vitum að nú verð- um við að vera duglegri að bjóða upp á kaffi, hrósa hvert öðru meira og passa betur hvert upp á annað. Ingibjörg átti góða fjölskyldu sem hún talaði oft um, alltaf af svo mikilli væntumþykju og stolti. Við sendum þeim öllum okkar innilegustu samúð- arkveðju. Ég lít í anda liðna tíð, er leynt í hjarta geymi. Sú ljúfa minning – létt og hljótt hún læðist til mín dag og nótt, svo aldrei, aldrei gleymi. (Halla Eyjólfsdóttir.) Elín, Eyþór, Telma, Finnur, Margrét, Hörður, Drífa, Katrí, Carmen, Mila, Guð- mundur, Kolbrún, Helena, Birgir og Herdís. Minningar 25 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. JÚLÍ 2010 ✝ Elskulegur bróðir okkar og frændi, GUNNAR MÁR HJÁLMTÝSSON, verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni þriðjudaginn 3. ágúst kl. 15.00. Ásdís L. Hjálmtýsdóttir Callaghan, Jóhanna H. Hjálmtýsdóttir Thorarensen og frændsystkinin. ✝ Okkar ástkæri, KRISTJÁN HRAFN HRAFNKELSSON, Lækjarbergi 27, Hafnarfirði, lést sunnudaginn 25. júlí. Útför hans fer fram frá Bústaðakirkju fimmtudaginn 5. ágúst kl. 13.00. Hrafnkell Óskarsson, Þórhildur Sigtryggsdóttir, Hrafnhildur Dóra Hrafnkelsdóttir og fjölskylda, Anna Kristín Karlsdóttir, Hanna Margrét Hrafnkelsdóttir og fjölskylda, Sigtryggur Óskar Hrafnkelsson, Sigtryggur Helgason. ✝ Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda- faðir, afi og langafi, BJARNI G. KRISTINSSON fyrrv. yfirtollvörður, Faxabraut 40c, Keflavík, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mánudaginn 19. júlí. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna. Aðstandendur þakka auðsýnda samúð og hlýhug. Sérstakar þakkir færum við starfsfólki D-álmu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, fyrir hlýja og góða umönnun. Alda Sigmundadóttir, Bragi Bjarnason, Anna Klara Hreinsdóttir, Kristinn Bjarnason, Sigrún Sigvaldadóttir, Sigmundur Bjarnason, Bjarklind Sigurðardóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.