Morgunblaðið - 28.02.2011, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 28.02.2011, Blaðsíða 17
17 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 28. FEBRÚAR 2011 Stuðningsmenn Þessar ungu stúlkur hvöttu kvennalið Fram til dáða í bikarúrslitunum á móti Val á laugardag og höfðu ærna ástæðu til að gleðjast þegar titillinn var í höfn. Ómar Lagabálkar og réttarkerfi eru ein merkasta útflutnings- vara þjóðanna sem byggja Vestur- Evrópu. Nær allar þjóðir heims hafa flutt inn lagabálka og dómskerfi Englend- inga, Frakka eða þýskumælandi þjóða. Norrænar þjóðir byggja þó á eigin lög- um. Það hefur vakið athygli fræði- manna að nær engin tengsl eru milli löghlýðni þjóða og lögbók- anna sem þær nota. Menn fara sínu fram. Þeir sem heimsækja er- lendar þjóðir fá strax vísbendingu um réttarfar landsmanna með því að fylgjast með ökumönnum í um- ferðinni, til dæmis hvort þeir gefa stefnumerki. Sagan sýnir að stjórnarskrár og einstakar greinar þeirra eru oft áhrifalausar. Þrælahald í Bandríkjunum blómstraði í skjóli stjórnarskrár þar sem ritað var að allir menn væru jafnir en í stjórnarskrá Stalíns, annars mesta fjöldamorðingja sögunnar, var mannréttindakaflinn sá lengsti í heimi. Fjármálakerfið á Íslandi, sem hrundi síðla árs 2008, var ekki innlend afurð – við fluttum kerfið inn frá Evrópu- sambandinu. Þess vegna er til dæmis deilt um það hvort inn- lánstryggingakerfið íslenska hafi verið nákvæmlega í samræmi við reglur ESB. Og nú flýgur sú saga um hug- arheima að gömul og slitin stjórnarskrá lýðveldisins hafi átt mikla sök á fjármálahruni og spillingu á nýrri öld. Hugmynda- smiðir segja ábúðarfullir: án nýrrar stjórnarskrár muni sagan endurtaka sig; vönduð ný stjórn- arskrá mun gerbreyta framferði stjórnmálamanna, auðmanna og almennings. Öll vitum við að Hæstiréttur Ís- lands hefur nýlega ógilt kosningu til stjórnlagaþings og stjórnvöld og almenningur glíma við vandann sem upp er kominn. Gamall rit- stjóri segir í bloggi sínu, að besta lausnin sé að gefa Hæstarétti kjaftshögg. Hins veg- ar er haft eftir göml- um lagaprófessor að fyrsta skref okkar eigi að vera að fylgja núgildandi lögum. Kjaftshögg á hæsta- rétt er argentínska leiðin. Í Argentínu í marga áratugi hafa allar ríkisstjórnir nema ein vanvirt hæstarétt landsins: hunsað dómsnið- urstöður, fangelsað dómara, fjölgað dómurum til að fá hagstæðar niðurstöður eða bein- línis lokað dómnum. Því má bæta við að stjórnarskrá Argentínu er eftirmynd þeirrar bandarísku. Fjölmiðlar flytja þá frétt að á Alþingi Íslendinga sé sennilega meirihluti fyrir frumvarpi um að hunsa dóm Hæstaréttar og fela þeim sem kjörnir voru ólöglega til stjórnlagaþings að skrifa nýja stjórnarskrá. Það er einnig haft eftir flestum þeirra sem upp- haflega náðu kjöri að þeir muni sætta sig við þennan gjörning. Hjá norrænni þjóð eru þetta ótrúleg tíðindi. Hvað er á seyði? Sjá menn ekki að böðulgangur af þessu tagi við gerð nýrrar stjórnarskrár er sömu ættar og böðulgangur fjármálafurstanna fyrir og eftir hrun? Rætur hrunsins voru einmitt í vinnu- brögðum af þessu tagi. Ef fram fer sem horfir verður ný stjórn- arskrá áttaviti sem í vantar nál- ina og vísar samtímis til allra átta. Ég leyfi mér að vona að þeir sem nú syngja laglaust finni hinn rétta tón áður en skaðinn er skeður. Eftir Þráin Eggertsson » Sjá menn ekki að böðulgangur af þessu tagi við gerð nýrr- ar stjórnarskrár er sömu ættar og böð- ulgangur fjármálafurs- tanna fyrir og eftir hrun? Þráinn Eggertsson Höf. er háskólakennari. Laglausir syngja Í kjölfar síðustu ákvörðunar forseta Ís- lands að synja svoköll- uðum Icesave-lögum staðfestingar hefur mikið verið rætt um stöðu og hlutverk for- setans, m.a. af stjórn- málamönnum á Al- þingi, en á þeim vettvangi hefur því verið haldið fram að synjun forseta sé and- stæð þingræði og lýðræði og sé því rétt að afnema eða a.m.k. þrengja málskotsréttinn. Umræða um grundvallaratriði íslenskrar stjórn- skipunar er eðlileg við aðstæður sem þessar og almennt af hinu góðu, ekki síst þegar þjóðin gengur til þess verks að endurskoða stjórnlög sín. Í slíkri umræðu er þó mikilvægt að halda til haga hugtökum og stað- reyndum um stjórnskipun Íslands. Deilur um hlutverk og stöðu for- setans eru ekki nýjar af nálinni þótt þær hafi tekið á sig nýja og breytta mynd á síðasta áratug 20. aldar, en þá fyrst var því haldið fram fullum fetum af stjórnmálamönnum og fræðimönnum að málskotsréttur forseta væri ekki það sem hann sýndist. Eftir synjun forseta á stað- festingu á fjölmiðlalögum árið 2004 og þjóðaratkvæðagreiðslu um svo- kölluð Icesave-lög (Icesave II) 6. mars 2010 hefur sagan afsannað þennan málflutning fyrir sitt leyti. Eftir stendur hins vegar spurningin hvort og hvernig umrædd heimild forseta samræmist lýðræði, þing- ræði og stjórnskipun lýðveldisins að öðru leyti. Árið 1944 ákváðu Íslendingar að stofna lýðveldi í stað þess t.d. að stofna konungsríki líkt og Norð- menn höfðu gert árið 1905. Þótt lítt hafi farið fyrir almennri umræðu um lýðveldishugtakið við undirbúning stjórnarskrárinnar 1944, verður að ganga út frá því að í þessari ákvörð- un hafi falist meðvituð ákvörðun um að æðsta vald ríkisins væri, form- lega, á hendi aðila sem sækti umboð sitt beint til þjóðarinnar í lýðræð- islegum kosningum. Í samræmi við lýðveld- ishugmyndina kemur ekki á óvart að um það var einnig almenn samstaða að fela for- seta hins nýja lýðveldis raunveruleg völd enda þótt þingmenn hafi ekki verið á eitt sáttir þegar skilgreina átti þessar heimildir nánar. Í stofnun embættis forseta fólst dreifing valds og aðhald gagn- vart Alþingi. Algjöru eða lítt takmörkuðu þingræði sem hafði viðgengist í raun eftir að kon- ungur gaf upp synjunarvald sitt var þannig hafnað. Að þessu leyti var stofnun forsetaembættisins í sam- ræmi við þær stjórnarskrár- hugmyndir nútímans sem komu fram með stjórnarskrárgerð og stofnun Bandaríkjanna og frönsku mannréttindayfirlýsingarinnar við lok 18. aldar. Þó er erfitt að greina í umræðum um stjórnarskrár- frumvarpið að nokkur hafi talið mál- skotsréttinn stefna völdum Alþingis í verulega hættu. Þingmenn voru sér þess þó meðvitandi að óþægindi gætu fylgt forseta sem beitir mál- skotsréttinum í tíma og ótíma. Nið- urstaðan árið 1944 varð þjóðkjörinn forseti og málskotsréttur hans til þjóðarinnar samkvæmt núgildandi 26. gr. stjórnarskrárinnar. Heimild forseta samkvæmt 26. gr. stjskr. samrýmist prýðilega lýðveld- ishugtakinu, grunnrökum ritaðrar stjórnarskrár (stjórnarskrárfestu) svo og hugmyndum um valdreifingu. Glaðbeittar yfirlýsingar um að völd þjóðkjörins forseta séu andlýðræð- isleg teldust auðvitað broslegar ef þeim fylgdi ekki sú ráðagerð að breyta stjórnskipun landsins. Að því er þingræðið varðar er til þess að taka að Íslendingar völdu sér stjórn- arform þar sem alræði Alþingis var hafnað og þjóðkjörnum forseta veitt sjálfstætt vald til þess að vísa málum til þjóðarinnar. Íslendingar, sem samþykktu stjórnarskrána sína með 95% greiddra atkvæða, gerðu þann- ig frá upphafi ráð fyrir beinu lýðræði við lýðveldisstofnun – beinu lýðræði sem stjórnmálamenn vilja almennt auka á tyllidögum en virðast oft vilja takmarka þegar leggja á athafnir þeirra sjálfra í dóm þjóðarinnar. Núgildandi stjórnskipun Íslands gerir ekki ráð fyrir ótakmörkuðu valdi Alþingis heldur beinu aðhaldi þjóðarinnar með þinginu fyrir at- beina forseta Íslands. Stjórn- arskráin gerir hins vegar einnig ráð fyrir aðhaldi Alþingis gagnvart for- seta Íslands. Þannig getur þingið krafist þess að forseta sé vikið frá með þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 11. gr. stjskr. Ef þingið telur að forseti hafi misbeitt valdi sínu ætti það e.t.v. að skjóta því máli til þjóðarinnar á þessum grundvelli í stað þess að leggja á ráðin um að takmarka völd forseta með það fyrir augum að koma í veg fyrir að þjóðaratkvæða- greiðslur verði í erfiðum málum. Enginn dómur verður lagður á það hér hvort skynsamlegt hafi verið af forseta Íslands að synja umrædd- um lögum staðfestingar og vísa þeim til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar. Hitt er einfaldlega stað- reynd að málið er ekki lengur til meðferðar hjá Alþingi heldur er það þjóðin sjálf sem mun taka um það ákvörðun. Í anda þess sama lýðræðis og ákaft er vísað í til stuðnings völd- um Alþingis hlýtur það nú að teljast forgangsmál stjórnvalda að vanda til upplýsingagjafar og stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að Ís- lendingar geti gengið upplýstir til atkvæðagreiðslu og tekið afstöðu til máls sem óumdeilanlega skiptir hvert heimili í landinu máli. Eftir Ágúst Þór Árnason »… hlýtur það nú að teljast forgangsmál stjórnvalda að vanda til upplýsingagjafar og stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að Ís- lendingar geti gengið upplýstir til atkvæða- greiðslu … Ágúst Þór Árnason Höfundur er brautarstjóri við laga- deild Háskólans á Akureyri. Stjórnskipun lýðveldisins, lýðræði og þingræði

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.