Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1985, Qupperneq 215
Ritdómar
213
('vokalskifte’) og það nefnir hann einnig breytingar í stofni nútíðar sterkra sagna. Hins
vegar kallar höfundur hljóðskipti sterkra sagna ‘vokalveksling’ og spyrja má hvort
nauðsynlegt hafi verið að nota tvö hugtök um fyrirbærin. Þessi víxl eru öll sama eðlis
samtímalega séð og notuð til þess að greina eina formdeild frá annarri.
í 7. kafla er gerð grein fyrir sagnbeygingunni sem áður hafði verið minnst á í upphafi.
Nútíð sagna er greind í þijá meginflokka og gerður er greinarmunur á veikri og sterkri
nútíð. Þess ber þó að gæta að hugtökin veikt og sterkt öðlast ekki gildi fyrr en í þátíð, og
skv. því væri eðlilegt að byrja á henni. Fram hjá nútíð má komast án þess að minnst sé
á þau, enda þótt sá kostur sé ekki alls kostar fýsilegur af ýmsum ástæðum. f umfjöllun
um sterkar sagnir velur höfundur þá leið að varpa hefðbundinni röðun flokkanna fyrir
róða. Að öðru leyti halda flokkarnir, sem hér eru sjö sem fyrr, sér í megindráttum enda
þótt ströngum upprunasjónarmiðum sé ekki fylgt og er það eðlilegt. En þessi breyting,
sem einkum felst í röð flokkanna, þjónar litlum tilgangi. Vænlegra hefði verið t.d. að
greina að reglulegar sagnir skv. hefðbundinni flokkun en líta á aðrar sagnir sem óreglu-
legar.
I 9. kafla er fjallað um lýsingarhátt þátíðar í hvorugkyni eintölu, supinum, sem nefnt
hefur verið sagnbót á íslensku. I kafla 13.1 er hins vegar gerð grein fyrir lýsingarhætti
þátíðar í heild. Raunar er það svo að hugtakið sagnbót er allsendis óþarft hugtak í ís-
lensku. Verið er að fjalla um tiltekið fall (föll) lýsingarháttarins og hugtakið því óþarft.
Öðru máli gegnir t.d. í sænsku. Þar hefur slík notkun gildi og mér segir svo hugur að
þaðan sé skýringar að leita á notkun þess í íslensku. Hins vegar er vandi kennarans ljós.
Lýsingarháttur þátíðar í hvorugkyni eintölu er það form lýsingarháttar, sem mest er
notað, og því eðlilegt að kennari reyni á einhvern hátt að merkja hann.
Þar sem fjallað er almennt um lýsingarhátt þátíðar er hann sýndur fullbeygður. Það
væri íhugunarefni hvort ekki væri hagkvæmt að ræða um Iýsingarhátt þolmyndar og
gera grein fyrir notkun hans, sem einkum er bundin við tiltekin föll eintölu og fleirtölu,
og lýsingarháttar sem notaður er sem lýsingarorð. Þetta mætti gera í stuttu máli og ég
held að það mundi létta stúdentum róðurinn. Það er gömul og ný reynsla að þessi þátt-
ur málsins hefur valdið hræðslu og erfiðleikum sem komast hefði mátt hjá með nokk-
urri einföldun. Ekki ólíkt mætti fara að með efsta stig lýsingarorða. Notkun þess er
mjög takmörkunum háð mætti á það benda.
í 13. kafla er fjallað um ýmis sagnasambönd sem notuð eru til að tákna ákveðin horf í
íslensku. I heild er þetta prýðisgóð lýsing enda þótt ég sakni þar ýmissa þátt. Taka má
sem dæmi sambandið vera að + nafnháttur. Notkun þess sambands er mjög takmörkun-
um háð. Algengar sagnir, sem t.d. tákna ástand (sofa, vaka, liggja, standa), er ekki hægt
að nota með þessu orðasambandi. Slíkar upplýsingar hefðu vel átt hér heima.
Kaflinn um hjálparsagnir í íslensku er góður að því er varðar merkingu þeirra og
setningafræðileg atriði og fleiri sagnir eru teknar fyrir en venjulega. Kaflinn um ópers-
ónulegar sagnir er sá albesti sem sést hefur í bók af þessu tagi um íslensku. í 21. kafla er
gerð grein fyrir viðtengingarhætti nútíðar og þátíðar og er einfaldlega talað um viðteng-
ingarhætti I og II. Sú lausn er góð m.a. vegna þess hve lítil tengsl viðtengingarháttar II
(þátíðar) eru við þátíð nema að því er varðar ytri einkenni.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru. I heild er bókin mjög góð og besta kennslubók
um íslenska málfræði fyrir útlendinga sem nú er völ á. Höfundi tekst vel að greina aðal-
atriði frá aukaatriðum og röð efnisatriða skynsamleg. Bókin er vel upp sett og á það