Vera - 01.11.1982, Blaðsíða 5
„ . . . mundu svo bara Rauðhetta mín að fara
ekki útfyrir veginn því þá getur úlfurinn etið þig“
sagði mamma og kyssti Rauðhettu litlu bless. Svo
trítlaði Rauðhetta litla fram veginn með heima-
bakað brauð í körfunni handa ömmu sinni, sem
var svo lasin. Og vegna þess hve Rauðhettu lang-
aði til að gleðja ömmu sína, ákvað hún að tína
blóm í krans handa henni. Rauðhetta vandaði sig
svo mikið við að velja fallegustu blómin, að hún
gleymdi sér alveg og fór út afveginum. Og áður en
varði var úlfurinn búinn að eta bœði Rauðhettu
litlu og ömmu hennar. Rauðhettu hefði verið nær
að hlýða mömmu sinni.“
Við erum allar Rauðhettur. Mundu nú, segir
mamma, að fara ekki út fyrir veginn. Vertu ekki
úti í myrkrinu. Talaðu ekki við ókunnuga. Vertu
ekki ein. Svaraðu ekki bjöllunni. Gættu þín á úlf-
inum. Treystu engum. Engum. Rauðhetta veit
varla hvernig úlfurinn lítur út. Hann bara er. Úlf-
urinn, ljóti kallinn, fyllibyttan, grýla, sem etur
litlar stelpur. Gerir eitthvað Ijótt. Rauðhetta
reynir að hlýða. Ef hún er heppin, sér hún hann
aldrei. En ef hann kemur, tja, þá er það Rauð-
hettu að kenna. Rauðhetta óþekk stelpa, svei
attan. Rauðhetta á að skammast sín.
En hvers vegna? Hvers vegna gilda aðrar reglur
fyrir stelpur? Hvers vegna megum við ekki um
frjálst höfuð strjúka á nóttu sem á degi, hvar og
hvenær sem er? Hvers vegna getum við ekki
söðlað hvítan hest og farið um héruð eins og
riddari í strákasögu? Hvers vegna þurfum við að
burðast með svartan skugga í farteskinu? Treystu
engum. í samfélagi frjálsra jafningja?
,,Svo kom veiðimaðurinn og skar gat á magann
á úlfinum. Amma og Rauðhetta litla voru ósköp
þakklátar og öll snæddu þau saman af heimabak-
aða brauðinu. Þá bauðst veiðimaðurinn til að
fylgja Rauðhettu litlu heim. Amma þurfti að hugsa
sig um. Það var komið myrkur og þau færu gegn
um skóginn. Atti hún að treysta veiðimanninum?
Hún þekkti hann svo lítið.“
Amma er ennþá að hugsa sig um og Rauðhetta
litla er enn þá ókomin heim til sín. Leggjum
ömmu, Rauðhettu og veiðimanninum lið ....