Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1975, Page 188
breytilegur, en þó eru flóðhrif sólarinnar um 10%
meiri í janúar, þegar jörð er næst sólu, heldur en í
júlí, þegar jörð er fjærst sólu.
í ársbyrjun 1974 voru skilyrði til flóðmyndunar
óvenjugóð. Tungl var fullt hinn 8. janúar og kom
þá mjög nærri því að mynda beina línu með sól og
jörð. Sama dag var það óvanalega nærri jörðu,
svo nærri, að slíkt gerist ekki nema í fáein skipti
á hverri öld. Um þetta leyti var jörð næst sólu,
svo að áhrif sólar voru einnig í hámarki. Hið mikla
stórstreymi sem þessu fylgdi olli tjóni í mörgum
iöndum, einkanlega á svæðum þar sem lágur loft-
þrýstingur og stormur af hafi urðu til að magna
flóðið.
Samkvæmt upplýsingum Sjómælinga íslands náði
flóðhæð í Reykjavík 4,86 metrum hinn 11. janúar
1974, og er það næstmesta flóðhæð sem mælst hefur
á því tímabili sem samfelldar skýrslur eru um,
en þær ná aftur til ársins 1956. Lágur loftþrýst-
ingur var í Reykjavík þennan dag, eða um 960
millibar, og hefur það haft sitt að segja, því að
reikna má með því að flóðið hækki um 1 cm fyrir
hvert millibar sem loftþrýstingurinn lækkar. Hins
vegar var vindur hægur, og hefur það ráðið úr-
slitum um að ekki varð tjón af sjógangi. Til sam-
anburðar skal þess getið að flóðhæð í Reykjavík
nær 4,50 metrum einu sinni á ári eða svo, og að
metið síðan 1956 er 4,92 metrar. Mældist það hinn
2. desember 1959.
Á árinu 1975 er aftur spáð óvenjumiklu stór-
streymi víða um heim. í spánni fyrir Reykjavík er
gert ráð fyrir mestu flóðhæð hinn 29. janúar (4,45
m, sbr. bls. 5), en veður mun endanlega ráða, hve
hátt flóðið nær í það sinn.
(186)