Símablaðið - 01.05.1992, Blaðsíða 4
Leiðari
Ragnhildur Guðmundsdóttir
Ræða Ragnhildar Guðmundsdóttur, formanns Félags íslenskra
símamanna og varaformanns BSRB, á útifundi Fulltrúaráðs
verkalýðsfélaganna á Lækjartorgi 1. maí s.l.
Það er stundum haft á orði að tímarnir breytist og mennirnir með. Það er sannleikskorn í
þessu svo langt sem það nær, en svo nær það bara ekki lengra. Það sem upp á vantar er það
að mennirnir hafa afgerandi áhrif á það sjálfir hvernig tímarnir breytast. Þau samfélagslegu
skilyrði sem við búum við er nokkuð sem við höfum skapað okkur sjálf.
Það er raunalegt að vera fátækur, en raunalegri er sú fátækt sem Iýsir sér í algjöru áhuga-
leysi á högum annarra, ekki síst þeirra sem eiga um sárt að binda. Þannig fátækt er fjötr-
andi á flesta þætti mannlegs eðlis sem tengdir eru mannúð og mildi. Ef við hugum að lands-
málum verðum við fljótt vör við að menn búa við hvers kyns ójöfnuð - hvert sem Iitið er
ríkja miklar eiginhagsmunastefnur, og þá um leið völd sem eru á höndum fárra sem hafa
gífurleg áhrif á líf og tilveru margra. Af slíku er lítil prýði.
Þessi misserin er verið að breyta þjóðfélaginu í veigamiklum atriðum. Ríkisstjórnin hefur
forgöngu um að vinda ofan af þeirri samhjálp sem við viljum að sé aðalsmerki íslensks
þjóðfélags og vill í staðinn hefja kalda markaðshyggju til vegs. Gallinn er bara sá að þetta
er gert að þjóðinni forspurðri. Hver kannast við það - á ársafmæli þessarar ríkisstjórnar -
að hafa kosið stórfelldan niðurskurð í heilbrigðiskerfínu? Hver ykkar greiddu því atkvæði
að svo grimmilega skuli saumað að skólakerfínu að til upplausnar horfí? Hversu mörg ykk-
ar greiddu þeirri skattapólitík atkvæði sitt að sjúklingar og aldrað fólk sé vænlegasti skatt-
stofninn?
Nei, niðurskurðarmeistararnir í ríkisstjórninni eru ekkert að hafa fyrir því að hafa sam-
ráð við þjóðina. Og það er ekki nóg með það: Fyrirætlanir þeirra margar hverjar líkjast
meira trúarsetningum en niðurstöðum sem teknar eru að vel athuguðu máli. Þeir trúa því
að einkavæðing sé allrameinabót atvinnulífsins, og trú þeirra er sterkari en svo að sporin
frá Bretlandi Thatcherismans hræði. Yitaskuld eigum við að skoða með opnum huga allar
breytingar sem til framfara geta orðið. Það kann vel að vera skynsamlegt að einkavæða
ákveðna þætti í ríkisbúskapnum, en ákvörðun um það á að taka þegar búið er að meta
kostina og gallana. Yið gerum ekki kostnaðaráætlun með því að reka puttann upp í loftið
eins og yfirsmiðurinn í Perlunni, og eins gleypum við heldur ekki við stórfelldum áformum
um einkavæðingu blindandi. I þessum efnum þurfum við að hafa vit fyrir ríkisstjórninni.
Við viljum hafa hönd í bagga um gerð þess þjóðfélags sem við lifum í.
2 SÍMABLAÐIÐ