Freyr

Árgangur

Freyr - 15.06.1992, Blaðsíða 6

Freyr - 15.06.1992, Blaðsíða 6
478 FREYR 12.’92 Atvinnumál í dreifbýli A síðustu misserum hafa ýmis áföll dumð yfir atvinnulíf í dreifbýli hér á landi. Fyrir rúmu ári var boðaður stórfelldur niður- skurður í sauðfjárrækt. Fyrri hluti hans fór fram sl. haust en síðari hlutinn verður framkvæmdur á komandi hausti. Þá liggur fyrir að samdráttur verði á næstunni í mjólkurframleiðslu, í framhaldi af áfanga- skýrslu Sjömannanefndar. Þó að sá sam- dráttur verði verulega minni en í sauðfjár- rækt, kemur hann til viðbótar honum. Það sem hér hefur verið sagt er ekki neitt nýtt. Allt frá því um f980 hafa verið í gangi aðgerðir til að tempra hefðbundna búvöruframleiðslu með ráðstöfunum stjórnvalda og hefur ríkt fullur skilningur á því að þess var þörf, þótt skoðanamunur hafi verið á einstökum útfærslum. Um líkt leyti og þessar aðgerðir til sam- dráttar í sauðfjárrækt og mjólkurfram- leiðslu komu fram, var farið að leita eftir nýjum atvinnutækifærum. Þá var upp- gangur á loðdýrarækt og í fiskeldi í nálæg- um löndum og ákváðu íslendingar að taka þátt í þeim ævintýrum, enda aðstæður til þess engu síðri og jafnvel betri en í öðrum löndum. Skemmst er frá því að segja að þessar greinar hafa ekki tekist sem skyldi, þótt undantekningar séu þar á og ekki útséð hvað framtíðin beri með sér í þeim efnum. Þriðja stórverkefnið sem ráðist var í til að efla atvinnu í dreifbýli var ferðaþjón- usta. Um hana er allt annað að segja og hefur þar orðið farsæl þróun sem enn er á uppleið. Athygli vekur í því sambandi að hér hafa tvær framleiðslugreinar, loðdýra- rækt og fiskeldi, átt við erfiðleika að stríða á sama tíma og þjónustugrein, ferðaþjón- ustu, hefur vegnað betur. Þó að það sé sem betur fer margt jákvætt að segja um íslenskan landbúnað, er framundan mikið átak í því að efla at- vinnulíf í dreifbýli. Ef þar tekst ekki vel til mun búseta víða leggjast niður í sveitum. Ljóst hefur verið um nokkurra ára skeið að vinna þarf að eflingu atvinnulífs í dreif- býli út frá þeim forsendum að frumkvæði og framtak verði í höndum þeirra sem málið brennur á, þ.e. því fólki sem skortir viðnám krafta sinna. Hlutverk hins opin- bera og heildarsamtaka í landbúnaði eða stjórnsýslu sé hins vegar að greiða götu þeirra sem atvinnustarfseminnar njóta. Þar er mikið verk að vinna; byggja upp hugmyndabanka, aðstoða við áætlana- gerð, kynna möguleika á fyrirgreiðslu hvað varðar lán og framlög, veita upplýs- ingar um stjórnsýslu hvers konar, þ.e. verslunarleyfi, einkaleyfi, skattamál og tolla sem og ýmis lögfræðileg atriði. Hér er þó ótalið það sem e.t.v. skiptir mestu máli, en það er aðstoð við menntun hvers konar, stutt sem langt nám. Ljóst er að það er einstaklingurinn sjálfur, þekking hans og vilji sem allt stendur og fellur með. Velmegun þjóða byggist að vísu mikið á náttúruauðlindum hennar, en hún hvílir þó ekki síður og enn frekar á menntun og frumkvæði einstaklinga hennar. Þekkt er að þjóðir með tiltölulega litlar náttúruauð- lindir hafa byggt upp mikla velmegun, m.a. Japanir og Danir. Framtíð dreifbýlis hér á landi, sem og þjóðarinnar allrar, byggist öðru fremur á að hún haldi við og bæti menntun sína; komi auga á möguleika sína og geri sér grein fyrir stöðu sinni í bráð og lengd. Þar skiptir einnig máli að læra hógværð í um- gengní við auðlindir landsins og náttúru þess. Krafan um góð lífskjör er góðra gjalda verð, en þá gagnkröfu að hagsmunir framtíðarinnar hafi forgang fram yfir stundarhagsmuni, á að setja enn hærra.^ ^

x

Freyr

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Freyr
https://timarit.is/publication/863

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.