Litli Bergþór - 01.07.1992, Blaðsíða 6

Litli Bergþór - 01.07.1992, Blaðsíða 6
Eins og mér sýnist Síðastliðinn vetur hefur að mínu mati verið afburða skemmtilegur. Hér hefur félagslífið verið með svo miklum blóma að furðu sætir. íþróttaæfingarnar sígildu hafa átt sinn sess að venju, og var farið oft með börnin í keppnisferðir. Söngur hefur í fyrsta skipti s.l. 9 ár blómstrað innan veggja skólans, enda lærður tónlistarmaður í forsvari fyrir honum. í Skálholti var líka mikið sungið bæði börn og fullorðnir. Farið var í æfingarbúðir m.a. á Laugarvatn með börnin, og var það að sögn þeirra sem voru þar mjög skemmtilegt. Ungmennafélagði bauð börnunum úr eldri bekkjum skólans, að setja upp leikrit með leikstjórn og öllu tilheyrandi, og varð árangurinn ótrúlegur enda lá mikil vinna Hafdísar í Friðheimum og Guðrúnar á Daltúni auk leiksstjóranna tveggja, á bakvið þann árangur. Virkni í skólanum var líka með miklum blóma, borðtennismót, skák, dans og eflaust annað sem ég tók bara ekki eftir og man ekki að telja upp lengur. Þorrablót var haldið á vegum skólans fyrir unglingana og tókst það að venju mjög vel. Hestamannafélagið bauð börnum og fullorðnum uppá reiðnámskeið í vetur og sóttu það margir, og samhliða var haldið vetrarmót, eða stigakeppni og mættu keppendur þrisvar með mánaðar millibili til að keppa og safna stigum. Árshátíð unglinga þriggja hestamannafélaga var haldin og var þáttaka krakka úr Loga mest á þeirri skemmtun og tókst hún í alla staði vel. Firmakeppni Loga var haldin í byrjun júní þótt hún færi eflaust fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum vegna veðurs. Ferðafélagar úr Loga í Fremstaveri Farið var í tveggja daga hestaferð í Fremstaver þann 20. júní s.l. á vegum Loga og fóru alls 29 manns í ferðina bæði ungir og aldnir og var hún mjög ánægjuleg. En mitt í allri þessari starfsemi og virkni gerðist nokkuð sem ég undrast mikið hér í sveitinni og ég hef orð á því nú vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég verð vör við álíka. í mars fóru að heyrast það sem ég kalla niðurrifsraddir. Fleiri en einn sögðu það í mín eyru að það væri alveg agalegt hvað börnin hefðu mikið að gera. Virkni þeirra kæmi niður á náminu og það mættu bara ekki vera svona mörg tilboð í gangi barnanna vegna. Þetta væri alls ekki hægt. Svona tal undrast ég mjög og velti því fyrir mér hvort þeir sem þetta segja gera sér grein fyrir hverslags nám það er að vera virkur í félagsstörfum. Hvað læra t.d. börnin á því að æfa heilt leikrit og flytja það með sóma fyrir fullu húsi áhorfendum? Ég sá að margir lærðu framsögn, aðrir lærðu að vinna undir aga, sumir lærðu að lesa og öll lærðu þau eflaust að taka tillit hvert til annars. Flest lærðu eflaust að þau þyrftu að skipuleggja sinn tíma, enda er það ein af forsendunum fyrir því að fólk geti stundað félagslíf að einhverju viti. Það barst t.d. í mín eyru að leikstjórinn hefði bent ungu leikurum á að þau gætu notað biðtímann sinn til að lesa námsbækurnar og sumir gerðu það. Ég hef oft tekið eftir álíka niðurrifstali hvað varðar virkni hinna fullorðnu hér í sveitinni. Ekki er það sjaldan að ritnefnd Litla-Bergþórs fær gagnrýni á sig fyrir blaðið, það vanti í hann yngra efni frá yngri höfundum, en á sama tíma hefur ritnefnd Litla Begga marg reynt að virkja fólk til að skrifa greinar, hugleiðingar, viðtöl, fá skólann til að efla skrif í blaðið o.s.frv. Blaðið litast því óneitanlega af þeim sem skrifa í það en ekki þeim sem gagnrýna það sem illa er gert. Mér finnst alltaf merkilegt þegar fólk treystir sér til að gagnrýna það sem gert er af öðrum, en nennir svo ekki að breyta hlutunum í þá átt sem það vill sjálft. Við verðum að gleðjast yfir því sem gert er hér og styðja við það hvort sem það er Ungmennafélagið, skólinn eða einstaklingar sem sýna frumkvæði í störfum sínum og hugmyndum. Það er auðvelt að þreyta þá sem eru fullir af orku fyrir aðra, og vilja stuðla að fjölbreyttu mannlífi hér í sveit með því að rífa niður það starf og frumkvæði sem þetta fólk sýnir. Sveitin og samfélagið er ríkt í dag, af ungu og atorkusömu fólki. Sýnum því samstöðu og hættum öllu nöldri, um að aðrir séu ekki eins og þeir eiga að vera. Ég skora á fólk að horfa fyrst í eigin barm ef það er ekki ánægt með gang mála, og leggja því þá lið að breyta því sem ekki er nógu gott, en hætta nöldrinu og niðurrifinu. Drífa Litli - Bergþór 6

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.