Litli Bergþór - 01.07.1992, Blaðsíða 24

Litli Bergþór - 01.07.1992, Blaðsíða 24
Umhverfis jörðina..frh. Til DARWIN komst ég líka, en það var að vísu engin skemmtiferð. Vegabréfsáritunin mín rann nefnilega út um áramót. Og í staðinn fyrir að gifta mig pappírsbrúðkaupi, eins og sumir gerðu til að geta unnið óáreittir, vildi ég frekarfreista þess að fá áritunina framlengda. Sá hængur var bara á, að lögreglustöðin og útlendingaeftirlitið í Alice var til húsa á sama stað og atvinnumiðlunin, þar sem ég hafði verið tíður gestur í atvinnuleit. Svo ég þorði ekki að hætta á að þeir þekktu mig þar. Fékk því þriggja daga frí úr vinnunni, þegar ég hafði aftur fengið passann minn í hendur, og fór á puttanum norðurtil Darwin, yfir 1500 km hvora leið. í útlendingaeftirlitinu í Darwin var ég tekin í hálftíma viðtal og spurð spjörunum úr um allar mínar ferðir, fjárráð og framtíðaráætlanir, svo ég neyddist til að segja þeim að það myndi aldrei hvarfla að mér að vinna í Ástralíu og ég ætti sand af seðlum heima. Og út á það fékk ég framlenginguna. En að skilnaði fékk ég líka að vita að ef ég yrði staðin að því að vinna, yrði ég sett í fangelsi, þyrfti að borga allan mál- og fangelsiskostnað og yrði síðan send heim á eigin kostnað. Og ekki þurfti að taka það fram að ég fengi aldrei að koma til Ástralíu framar, né heldur til Nýja Sjálands eða Bandaríkjanna. Eftir fjögra tíma stopp í Darwin var ég komin af stað til baka til Alice og var þar tveim og hálfum degi eftir að ég lagði af stað. Og þótti bara nokkuð gott. Fékk far með stórum flutningabílum báðar leiðir og lenti ekki í neinum vandræðum, þó að mér litist ekki nema í meðallagi ábílstjóranaáleiðinni norður. Þeirvoru ekki komnir langt þegar þeir þurftu að stoppa á einni af þessum þjónustustöðvum, sem eru með nokkur hundruð kílómetra millibili við þjóðvegi Ástralíu, til að birgja sig upp af bjór. Og síðan þjóruðu þeir, og þó sérstaklega annar þeirra, alla leiðina norður og héldu fyrir mér vöku. Því ég átti að segja þeim eitthvað skemmtilegt svo þeir sofnuðu ekki! Ég var því ekki sérlega vel úthvíld í viðtalinu góða. En á leiðinni til baka fékk ég svefnfrið alla leið. Hinir bjórþyrstu bílstjórar, ég og heimiliskengúran á barnum. Landslagið var heldur tilbreytingalaust. Endalausar þyrrkingslegar sléttur með kræklóttum runnagróðri á stangli og það eina sem uppúr stóð voru termítastrýturnar þegar nær dró Darwin. - En ég þurfti þá heldur ekki að syrgja það þótt ég kæmist ekki aftur til N-Ástralíu í þessari ferð. - Anna fór frá Alice Springs um miðjan desember. Hafði gengið hálfilla að fá vinnu og líkaði ekki mannlífið í Alice. Hún fékk seinna vinnu við ávaxtatínslu í S- Ástralíu og svo sem hjúkrunarkona í Nýja Sjálandi. Eftir að hún fór ferðaðist ég mest ein, eða með öðrum ferðafélögum sem á vegi mínum urðu, það sem eftir varferðarinnar. Ég hafði samt áfram samband við þær báðar, Önnu og Gauju, og átti eftir að hitta þær nokkrum sinnum eftir þetta. Þann 10. febrúar kvaddi ég Alice Springs og hélt áleiðis til Perth á vesturströnd Ástralíu. Fékk far alla leið með tveimur náungum, nágrönnum okkar af tjaldstæðinu, sem höfðu ferðast í kringum Ástalíu í 3- 4 mánuði og voru á leið til Perth í atvinnuleit. Annar þeirra, Tim, var frá Nýja Sjálandi, hinn, Bruce, var Ástrali frá Sydney. Þeir voru talsvert sérstakar týpur, og sá ný-sjálenski sérstaklega hafði frásagnargáfuna í lagi. Hafði lent í ýmsu og gat sagt frá því svo engum leiddist. Þeir keyrðu um á gömlum amerískum Valiant, sem leit út fyrir að vera í þann veginn að hrynja. Beyglaður og skrámaður, vantaði eina rúðu eða svo og með óhrjálegan kassa boltaðan átoppinn. Drullugur innan sem utan. Hann leyndi þó á sér og var mjög góður á þvottabrettunum suður til Adelaide. Þeir Tim og Bruce voru í stíl við bílinn, gengu um berfættir í gatslitnum, ekki alltof hreinum gallabuxum eða stuttbuxum með lítt hirt hár og skegg. En þetta voru öðlingar inn við beinið. Trukkurinn (vegalestin) sem ég fékk far með til Darwin t.v. Litli - Bergþór 24

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.