Litli Bergþór - 01.03.1994, Blaðsíða 22

Litli Bergþór - 01.03.1994, Blaðsíða 22
Umhverfis jörðina 13. þáttur Ferðasaga í nokkrum þáttum, eftir Geirþrúði Sighvatsdóttur á Miðhúsum. HALDIÐ HEIM í síðasta pistli var litla skútan Tolóa, með okkur Jim innanborðs, lögð af stað í síðustu siglinguna að þessu sinni, frá eynni SUVAROW til AMERÍSKU SAMÓA. Nánar til tekið borgarinnar Pago Pago, en þangað var förinni heitið. Siglingin til Pago Pago tók 6 daga þó ekki væri langt að fara, því nú brá svo við að staðvindar þeir, sem blésu sem ákafast á leiðinni frá Penrhyn, voru allir á bak og burt. Seglin héngu máttlaus yfir spegilsléttum sjónum og ekki flýtti það för að Toloa lét illa að stjórn í byrleysinu og vildi helst sigla í hringi. En þetta var góð tilbreyting frá sjóganginum á leiðinni til Suvarov. Nú var nógur tími til sólbaða, sjóbaða og lesturs. Ég var orðin útlærð skútukerling, kunni að gera staðarákvörðun með sexkanti, tala í loftskeytastöð, morsa og auðvitað, - haga seglum eftir vindi. - Ef eitthvað kæmi fyrir Jim, gæti ég kallað á hjálp eða bjargað mér til næsta lands á seglum eða vél. Á kvöldin hélt ég áfram uppáhalds frístundaiðju minni, að skoða stjörnuhimininn og læra nöfnin á sem flestum siglingastjörnum og stjörnumerkjum. Við drógum línu með beitu í hvert sinn sem við sigldum lengri vegalengdir og oftast veiddum við a.m.k. einn stórfisk. Oftast barracudu eða wahu, sem eru stórir ránfiskar og mjög Ijúffengir. Til Pago Pago komum við 28. september '83 í byrjun regntímans og þarna átti ég eftir að vera strandaglópur næstu 6 vikurnar. Peningalaus og farmiðalaus! Af Samóa eyjum eru þrjár eyjar stærstar, annars vegar TUTUILA eða AMERÍSKA SAMÓA, sem er undir bandarískri stjórn og hinsvegar tvær eyjar Vestur Samóu, UPOLU og SAVAII sem eru sjálfstæðar, auk nokkurra smáeyja. Tutuila hefur bestu hafnaraðstöðu á þessum hluta Kyrrahafsins, svo ekki var að undra þótt Kanarnir hefðu eignað sér hana. Þarna er flotahöfn þeirra á Kyrrahafi og einnig tvær risastórar túnfisks niðursuðuverksmiðjur, sem tóku við túnfiski frá amerískum veiðiskipunum, sem þar lönduðu. Það var reyndar við viðgerðir á herskipum og á þessum stóru túnfiskiskipum, sem Jim ætlaði að vinna. Og nú var ég semsagt hingað komin, og bara eftir að komast heim! Aleigan var 200 dollarar (14.500 kr á núvirði) og enga vinnu að fá á eyjunni, fyrir meira en 2$ (120 kr.) á tímann. Það hefði tekið mig ár að vinna mér inn fyrir farinu heim. Næstu 6 vikur dvaldi ég um borð í Toloa í Pago Pago höfn og hugsaði ráð mitt, meðan ég vann fyrir fæði og húsnæði með viðgerðum á bátnum. Gróf út ryðgaða nagla og fúabletti, fyllti í götin með epoxykítti og málaði svo bátinn frá toppi til táar - þegar gaf fyrir rigningunni. - Var orðin vel að mér í bátaviðgerðum líka áður en yfir lauk. Það voru margar skútur í höfninni og margar þeirra höfðum við séð áður á siglingu okkar. Og það var oft glatt á hjalla í „Pago Pago's boysclub" eða strákaklúbbnum, en það var skútukarlaklúbbur sem gerði sér margt til gamans og auðvitað var ég meðlimur! En peningaleysið og rigningin voru niðurdrepandi og mér líkaði ekki að vera fjárhagslega háð öðrum. Þá frétti ég af ódýru flugi til Ameríku frá Fijii- eyjum, mun ódýrara en frá Samóa. Og þegar ég frétti að einn af vinum Jims, sem kom á skútu sinni frá Hawaii, væri á leið þangað, tókst mér að fá ókeypis far með honum til Fijii. Það var töluvert öðruvísi ferð en með Toloa, en þessi skúta, - Integrity hét hún, - var stór lúxussnekkja með öllum hugsanlegum þægindum. Rafmagns siglingartækjum, sjálfstýringu, tökkum til að hífa segl, þvottavél og sturtu. Minnti frekar á farþegaskip en skútu og hafði ósköp lítið með siglingu að gera fannst mér. Skútan Integrity. Litli - Bergþór 22

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.