Litli Bergþór - 01.03.1995, Blaðsíða 13

Litli Bergþór - 01.03.1995, Blaðsíða 13
minn, Jón Jónsson, flutti að Skálholti 1808 og bjó þar á móti Johnsen, bróður biskupsfrúarinnar, sem er forfaðir Sveins í Tungu og þeirra systkina. Sonur hans, Jón langafi minn, flutti að Iðu og bjó þar. Hann giftist Elínu Hafliðadóttur, laundóttur ríks manns á Skeiðunum. Hún átti ekki arf eftir föður sinn, en hann gaf henni samt part úr Auðsholti um 1841. - Það voru því ekki allir ríkir bændur vondir við launbörn sín, eins og mætti halda eftir þáttunum hans Baldurs Hermannssonar! - Og þannig vildi það til að ættin settist að í Auðsholti og það er 5. ættliðurinn, sem nú er að vaxa hér úr grasi. Amma mín í móðurættina, Auðbjörg Runólfsdóttir var fædd og uppalin að Miðhúsum en átti reyndar ættir að rekja norður í Þingeyjarsýslu. Langafi hennar, Hallgrímur Jakobsson bóndi í Böðvarsnesi í Fnjóskadal (*1), var uppi í móðuharðindunum. Það var þröngt í búi og börnin mörg og hafði talast svo til að Þorsteinn Magnússon sýslumaður Rangæinga, sem eitthvað var venslaður honum, tæki dóttur hans Margréti í fóstur. Fór faðir hennar með hana suður Kjöl. En þegar suður kom var sýslumaður látinn og endaði Margrét í fóstri hjá hjónunum í Austurhlíð, þeim Guðmundi Magnússyni og Kristrúnu Gísladóttur. Nokkru síðar kom systir hennar, Guðbjörg, einnig í Austurhlíð sem vinnukona og það er þessi Guðbjörg, sem er formóðir mín, amma Auðbjargar. Það er reyndar til saga af því hvernig Auðbjargar-nafnið er til komið. Miðhús áttu þá kirkjusókn í Úthlíð, en presturinn sat í Miðdal. Það stóð til að skíra barnið í höfuðið á ömmu sinni, Guðbjörgu, en þegar til kom hafði prestinum misheyrst nafnið, svo hún var skýrð Auðbjörg. Og þar við sat. ''Það er ei vandskírt fátækra manna barn" eins og máltækið segir! (*2) Auðbjörg giftist Páli Stefánssyni í Neðra-Dal, en hans ætt hafði þá búið þar í fjóra ættliði, frá því er Stefán Þorsteinsson, langafi hans, keypti jörðina af stólnum árið 1790. Páll afi minn dó í Neðra-Dal 1890. Ein formóðir mín í móðurætt var Guðrún dóttir presta-Högna á Breiðabólsstað, en hún kom til bróður síns, sr. Páls Högnasonar, sem var prestur á Torfastöðum í 47 ár, (frá 1753-1800). Hún giftist að Syðri-Reykjum. *1 Þannig vill til, að á móti Hallgrími á jörðinni Böðvarsnesi í Fnjóskadal bjó á þessum tíma Jón nokkur Kolbeinsson. Hann var ekki skyldur Hallgrími, en hann er hinsvegar forfaðir Sighvatar Arnórssonar, þess er nú býr á Miðhúsum. Það er því tilviljun, að afkomendur beggja skuli koma við á Miðhúsum í Biskupstungum. *2 Svona var oft tekið til orða þegar um ábyrgðarlítil eða slæleg vinnubrögð var að ræða. L-B: Nú tilheyrði Auðshoit Biskupstungum til ársins 1978, þrátt fyrirþað, að landfræðilega heyri það til Hrunamannahrepps. Veist þú hvers vegna svo var og síðan hvenær? Jón: Biskupsstóllinn í Skálholti er örugglega ástæðan og ég býst við að svo hafi verið alla tíð síðan biskupstóll kom í Skálholt. Auðsholt hefur alltaf verið tengt Skálholti vegna heynytja. Þeir heyjuðu hér á sumrin en treystu svo á ísinn á ánni á veturna til að flytja heyið yfir. Svo er miklu styttra í Laugarás yfir ána en til næstu bæja í Hrunamannahrepp, sem eru Hvítárholt annarsvegar og Bjarg, sem áður hét Bolafótur, hinsvegar. Mýrarnar eru líka torfærar, helst er að fara með bökkum ánna. L-B: Er Auðsholt landnámsjörð? Jón: Ekki held ég það. Auðsholts er fyrst getið í Sturlungu, að því er ég best veit, þar sem Þórður Kakali biður Sigvarð biskup um að hitta sig "suður af Auðsholti". Annað Auðsholt er reyndar í Ölvusi, og svo vill til að landfræðilegar aðstæður eru mjög svipaðar. Þar stendur bærinn á hæð nálægt Ölvusá og mýrlendi í kring. - Hvort sem bæjarnafnið má rekja til þess eða ekki. - Það má geta þess að samkvæmt fornu mati var Auðsholt ein af 12 hæst metnu jörðum í Árnessýslu. í þá daga var talið mest um vert að slægjur væru góðar. L-B: Nú hefur ekki verið hægt um vik að reka fé á afrétt Tungnamanna frá Auðsholti? Jón: Nei, Auðsholt hefur alltaf rekið á Hrunamannaafrétt og ég veit ekki til annars en það hafi alltaf verið talið sjálfsagt mál. En helstu ástæður þess að skipt var yfir í Hreppinn voru, að þegar tæki til jarðræktar komu til sögunnar hjá búnaðarfélögunum var hentugra að tilheyra Hrunamannahrepp en Biskupstungum eins og gefur að skilja og svo það, sem reið baggamuninn, þegar heimkeyrslan byrjaði í skólanum. Skafrenningur ú Hvítú. Séð yfir í Laugarúsinn og Vörðufell frú Auðsholti. Litli - Bergþór 13

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.