Litli Bergþór - 01.03.1995, Blaðsíða 7

Litli Bergþór - 01.03.1995, Blaðsíða 7
Svipmyndir úr Biskupstungum Gísli Bjarnason frá Lambhúskoti tók á árunum upp úr 1950 kvikmyndir í fæðingarsveit sinni, Biskupstungum. Þær eru allar í lit og sýna vel mannlíf á þessum tíma. Hann gaf Biskupstungnahreppi þessar myndir. Nú hefur verið settur kynningartexti við þær og þær gefnar út á myndbandi. Þetta eru fjórir þættir: I upphafi er staldrað við á hlaðinu í Asakoti, þar sem Halldór Magnússon er við bæjardymar hátt á níræðisaldri. Fylgst er með þegar trippi úr Bræðratunguhverfinu eru búin undir að vera rekin til afréttar í grjótrétt í Grænaskarði. Hófur er snyrtur á hryssu, folald markað og rakað af ótemju. Trypparekstrinum er síðan fylgt áleiðis upp sveitina. Þetta mun vera 1952 og sjást flestir Tunguhverfingar þess tíma. Næst er komið í Tungnaréttir bæði árið 1954 og 1951. Fólk kemur flest ríðandi í réttirnar, prúðbúið í tilefni dagsins. Þarna ber fyrir flesta bændur í sveitinni á þessum tíma, nokkrar húsfreyjur, ungt heimafólk og marga, sem gera sér ferð úr fjarlægð til að koma í réttirnar. Flestir eru þeir að vitja æskustöðva. Nær 100 manns er þarna kynnt með nafni. Einnig eru nafngreindir nokkrir hestar, hundar og kindur. Sjá má fatatísku unga fólksins á þessum tíma, lagðprúðar ær og vaninhyrnda sauði. Myndin er annars vegar tekin síðasta árið fyrir niðurskurð alls fjár í sveitinni vegna mæðiveiki og hins vegar síðasta árið, sem réttað var í gömlu réttunum í landi Holtakota. Þriðji þátturinn er frá útreiðartúr Ungmenna- félagsins inn að Högnhöfða. Kvikmyndatöku-maðurinn fylgist með þegar lagt er af stað frá Efri-Reykjum, hittst við Hrauntún, riðið inn Úthlíðarhraun, lagið tekið við Miðfell, sprett úr spori á Miðfellsflötum, áð við Litlhöfða og loks riðið niður með Brúará og yfir Hrútá á vaði skammt frá þar sem býlið í Hrúthaganum var um síðustu aldamót. Þátttakendur í ferðinni voru 73, flest ungt fólk úr sveitinni, með 123 hesta. Ingvar Eirrksson á Efri- Reykjum var aldursforseti og leiðsögumaður. Myndatökumaðurinn reiddi kvikmyndavélina alla leið og lagði stundum lykkju á leið sína til að mynda fallegt landslag, svo sem hrikaleg Brúarárskörð og straumþunga, tæra Brúará. Síðast er fylgst með þegar hey er hirt á baggahestum úr Tungueyju. Lestir reiðingshesta koma í teiginn, þar sem verið er að drepa undir sátur og binda í reipi. Sýnt er þegar sett er upp á eina lestina, hún teymd yfir alldjúpa kvísl úr Hvítá og heim í heygarð í Bræðratungu, þar sem tekið er ofan og Skúli Gunnlaugsson hleður úr heyinu úti. Myndin var hljóðsett og settur á hana kynningartexti hjá Saga-Film, en myndbönd gerði Bergvík h. f. Kynnir er Arnór Karlsson í Arnarholti, og samdi hann einnig texta í samvinnu við ýmsa sem þekktu fólkið og annað, sem fyrir ber í myndinni. Lögð var áhersla á að nafngreina sem flesta svo þeir sem sjá myndina viti hvaða fólk þetta er. Myndbandið er til sölu hjá Þorfinni á Spóastöðum og Arnóri í Arnarholti og kostar kr. 3000,-. í upphafi voru gefin út 50 eintök, en ef þau seljast öll er auðvelt að fá fleiri. A. K. Hvað verður um Yleiningu? Á síðastliðnu ári varð verulegur samdráttur í sölu á framleiðsluvörum Yleiningar. Þar sem fjárhagsstaða fyrirtækisins var mjög slæm fyrir, sýndist okkur stjórnarmönnum það ljóst að stefndi í þrot, ef ekkert yrði að gert. Vegna versnandi fjárhagsstöðu var vonlítið að nýir hluthafar kæmu að fyrirtækinu, nema að undangengnum einhverjum aðgerðum. Eins og flestum er eflaust kunnugt tók Límtré h.f. við rekstri verksmiðjunnar um s.l. áramót í a.m.k. 9 mánuði. Þetta varð að ráði til þess að forða rekstrarstöðvun. Stærstu lánadrottnar og kröfuhafar samþykktu þessa ráðstöfun til þess að svigrúm ynnist til að endurskipuleggja rekstur og fjárhag fyrirtækisins. Síðan hefur verið unnið að því að fá veðhafa til að fallast á nauðasamning, því að við flestir sem að þessu máli höfum komið, teljum afar mikilvægt að komast hjá gjaldþroti, með hugsanlegri rekstrarstöðvun í langan tíma. Því þá væri einnig óvíst hvort einhver keypti verksmiðjuna til áframhaldandi reksturs. Eins og málum er nú háttað er Ijós að allt hlutafé Yleiningar er glatað og meira til, og því eru það eingöngu þeir hagsmunir sem felast í þeim atvinnutækifærum sem þarna eru og munu vonandi skapast fleiri, sem við erum að verja. Þegar þetta er skrifað er ekki enn ljóst hvort tekst að ná nauðasamningi. Alltof margir munu tapa fé þó svo færi. En ekki þó eins miklu og í gjaldþroti. En að lokum: Sala á einingum er lítil þessa mánuðina. Helmingur starfsmanna missti vinnuna um s.l. áramót. Því aðeins að við höfum trú á því að framtíð sé í rekstri þessarar verksmiðju, ef rétt er á málum haldið, eru þessar aðgerðir réttlætanlegar. Vonandi skapast þarna fleiri störf í framtíðinni. Gunnar Sverrisson. Litli - Bergþór 7

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.