Litli Bergþór - 01.03.1995, Blaðsíða 14

Litli Bergþór - 01.03.1995, Blaðsíða 14
A IS I AUÐHOLT frh L-B: Hvernig var ferjumannsstarfinu háttað? Jón: Þar sem lögferjur voru, eins og hér og á Iðu, voru menn bundnir lagabókstaf að hafa alltaf mann til taks til að ferja fólk yfir. Ferjutollur var ákveðinn af stjórnvöldum og fór eftir því hvort menn voru lausir, ríðandi, með farangur o.s.frv. Ef ferja þurfti hóp ríðandi manna, varyfirleitt einn hesturinn teymdur úr skutnum á bátnum og síðan reynt að láta hina hestana synda á eftir honum yfir. Flægt var að teyma tvo hesta, ef þeir voru þægir. En það varð að gæta þess að það mátti ekki strekkja á taumnum. Oftast gekk þetta vel. Hestar voru þó ekki sundlagðir eftir veturnætur, það var talið óhollt fyrir þá og þá þurfti að taka þá fyrr á gjöf. L-B: Var mikil umferð héryfir Hvítá? Jón: Það hafa alltaf verið mikil samskipti við Laugarás þar sem það var næsta byggða ból. Þegar Grímsneslæknishérað var stofnað um aldamótin 1900 bjó Skúli Árnason læknir í Skálholti, þar til Laugarás var keyptur undir lækni- og heilsugæslustöð árið 1927. Þá fóru allir Hrunamenn, sem fara þurftu til læknis hér um. Þar áður var næsti læknir að Laugardælum. Það er svo einkennilegt að þó að síminn væri kominn hér 1907 upp að Kiðjabergi, var hann ekki lagður upp í Tungur fyrr en 20 árum seinna, 1927. Það hefði þó verið mikið hagræði vegna læknisins. Nú, svo meðan skemmtanirnar voru haldnar á Álfaskeiði á sínum tíma var mikil umferð hér um af fólki úr Tungum og Grímsnesi í sambandi við þær. L-B: Hvernig leit ferjan út? Jón: Þetta voru bara ósköp venjulegir árabátar og ekki mjög stórir. Tóku kannski 4-6 menn með ferjumanni. Það eru enn til bátar hér, en uppúr 1960 voru þeir komnir með utanborðsmótor. Nú orðið eru þeir aðallega notaðir við veiðiskap. L-B: Er einhver veiði í ánni? Jón: Hún er nú upp og ofan. Laxveiði er sögð í Hvítá upp að Bergsstöðum, samkvæmt manntalinu 1801. L-B: Eru ekki vöð á Hvítá? Jón: Hvítá er hvergi reið eftir að Tungufljót kemur í hana. Næsta vað fyrir ofan Auðsholt er við Kópsvatn. L-B: Voru fleiri ferjur á Hvítá en sú við Iðu? Jón: Það var lögferja við Laugadæli, en það voru náttúrlega fleiri sem áttu báta. Það er til dæmis til skemmtileg saga af Ófeigi ríka á Fjalli, sem uppi var á fyrri hluta 19. aldar. Hann sendi vinnumenn sína í kaupstað og hafði gert áætlun um það hversu lengi þeir væru í ferðinni. Þeirra ferð gekk vel, svo þeir voru komnir til baka einum degi fyrr en ráð var fyrir gert. Koma þeir nú að Hvítá, en báturinn var hinu meginn. Ófeigi voru gerð boð um að þeir væru komnir að ánni. En hann skipti sér ekkert af því og fengu þeir að dúsa á hinum árbakkanum til næsta dags, er sá tími var kominn, sem Ófeigur hafði ákveðið að þeir kæmu heim á! - Þetta er svona dæmi um hvað sumir þessir ríku menn gátu verið sérlundaðir. L-B: Gerist það á hverjum vetri að ána leggur svona eins og nú er? Jón: Oftast leggur hana eitthvað, en mis lengi. Ég man að veturinn 1945-46 lagði ána aldrei, en veturinn 1950-51 lagði hana í nóvember og leysti ekki fyrr en í byrjun maí. L-B: Kannt þú einhverjar sögur af ferjumannsstarfinu ? Jón: Nei, það get ég varla sagt. Á sumrin var oftast fært, en stormurinn á haustin gat verið varasamur. Þegar bylgjurnar urðu of miklar, réðist ekki við bátinn. Oftast var aðeins einn maður sem réri. Ég veit ekki til þess að það hafi orðið slys á ánni, nema þegar bóndinn í Auðsholti fórst árið 1676. Hann var víst orðinn aldraður þá, en annar maður, sem var með honum komst af. Það var miklu meira rætt um ána á veturna og fylgst vel með ísnum. Þegar frost hafði verið nokkra daga, var talað um að komið væri "ísskrið" í ána, það er þunnur ís, sem flýtur niður ána. Þegar frost herðir, stoppar ísinn og frýs saman. Þá var kallað að áin væri "lögð" eða að "áin væri komin saman" og hægt að fara yfir með gát. T.d. var sagt: "Hún er ekki nema einhögg", sem þýddi að ekki þurfti nema eitt högg með broddstaf til að fara niður úr ísnum. Það voru "ísskildirnir", sem voru traustir, en á milli þeirra var svokallað "skrof", sem var hærra en skildirnir, en mjög ónýtt. Því þurfti að "þræða sig eftir skjöldunum, en forðast skrofið". Skarir myndast þegar ísinn nær ekki að frjósa saman. Á vorinn var svo talað um að "nú væri hún að fara fram" þegar ísa leysti og jakaburður kom í ána. Þannig voru ýmiskonar orðatiltæki, sem tilheyrðu umgengni við ána, en sem ef til vill þekktust ekki annarsstaðar. L-B: Að lokum, kannt þú einhverjar sögur af fyrri ábúendum í Auðsholti? Jón: Ættfróðir menn hafa sagt mér að hér hafi búið Vopna-Teitur hinn sterki. Séð yfir ármót Stóru-Laxár og Hvítár frá Auðsholti að sumri til. Litli - Bergþór 14

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.