Litli Bergþór - 01.12.1995, Blaðsíða 19

Litli Bergþór - 01.12.1995, Blaðsíða 19
Ogmundarbríkina frá Skálholti forðum daga, áður en senda átti hana suður í Dómkirkjuna. Sagt er að hún hafi verið mikið listaverk, en bríkur voru einskonar skáphurðir með litlum helgimyndum, svokölluðum íkonum. Því miður dagaði bríkina uppi í salthúsi á Eyrarbakka og eyðilagðist þar. - Á Sandlæk bjó Guðmundur Ámundason afi minn og faðir minn, Jóhann Kristinn Guðmundsson var fæddur þar, næstyngstur 14 systkina. Af þeim systkinum komust einungis sex til fullorðinsára, hin létust flest á fyrsta og öðru ári, þaraf þau fyrstu fimm öll. Þau sem upp komust voru: Katrín (f. 1876), Guðrún (f.1880), Bjarni (f. 1883), hann varð aðeins 21 árs, Ámundi (f. 1886), faðir minn, Jóhann Kristinn (f. 1889) og Guðríður Guðrún (f.1891). Katrín giftist Jóni Brynjólfssyni frá Kaldbak í Hreppum og bjó m.a. á Grafarbakka. Guðrún bjó í Miðdal um tíma, gift Gunnari Þorsteinssyni frá Reykjum á Skeiðum. Ámundi bjó á Sandlæk, kvæntist Höllu Lovísu Loftsdóttur skáldkonu frá Kollabæ í Fljótshlíð og eru afkomendur hans m.a. á Kjóastöðum hér í sveit. Guðríður giftist Gísla Eiríkssyni, sjómanni frá Miðbýli á Skeiðum. Hann fórst með togaranum Max Pemberton í stríðinu. Faðir minn keypti Iðu I af Sigurði gamla í Efstadal, en á Iðu hefur alltaf verið tvíbýli. Hann og móðir mín, Bríet, byrjuðu svo búskap sinn á Iðu árið 1918. Áður hafði móðir mín verið í vinnumennsku, m.a. hjá Sigurlaugu og sr. Eiríki á Torfastöðum, en Jóhann faðir minn unnið vítt og breitt um uppsveitirnar við smíðar þó hann væri ekki lærður smiður. Til dæmis byggði hann bæinn á Kringlu í Grímsnesi. Hann renndi einnig mikið, smíðaði rokka og steypti úr kopar. Til er rokkur, sem hann gaf móður minni árið 1917. Hann smíðaði skeifur og aðra hluti til búsins og stóra 30 þráða spunavél smíðaði hann inni á baðstofugólfi. Rennibekkurinn var í eldhúsinu. Manni verður stundum hugsað til þess hverju þessir gömlu smiðir hefðu afkastað ef þeir hefðu haft nútíma verkfæri og tækni. Þó er ekki víst að það hefði verið meira. í þá daga þurftu þeir að smíða öll sín verkfæri sjálfir og nota útsjónarsemina og brjóstvitið. Því miður hafði maður ekki hugsun á því að varðveita verkfæri föður míns, en Ingvar, bróðir mömmu, fékk þau til Vestmannaeyja og þar glötuðust þau. - Nema rennibekkurinn, sem hann smíðaði úrOrigon Pine regaviðartréi af Landeyjarsandi, skömmu áður en hann dó. Hann er hjá Ámunda bróður í Reykjavík. - Eftir að foreldrar mínir hófu búskap hér á Iðu, vann faðir minn áfram annað slagið út um sveitir við smíðar, gegn vinnuskiptum aðallega. Aðrir menn komu þá hingað á meðan til að vinna við búskapinn, en hér var stundaður hefðbundinn búskapur með kýr og kindur. Hann kunni þó handtökin við bústörfin einnig, því árið 1918 vann hann 1. verðlaun í kappslætti á Torfastaðaengjum, eins og lesa má um í öðru bindi bókanna „Inn til fjalla". Hann dó árið 1928, aðeins 39 ára. Árið eftir kom til okkar Loftur Bjarnason frá Skarði í Gnúpverjahreppi. Hann var móðurbróðir Haraldar Mattíassonar og það er til mynd af honum í gömlum ferjubáti, sem tekin var í sambandi við heimildarmynd Haraldar um lestarferð úr kaupstað. Hann var hér til dánardags 1969, skýr og skemmtilegur karl. En móðir mín dó árið 1970. L-B: Hvað eruð þið mörg systkinin? Ingólfur: Við erum 5 systkinin og öll á lífi. Elstur er Ámundi, sem er tæknifræðingur, búsettur í Reykjavík, síðan ég, Gunnar, húsa- og skipasmiður í Keflavík, Sigurlaug, sem helst hefur unnið sér til frægðar að vera móðir Jóhanns Hjartarsonar skákmeistara og býr í Reykjavík og að lokum Unnur, sem er yngst og er bóndakona á Reykhól á Skeiðum. Ingólfur er giftur Margréti Guðmundsdóttur. Áður en við sleppum ættfræðinni alveg, spyr ég hana hvaðan hún sé og hverra manna. Margrét: Ég er Skagfirðingur, ættuð frá Litla- Hóli í Viðvíkursveit. Foreldrar mínir, Guðmundur Magnússon og Fanney Jónsdóttir, bjuggu þar. L-B: Og hvernig kom það til að þú flyst hingað suður? Margrét: Ég fór til Reykjavíkur og réðist síðan sem kaupakona til læknishjónanna hér í Laugarási, þeirra Sigurlaugar Einarsdóttur frá Brimnesi og Ólafs Einarssonar. Faðir minn var að hluta til alinn upp hjá foreldrum Sigurlaugar, þeim Margréti og Einari og ég er skírð í höfuðið á Margréti þessari. Ég var sex sumur og einn vetur í Laugarási, annars var ég í Reykjavík á veturna. L-B: Og börn ykkar hjóna? Margrét: Við eigum fjögur börn, 13 barnabörn og eitt barnabarnabarn. Börnin eru Jóhanna fædd 1945, Guðmundur, f. 1947, Hólmfríður, f.1951 og Ingólfur og Margrét með börnum sínum og hluta af barnabörnum í sjötugsafmœli Ingólfs. Yst til vinstri eru Hólmfríður og Jóhanna, en lengst til hægri Guðmundur og Loftur. Myndin er tekin í gróðurhúsinu. Litli - Bergþór 19

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.