Litli Bergþór - 01.04.1999, Qupperneq 3
-------------------------------------------------------------------------—.
Ritstjómargrein
Hinn 9. janúar sl. náðist merkur áfangi í uppbyggingu félagslegrar aðstöðu í Reykholti, er nýja
íþróttahúsið var tekið í notkun. Segja má að þetta verk hafi staðið allt frá upphafi þessarar aldar. Á fundi
Ungmennafélagsins 4. apríl 1909 er sundkennsla rædd. Lesið er bréf frá Ungmennafélagi Hrunamanna,
þar sem Tungnamönnum er gefinn kostur á að læra sund í laug þess félags. í fundargerð er haft eftir
Sveini Eiríkssyni í Miklaholti að hann „óskaði helst að Tungnamenn kæmu sér sjálfir upp sundlaug hjá sér
og þyrftu ekki að læra annars staðar.“ í framhaldi af þessu er farið að ræða möguleika á að byggja
sundlaug, og var hún byggð árið 1912. í ársskýrslu fyrir það ár er: „Gerð var sundlaug í Reykholti. Unnu
félagar mest að því sjálfir.“ í reikningi þessa árs er kostnaður við sundlaugarbygginguna kr. 33,80 og
keyptir tveir sundkútar, sem hafa kostað 1 kr. og 25 aura hvor. í ársskýrslu fyrir 1913 er fyrst getið um
sundnámskeið, en þar segir: „Sund kennt í sundlaug félagsins 1 viku um vorið; nemendur 13 piltar.“ Þetta
mannvirki mun ekki hafa enst lengi, enda aðeins hlaðið úr kökkum. Næsta stórvirkið við uppbyggingu
mannvirkja í þágu almennings í Reykholti var skólinn, sem var tekinn í notkun árið 1928. Við hann var
sundlaug, sem var oft mikið notuð af nágrönnum.
Fram yfir miðja öldina er nokkuð langt stórra högga á milli við uppbygginguna í Reykholti. Nýtt
skólahús er byggt árið 1957 og er það nú hluti af húsi því, er lokið var við fyrir nokkrum árum. Líklega
er bygging Aratungu á árunum 1956 til 1961 mest virði allra mannvirkja, sem reist hafa verið hér í sveit til
að bæta félagslega aðstöðu fólks. Næst kom svo sundlaugin, íbúðir fyrir aldraða og íþróttavöllurinn.
Allt voru þetta merkir áfangar og verðug verkefni, en mörgum fannst samt vanta íþróttasal, þar sem
Aratunga hentaði ekki vel til boltaleikja, og sá nokkuð á salnum vegna skaða, sem boltar og líkamar manna
ollu á viðarðklæðningu og ljósum. Einnig er salurinn of lítill til að stunda þar slíka leiki, og þeir fara
einnig illa saman við veitingastarfsemina. Farið var að taka íþróttasalinn á Laugarvatni á leigu bæði fyrir
skóla- og almenningsíþróttir. Ekki voru þó allir á einu máli um að bygging íþróttahúss væri skynsamleg
fjárfesting fyrir skuldum vafið sveitarfélag, sem ef til vill myndi innan skamms sameinast öðrum, þar sem
góðir salir væru til staðar. Hjá Ungmennafélaginu var enginn bilbugur og gerðar þar samþykktir á
fundum, og fulltrúar þess fylgdu málinu eftir þar sem því var við komið. Sveitarstjóm tók síðan ákvörðun
og undirbúningur var hafinn af fullum krafti.
Nú er húsið risið og eru væntanlega allir glaðir yfir því. Vonandi stuðlar það að því að hér vaxi upp
heilbrigð og hraust æska og þeir eldri fái tækifæri til að halda vel við líkama sínum og sál fram á elliár.
Það er raunar hlutverk allra þeirra mannvirkja, sem risið hafa í Reykholti síðustu áratugina. Hér er aðstaða
til að veita æskunni góða menntun, iðka heilbrigt félagslíf og stunda hollar íþróttir. Allt er þetta ein
menningarhöll, sem tengir fólk við sína sveit og stuðlar að því að fleiri vilji setjast hér að.
Einn hængur er samt á flestum þessara mannvirkja. Þar er víðast illt aðgengi fyrir fatlaða. Tröppur
og stigar án nokkurrar brautar fyrir hjólastóla eru víða í vegi. í nýja íþróttahúsinu á að vísu að koma
aðstaða fyrir hreyfihamlaða, en hún var látin sitja á hakanum að sinni. Sama er að segja um skólann. Þar
er gert ráð fyrir lyftu, en hún er ekki komin enn. Tröppur eru við innganga Aratungu og hár og brattur stigi
upp á efri hæðina, þar sem hreppskrifstofan er. Ef til vill þykir ekki ástæða til að leggja í verulegan
kostnað vegna þessa, þegar ekki er neinn búsettur í sveitinni, sem er bundinn við hjólastól. Þess verður þó
að gæta að skylda er að hafa allar opinberar stofnanir aðgengilegar fyrir hreyfihamlaða, og hér er oft á ferð
fólk, sem þarf á þessu að halda. Einnig má alltaf búast við að einhver okkar, sem erum hér búsett, missi
skyndilega mátt í fótum, og einhverjir, sem eru þannig settir, óski að setjast hér að. Fyrir slíka er mjög
erfitt að horfa upp á það að verið sé að leggja í mikinn kostnað þeirra vegna, þó þeir eigi á því lagalegan
rétt.
í sumum þeim tilvikum, sem hér er um að ræða, þarf ekki að kosta miklu til svo aðgengi sé
viðunandi fyrir hreyfihamlaða. Bretti með lágum tröppum er ekki mikil framkvæmd. Það ætti því að vera
unnt að gera strax. En þörf er að reynt sé að gera sér grein fyrir hvernig unnt er að koma ferlimálum í gott
horf allsstaðar svo hin glæsilega aðstaða til iðkunar fjölbreyttrar menningar í Reykholti verði aðgengileg
öllum.
A.K.
s___________________________________________________________________________>
Litli - Bergþór 3