Litli Bergþór - 01.04.1999, Page 11
Minni kvenna
Höf: Sigurður Sigurðarson, Skálholti
Flutt á Þorrablóti 1999.
Það er annars einkennnilegur siður að láta mæla fyrir
minni kvenna, og alltaf verður það erfiðara og erfiðara
fyrir karlmann að gera það. Sjálfur hef ég forðast það
eins og heitan eldinn að taka slíkt að mér, en stend nú
samt hér í þessum sporum eins og af einhverri
þegnskyldu. Ég tel mér trú um að þetta hafi verið
auðveldara fyrir svo sem fimmtíu árum þegar
verkaskipting karla og kvenna var fyrir hendi og nokkuð
skýr. En nú er öldin önnur. Hér ber væntanlega að tala
um norrænar konur, en elsta heimild urn þær er hjá
Rómverska
sagnaritaranum
Tacitusi, sem fullyrðir
að norrænar konur búi
yfir yfirskilvitlegum
hæfileikum. Ef til vill
væri skynsamlegast
að fara eins að og
Tacitus og segja bara
eitthvað nógu óskýrt
og óskýranlegt um
konurnar og láta þar
við sitja.
Ég man eftir því í æsku að hafa lært utan að tilsvar
húsfreyjunnar á Bergþórshvoli er henni var boðið að
ganga úr brennunni og sagði að eitt skyldi yfir þau Njál
ganga. Ég man líka eftir því að þessi orð átti maður að
taka afar alvarlega og virða þá tryggð og samstöðu við
eiginmanninn sem orðin tjá. Auðvitað þykir okkur
karlmönnum vænt um slrka afstöðu kvenna, getum ekki
að því gert. Hún hefur svo birst í bókmenntum okkar og
sagnageymd í margvíslegum myndum. Auðvitað er það
sama afstaðan sem kemur fram í orðum konu nokkurrar
niður í Flóa á síðustu öld. Hún var sambýliskona bónda
nokkurs og þótti afar vænt um hann. Sveitungar sem
voru á ferð sögðu henni að nú væri tiltekin stúlka ófrísk
og að hún kenndi þessum sama manni barnið. Þá sagði
konan: „Ja, hann Jón minn hefur einhvem tíman hengt
sig fyrir minna en að honum væri kennt barn“. Hún var
heldur ekki að gera sig til fyrir öðrum karlmönnum og
sagðist ekkert skilja í þessum ungu konum sem væru
farnar að skipta hárinu skakkt. „Ég skipti nú bara eins og
Guð hefur skapað það og skipti beint“. Síðan ég fyrst
heyrði um þessar tvær konur, hef ég orðið þess var, að
fólk vill draga í efa að Bergþóra hafi komið góðu einu til
leiðar í Njálu og það hlær að bláheiðarlegri afstöðu
síðarnefndu konunnar.
Já, hvernig á ég að tala um konur og hvað veit ég um
þær? Menn hafa farið flatt á því að reyna að útskýra allt
um konur og jafnvel orðið ráðþrota. Það sýnir t.d. sagan
af vestfirsku stúlkunni sem giftist manni hér
sunnanlands. Eftir nokkra sambúð kom eðlilega að því
að hún yrði léttari. Tengdafaðir hennar fór að sækja
ljósmóðurina og í þeirri ferð kom hann við á bæ í
nágrenninu þar sem hann gerði uppskátt um erindi sitt.
Viku síðar kom hann við á sama bæ og var enn að sækja
ljósmóðurina. Hann var þá spurður hvort ekki væri allt í
lagi hjá tengdadótturinni. „Jú það held ég“, svaraði
maðurinn, „annars er hún að vestan og við kunnum
líklega ekki á hana“. Gamall maður vestur á
Snæfellsnesi var spurður að því úr hvaða veikindum
konan hans hefði látist. „Það veit ég ekki“, var svarið,
„nú bara úr almennum aumingjaskap held ég“.
I þessum vangaveltum mínum
kemur mér í hug vísa eftir Stefán
Olafsson í Vallanesi, sem var eitt af
höfuðskáldum Islendinga á sautjándu
öld, en hún er svona.
Vandfarið er með vænan grip,
votta ég þá með sanni,
siðuga konu, sjálegt skip,
og samviskuna í manni.
Samviskan er sannarlega einn okkar
vænsti gripur, því að hún skilur okkur
meðal annars frá dýrum, en hún er
vandmeðfarin og fyrr en varir bítur hún
okkur og slær og lætur engin rangindi í friði, þó að í bili
virðist þau í hag koma. Það er líka vandfarið með sjálegt
skip og mikið í húfi að rétt sé stýrt og ekki sofnað á
verðinum. Þetta þrennt, siðug kona, sjálegt skip og sjálf
samviskan eiga í huga skáldsins nokkuð sameiginlegt.
Samviskan áminnir oft á óvæntan hátt og hittir okkur þar
sem við erum veikastir fyrir. Skipið kann að ólmast í
höndum manna og taka jafnvel stjórnina af þeim þegar
minnst varir. Konan kemur líka sífellt á óvart og hún er
vandmeðfarin því að hún lætur ekki endilega að stjórn
karla samkvæmt eðli sínu, og vilji hún taka á okkur, gerir
hún það þar sem við síst komum vörnum við. Allt þetta
þrennt er svo með þeim hætti að okkur körlum er unnt að
elska það og virða í senn. Enginn vill vera kallaður
samviskulaus, því að þá er hann talinn marklaus maður.
Öll þekkjum við til aðdáunar og elsku sægarpanna á
skipum sínum og sannarlega metum við það mikils að
komast leiðar sinnar. Um hæfileika karla til að elska og
virða konur þarf ekki að efast né hvem þátt það á í
lífshamingju þeirra. Um það allt ætla ég ekki að fjölyrða
en geri þessi orð séra Stefán að niðurstöðu máls míns hér
og meginefni:
Vandfarið er með vænan grip.
votta ég þá með sanni,
siðuga konu, sjálegt skip,
og samviskuna í manni.
Ekki ætla ég svo að hafa þau orð fleiri en tel að ég
hafi komist í gegnum þetta án þess að þið hafið fundið í
því einhverjar sendingar til konu minnar, og þá er ég
sloppinn. S.S.
A þorrablóti 1999.
Litli - Bergþór 11