Litli Bergþór - 01.03.2004, Blaðsíða 7

Litli Bergþór - 01.03.2004, Blaðsíða 7
Mamma var algjört borgarbarn en reyndist frábær húsmóðir í sveit. Til dæmis tók hún slátur og gerði skyr eftir uppskrift móðursystur sinnar, Jóhönnu á Núpum í Ölfusi. Árið 1941 fluttum við svo til Reykjavíkur, þegar pabbi varð prestur í Hallgrímssókn. Kirkjan var þá auðvitað ekki risin og það var messað í bíósal Austurbæjarskóla. Við bjuggum þá á Freyjugötu 17, í húsi afa míns og ömmu í móðurættina. Þau voru bæði Skaftfellingar, Rannveig Magnúsdóttir af Síðunni og Þorkell Magnússon úr Landbrotinu, yndislegt fólk sem urðu afar tengd okkur systkinunum. Það var leikvöllur fyrir utan húsið og þar var mikið af börnum úr hverfinu að leik. Við fórum í alla þessa boltaleiki, sem nú þekkjast varla, eins og „yfir“, „brennibolta“ og fleira. Þetta voru glaðir dagar. En mér eru líka sérstaklega minnis- stæðar líkfylgdirnar, sem þá fóru eftir Freyjugötunni. Líkbíllinn á undan og lík- fylgdin fótgangandi í langri halarófu á eftir, á leið vestur í kirkjugarð. Mér fannst þetta alltaf svo átakanlegt og minnti á að lífið var ekki allt leikur. L-B: Hver eru systkini þín: Rannveig: Gíslrún er elst, fædd 1934, handavinnu- kennari, svo er ég, fædd 1936, Þorkell, fæddur 1938, tónskáld, Árni Bergur, fæddur 1941, prestur í Áskirkju í Reykjavík, Einar, fæddur 1944, prestur og prófessor í guðfræði við Háskólann, Karl, fæddur 1947, prestur, nú biskup, Björn fæddur 1949, prestur og skáld í Kaupmannahöfn. Hann lést fyrir rúmu ári síðan. Yngstur er svo Gunnar, fæddur 1951 hagfræðingur, búsettur í Svíþjóð. L-B: Þú hefur væntanlega gengið í Austurbæjar barnaskólann? Rannveig: Jú, ég byrjaði mína skólagöngu í Austurbæjarskóla og kennari minn var þar Stefán Jónsson, rithöfundur, sem skrifaði Hjalta-bækurnar á sínum tíma. Hann var skemmtilegur kennari. Svo var skólahverfunum breytt þegar ég var 10 ára og ég var flutt í Miðbæjarbarnaskólann. Það getur verið erfitt að vera rifin svona upp með rótum í byrjun skólagöngu, en þetta fór allt vel. Eg fór að vinna á skrifstofu Þjóðleikhússins eftir grunnnámið í tvö eftirminnileg ár. Þar vorum við aðeins fjögur, Guðlaugur Rósinkrans, þjóðleikhússtjóri, Valgerður Tryggvadóttir, skrifstofustjóri og við Þor- björg Möller. Þær giftust báðar tónskáldum, Valgerður Hallgrími Helgasyni og Þorbjörg Jóni Leifs. Við Bernharður kynntumst hinsvegar á sveitaballi hér fyrir austan innan við tvítugt! Sumarið áður en ég fór til Svíþjóðar á lýðháskóla þar, fórum við, tvær vinkonur úr Reykjavík, í kaupavinnu austur í Skaftholt í Gnúpverjahrepp og Bernharður var þá kaupamaður í Eystra Geldingaholti. Þetta var rigningarsumarið mikla 1955 og mikið félagslíf þessvegna hjá unga fólkinu í hreppnum. Sá kunningsskapur hefur haldist síðan! segir Rannveig kankvís. Eg hóf svo nám við Hjúkrunarkvennaskóla íslands, eins og skólinn hét þá, þegar ég kom heim frá Svíþjóð. Við bjuggum allar í heimavist skólans á Landsspítalalóðinni. Heimavistin stuðlaði að yndislegu og skemmtilegu samfélagi stúlkna allsstaðar að af landinu sem veittu hver annarri skjól þegar hin erfiða lífsreynsla í nánd sjúkdóma og dauða varð of þungbær og áleitin. Vináttan sem þarna mótaðist hefur varað í nær hálfa öld og hefur verið ómetanleg í lífi okkar og starfi. Við Bernharður giftum okkur þegar ég hafði lokið náminu, en hann var enn í miðju sínu námi. Síðasta árið hans í guðfræðideildinni, bjuggum við á Kleppi, en ég var þá deildarstjóri þar. Það var mjög gott að búa í starfsmannabústöðunum þar og elskulegt samfélag. Þar var bamaheimili, sem Svava dóttir okkar gat verið á. Það var mikil lífsreynsla að kynnast þessum heimi sem mótaðist af geðsjúkrahúsinu. L-B: Ég heyri að þið þekktuð ykkur bæði hér fyrir austan fjall á yngri árum. Hvemig ert þú tengdur Suðurlandinu Bernharður? Bernharður: Jú, við eigum bæði rætur á Suður- Fjölskylda Rannveigar. Fremri röð: Rannveig, Magnea, Sigurbjörn, Gíslrún. AJtari röð: Þorkell, Karl, Einar, Gunnar, Björn, Arni Bergur. Litli Bergþór 7

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.