Bændablaðið - 19.06.1987, Qupperneq 16
KAUPFÉLAGSREKSTURINN
VAR SÓSÍALISMI
— Bændablaðið ræðir við Guðmund Albertsson bónda og odd-
vita á Heggstöðum um steinsteypumetnað, frelsi til að framleiða,
kaupfélögin, beitarbúskap og kúastofn sem er til að stríða ná-
grönnunum.
í ofanverðum Hnappadal að austanverðu er bærinn
Heggstaðir. Bæjarhúsin standa ein sér frá annarri byggð
sveitarinnar, uppi í brattri brekku ofan við veginn sem
liggur um Heydal norður á Skógarströnd. Þar búa þau
hjónin Guðmundur Albertsson og Ásta Þorsteinsdóttir
ásamt syni þeirra Albert. Guðmundur er oddviti sinnar
sveitar og vel þekktur meðal þeirra sem fylgst hafa með
hatrömmu stríði millum bænda og eigenda Haffjarðar-
ár, — stríðinu við Thorsara. En blaðamaður Bænda-
blaðsins tók Guðmund tali nú á vordögum, nokkru fyrir
sauðburð, um framleiðslustjórnun, fjárfestingar í bú-
skap, sósíalisma kaupfélaganna og margt fleira.
Á Heggstöðum er blandað bú, að
mestu í gömlum húsum. Fjósið
rúmar 9 kýr og var byggt 1930. Fjár-
húsabyggingin er frá ýmsum tím-
um, — „...sumt verið til frá því ég
man eftir mér,“ segir Guðmundur
sem er fæddur og uppalinn á Hegg-
stöðum. Bústofninner9kýr, 2geld-
neyti, 277 kindur og 60 kanínur.
Þar með búið frelsið!
Blaðamaður Bændablaðsins
fylgdi bóndanum út til gegninga í
gömlu húsi og allt búskaparlag á
bænum ber því vitni að þar hefur
fjárfestingagleði ekki ráðið svo
mjög ríkjum. Fjárhúsið er gamalt
með grindargólfi sem stungið er
undan með því að gaflar hússins eru
teknir frá og farið inn með traktor
en aðstaða víða erfið. Tal okkar
berst að fjárfestingum í búskap og
vanda þeirra bænda sem hafa farið
í að byggja dýr fjárhús með
traktorsgengum kjöllurum síðustu
ár og sitja nú í skuldasúpu, sumir
hverjir, vegna verðtryggðra lána og
hærri afborgana en búin standa
undir.
„Fjárhús eru aldrei hagkvæm
fyrstu árin meðan þau eru að borga
sig upp en svo standa þau tugi ára
og þá skiptir ekki svo miklu hvað
þau hafa kostað fyrstu árin. En
staðan í kindakjötsframleiðslunni
er slæm. Þeir sem framleiða svína-
kjöt fá undan hverri gyltu 10 grísi
sem gefa svo kannski af sér 400 kg
af kjöti eða ég veit ekki hvað. A
meðan fáum við ekki nema svona
25 kg undan ánni eftir 6 til 7 mán-
aða innistöðu þar sem féð er stríð-
alið allan tímann. Þetta er alltof
dýrt fóður fyrir svona lítið ket ef
menn þurfa auk þess að reikna sér
húsaleigu ofaná fóðurkosnaðinn
þá gengur þetta alls ekki...
Það má ekki ætlast til að svona
hús séu borguð á skömmum tíma.
Lánin þurfa að vera til 40 ára og
Iánskjaravísitölu á að reikna út með
öðrum hætti en nú er gert, og taka
frekar mið af greiðslugetu almenn-
ings en vaxtahagsmunum peninga-
manna. Það er lítið vit í að ef
brennivín hækkar þá hækka eftir-
stöðvar lána og svo er þetta fram-
reiknað út allan lánstímann. Það
þarf að ákveða á hvaða jörðum eigi
að reka fjárbú og endurnýja svo
húsin þar sem þarf, eftir því sem
efnahagur manna leyfir. Það
skemmir menn bæði andlega og lík-
amlega að sökkva niður í óviðráð-
anlegar skuldir oft fyrir vanhugsað-
an steinsteypumetnað.
Megingallinn við þessi nýju fjár-
hús er kannski sá að það er hægt að
hirða svo margt fé í þeim; ef einn
byggir svona þá þurfa allir aðrir í
nágrenninu að gera eins, til þess að
hafa það nú gott líka, og geta fjölg-
að, og verða nú ekki afskiptir. Þá er
kannski ekki athugað hvort land er
fyrir féð, eða hvurt bóndanum
hentar fjárbúskapur. Svo þegar
markaðurinn tekur ekki við meiru
verður að setja kvóta og ákveða
hvað hver má hafa margt. Þar með
er búið frelsið, sem er kannski það
eftirsóknarverðasta við búskapinn,
en við taka lög og reglugerðir.
Ef frelsið á að þrífast verða menn
að kunna sér hóf, og virða annarra
rétt og muna sínar skyldur. Þessu
virðast sumir bændur og frammá-
menn í landbúnaði hafa gleymt, og
í staðinn tileinkað sér hugsjónir
frjálshyggjumannanna fyrir sunn-
an, að verða stórir á annarra kostn-
að“
Skerðingin kemur á besta
tíma
„En þetta segja menn náttúrlega
bara af öfund sem ekki eiga svona
merkileg hús. Það er ekki hægt að
vera á móti svona húsum, ekki hægt
að fara afturábak eða taka mark á
því sem einhverjir afturhaldsmenn
eru að segja..|‘ segir Guðmundur og
bætir við: „Þú mátt náttúrlega ekki
vera að hafa þetta eftir mér, — eig-
inlega var mér nú veitt tiltal um dag-
inn fyrir ábyrgðarlaust tal um land-
búnaðarmál. Mér var sagt að ég
ætti að hafa áhyggjur, en ég held að
það þýði bara ekki neitt. Þetta fer
einhvernveginn"
Þú minnist á að stóru húsin hafi
leitt okkur inn í kvótakerfið og sú
nióurjöfnun sem nú hefur verið
reynd er víða gagnrýnd. Er til ein-
hver betri leiö, — svo sem að skipta
framleiðslugreinunum niður eftir
landshlutum?
„Það verður náttúrlega að miða
fullvirðisrétt jarðanna við það að
hægt sé að lifa á þeim. Það ætti að
taka tillit til þess að sumsstaðar eru
hlunnindi sem menn geta haft
framfærslu af. En víða er það svo
að á hlunnindajörðunum er best
uppbyggt því bændur virðast alltaf
nota allt fjármagn sem þeir fá til
þess að byggja meira og stækka við
sig. Það er kannski óeðlilegt að láta
bestu húsin standa auð og svoná
rekst þetta hvað á annað.
Hvort Vestfirðingar og Austfirð-
ingar eigi að sitja einir að sauðfjár-
framleiðslunni af því að þeir hafi
nóg beitiland! Það held ég ekki.
Það getur enginn skipt þessu niður
svo sanngjarnt eða rétt sé. Þó held
ég að það sé nærri því best að fá ein-
um manni alræðisvald til að ákveða
þetta, — fara yfir landið og segja þú
færð þetta og þú færð þetta og svo
standi það bara.“
Hvernig kemur sú framleiöslu-
stjórnun sem er út fyrir ykkar bú,
eruð þið með mikla skeröingu?
„Já, það er mikill munur frá því
sem var með búmarkinu því við
vorum með búmark fyrir 540 ær-
gildi en eftir að það kom á fækkuð-
um við við okkur, — héldum að það
væri ætlast til þess. En svo er okkur
refsað fyrir það eins og fleirum og
erum núna ekki með nema 280 ær-
gildi í sauðfénu og 125 í mjólkur-
kvóta. Annars er þetta ágætt og ég
er ekki að kvarta. Manni leiðist aft-
ur á móti að sjá menn sem hafa ríf-
legan fullvirðisrétt og litla skerð-
ingu hafa fengið en eru samt manna
harðastir í því að kría út viðbót.
Sumir menn fá aldrei nóg hversu
mikið sem þeir komast yfir.
En það sem menn verða að at-
huga er að þessi skerðing kemur á
besta tíma. Kostnaður við búskap-
inn hefur verið með minnsta móti
því að það hafa verið grasár tvö síð-
astliðin sumur og sæmileg þurrka-
tíð. Borið saman við óþurrkasumur
næstu tvö ár á undan og þar á und-
an kal og grasleysi þá munar þetta
mjög miklu. Til dæmis þá keypti ég
nýja Lödu í fyrrahaust því sú gamla
var orðin ryðguð og hafði nánast
sparað verð hennar í fóðurbæti vet-
urinn '85—86.
Bændurnir taka nefnilega alltaf á
sig ótíðina. Grundvöllurinn miðar
við meðalár og varan hækkar ekki
í verði þó að framleiðslukostnaður
hækki um þriðjung eða helming.
Bændur verða að reikna með þessu
og eins og staðan er í dag verða þeir
að hafa rekstrarfé handbært því
það er útilokað að reka búskap, eða
hreppsfélag eða hvaðeina sem er,
með Iánsfé. Sá sem verður að taka
lán fyrir áburðarkaupum og borga
af því vexti til hausts er illa staddur.