Bændablaðið - 23.06.2011, Page 33
32 Bændablaðið | fimmtudagur 23. júní 2011
Matvælaöryggi er orð sem heyrist
oftar og oftar og skal engan undra,
því fólki fjölgar með ógnarhraða,
ekki bara hér á landi heldur um
allan heim. Því þarf stöðugt að
fæða fleiri munna.
Við Íslendingar flytjum gríðarlegt
magn af mat til landsins. Áhugavert
væri að sjá hvort sá matur sem fram-
leiddur er hér á landi myndi duga
til að fæða alla þjóðina. Á það gæti
reynt ef heimsstyrjöld skellur á,
eða þá ef eyjan Ísland einangrast
af öðrum orsökum – til dæmis ef
samgöngur á sjó og lofti til og frá
landinu stöðvast.
Tvær stéttir framleiða nánast
allan mat hér á landi; bændur og
sjómenn. Framleiðsla þessara stétta
er algjörlega háð tiltekinni vöru:
olíu. Til þess að veiða fisk þarf olíu
á skip og til þess að flytja fiskinn til
og frá höfnum þarf olíu. Hið sama
gildir um okkur bændur. Heyskapur
og aðföng eru fullkomlega háð olíu
og sömuleiðis þurfum við að koma
vörunni til og frá býli.
Með öðrum orðum: Fæðuframboð
hér á landi er háð olíu og innflutn-
ingi á matvælum. Því er vart hægt
að kalla okkur sjálfbæra þjóð.
Olíuverð er í sögulegu hámarki
og sumir vísindamenn spá því að
olíulindir jarðar gangi til þurrðar
áður en langt um líður. Hvar stönd-
um við þá? Hvernig ætlum við að
framleiða mat hér á landi ef við
höfum ekki lengur efni á olíu, eða
þá ef hún er einfaldlega ófáanleg?
Þessum spurningum þurfum við
ekki að svara ef við framleiðum okkar
eigin orku. Og þar getur metan leikið
lykilhlutverk.
Bændur framleiða mikið af hrá-
efni sem gæti nýst til framleiðslu á
metani, svo sem búfjáráburð og hey,
auk þess sem nota má grisjunarvið frá
skógrækt sem stóreykst á komandi
árum. Einnig fellur til mikið af hrá-
efni frá þéttbýlissvæðum, til dæmis
plöntuleifar og seyra sem er í flestum
tilfellum urðað. Hvers vegna ekki að
nýta það til fulls?
Í fyrirlestri sem Jón Guðmundsson
hjá Landbúnaðarháskóla Íslands hélt
á ráðstefnu á Hótel Héraði í mars kom
fram að framleiðsla á metani geti vel
orðið arðbær fyrir íslenska bændur.
Með því að byggja upp úrvinnslu-
stöðvar á stöðum sem liggja vel
við hráefnisöflun víða um land ætti
þess ekki að vera langt að bíða að
framleiðsla á metani verði almenn,
en til að svo megi verða þarf að fá
stjórnvöld til að leggja fjármagn í
rannsóknir og uppbyggingu vinnslu-
stöðva. Við bændur ættum að geta
nýtt okkur metan sem eldsneyti, en
einnig getum við nýtt hráefni frá
búunum til vinnslunnar sem skilar
til baka mjög góðum áburðarefnum.
Þannig getum við bændur orðið þátt-
takendur í að skapa innlendan orku-
gjafa sem myndi skapa okkur mikið
öryggi til framtíðar. Þar fyrir utan eru
umhverfislegir kostir metans augljósir
því með notkun á því minnkum við
notkun á jarðefnaeldsneyti og drögum
þar með úr losun á gróðurhúsaloft-
tegundum.
Til þess að auka matvælaöryggi
okkar þurfum við að auka orkuöryggi
okkar. Það getum við meðal annars
gert með framleiðslu á metani. Margt
bendir til þess að möguleikar á auk-
inni metanframleiðslu á Íslandi séu
umtalsverðir og að af henni geti verið
verulegur ágóði.
Stjórnvöld, sveitarfélög og
atvinnulífið eru hér með hvött til
þess að hjálpa okkur við að láta
þennan draum rætast.
Metan og matvælaöryggi
Raddir kúabænda - af naut.is
Jóhann Gísli Jóhannsson
Breiðavaði
Hágæðamjólk
úr mjaltaþjónum
Bændum sem nota mjaltaþjóna er
fullkunnugt um að framleiðsla á
hágæðamjólk getur verið erfið. Að
jafnaði er mjólk frá mjaltaþjónum
með bæði hærri frumu- og líftölu
en mjólk úr hefðbundnum mjalta-
kerfum. Það er þó engin afsökun,
fyrir því að vera með hærri frumu-
eða líftölu, að vera með mjalta-
þjón. Til eru bú hér á landi, sem
og í nágrannalöndum okkar, sem
framleiða að jafnaði mjólk með
mjaltaþjónum, sem jafnast á við
það besta sem gerist. En til þess að
ná slíkum árangri þarf að leggja af
mörkum vinnu og reglusemi.
Mjaltaþjónar með hærri líftölu
Samkvæmt upplýsingum frá
Samtökum afurðastöðva í mjólkur-
iðnaði var beint meðaltal líftölu allra
kúabúa á Íslandi 29,4 þúsund/ml.
Þegar líftöluupplýsingar eru hinsvegar
rýndar kemur í ljós að beint meðal-
tal mjaltaþjónabúanna árið 2010 var
52,4 þúsund á meðan beint meðaltal
annarra búa var 25,6 þúsund. Fimm
lægstu mjaltaþjónabúin voru hins-
vegar með 17,3 þúsund að jafnaði árið
2010 og besta búið með 12,9 þúsund
að jafnaði.
Bændurnir spurðir
Af framangreindu má ráða að mikill
breytileiki er á milli búa með mjalta-
þjóna og því áhugavert að skoða hvað
það er sem ábúendur á þessum bestu
búum gera umfram aðra. Því var gerð
úthringikönnun nú í vor meðal þessara
bænda og safnað upplýsingum um
vinnubrögð í fjósum þeirra. Kom í
ljós að margt sameiginlegt var með
vinnubrögðum á þessum kúabúum.
Halda kúnum hreinum
Grundvallaratriði er að halda kúnum
hreinum og voru allir ábúendur með
góða reglu á þeim hlutum sem að
þrifum snýr. Þannig var júgrum allra
kúa haldið hárlausum annað hvort
með köldum bruna eða klippum og
allir höfðu það fyrir reglu að gera þetta
við burð og aftur reglulega eftir því
sem leið á mjaltaskeiðið. Legubásar
voru hreinsaðir þrisvar daglega og
þeim haldið þurrum eftir þörfum með
undirburði. Sérstaklega þarf að huga
að staðsetningu bringuborðs í legu-
básum enda er mun erfiðara að halda
kúm hreinum liggi þær of ofarlega í
básunum.
Halda göngusvæðum hreinum
Á öllum búunum var notuð sjálf-
virkni til þess að halda gangsvæðum
hreinum, bæði í fjósum með rimla-
gólf og heil gólf. Gólfin eru skafin
á klukkutíma fresti þar sem heil gólf
eru en á tveggja tíma fresti þar sem
rimlagólf eru. Þvergangar og önnur
svæði sem sköfukerfi komast ekki að,
hvort sem það er sköfuróbóti eða glus-
sasköfukerfi, voru hreinsuð 2-3 á dag.
Halda mjaltakerfinu hreinu
Bændurnir fylgdu leiðbeiningum
framleiðenda mjaltaþjónsins varð-
andi kerfisþvott og því var hann
alltaf þrisvar á dag og skol eftir frá-
töku mjólkur. Mikilvægt atriði er að
tryggja að þvottavatnið haldist heitt
og hafa þarf fasta reglu á eftirliti með
þvottaefnum bæði fyrir mjólkurtank
og mjaltaþjón. Allir bændurnir skiptu
einnig um spenagúmmí og mjólkur-
slöngur í samræmi við leiðbeiningar
framleiðanda. Ennfremur var notkun
á rörkælibúnaði á mjólkurlögninni
fram í tank til staðar á þessum búum.
Halda mjaltaþjóninum hreinum
Á öllum búunum var augljóslega
mikið lagt upp úr hreinlæti. Allir
bændurnir lögðu áherslu á þrif á
utanverðum mjaltaþjóninum og á
nærsvæði hans svo óhreinindi væru
hvergi nálægt mjaltahylkjunum og
innsogsventlum lofts. Miða má við
að þvo mjaltaþjóninn og gólfið á bið-
svæði eða framan við mjaltaþjóninn
amk. tvisvar á dag. Þá er kostur að
skipta um burstasett (fyrir Lely) einu
sinni til tvisvar í mánuði og leggja þá
hitt settið í sótthreinsandi lög.
Fáið aðstoð við að bæta gæði
Þó svo að ekki sé hægt að fullyrða að
líftalan haldist lág sé vinnubrögðum
hagað í samræmi við niðurstöður
þessarar athugunar, má telja fullvíst
að líkurnar aukist verulega. Lýsingar
á vinnubrögðunum voru í góðu sam-
ræmi við upplýsingar frá öðrum lönd-
um, þar sem bændur með mjaltaþjóna
hafa einnig verið að ná góðum árangri
í baráttunni við líftöluna. Umfram allt
er þó hægt að fullyrða að sé líftalan
fyrir ofan 20 þúsund að jafnaði þá eru
til þekktar leiðir til þess að lækka hana
eins og innlend reynsla sýnir. Hafið
því samband við næsta mjólkureftir-
litsmann (mjólkurgæðaráðunaut) og
fáið aðstoð við að auka gæðin.
Snorri Sigurðsson
Auðlindadeild
Landbúnaðarháskóla Íslands
Að jafnaði er mjólk frá mjaltaþjónum með bæði hærri frumu- og líftölu en mjólk úr hefðbundnum mjaltakerfum.