Bændablaðið - 23.05.2013, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 23.05.2013, Blaðsíða 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 23. maí 20136 Málgagn bænda og landsbyggðar LOKAORÐIN Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 6.900 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.450. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279 Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Freyr Rögnvaldsson fr@bondi.is – Sigurður M. Harðarson smh@bondi.is Auglýsingastjóri: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið ehf. Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621 Samráð með eintali LEIÐARINN Ný ríkisstjórn hefur tekið við stjórnartaumunum á Íslandi og leggur upp í leiðangurinn með miklar væntingar meirihluta kjósenda á bakinu. Því er eins gott að vel verði haldið á spilum næstu fjögur árin og þar hlýtur frágangur skuldamála heimila, fyrirtækja og landbúnaðar að vera í forgangi. Það hefur annars verið einkennilegt að fylgjast með umræðu ýmissa hagsmunahópa síðustu vikur og mánuði. Þar hafa Samtök verslunar og þjónustu talað digurbarkalega. Líkt og þekkt er í pólitík stórþjóða hafa samtökin fundið sér óvin í bændum landsins, sem þau hafa reynt að sameina sína félagsmenn um að berja á. Allt er það gert undir fagurgala um að tollalækkanir á nokkrum kílóum af kjöti muni bjarga fjárhag heimila landsins. Raunveruleikinn er hins vegar sá að SVÞ vantaði blóraböggul til að leiða athygli viðskipavina verslunarinnar frá umræðu um hrikalegar offjárfestingar í verslun í landinu. Hún var í september 2011 búin að fá 94 milljarða króna afskrifaða frá efnahagshruninu 2008. Síðan hafa trúlega fáeinar krónur bæst í þá hít. Offjárfestingar eru hættulegar í hvaða grein sem er og stefna viðkomandi fyrirtækjum í þrot nema því aðeins að hægt sé að framvísa reikningum á viðskiptavinina í formi hærra verðs á vörum og þjónustu. Krafan um lækkun tolla hefur holan hljóm hjá forsvarsmönnum slíkra fyrirtækja, því reynsla almennings er að lækkun innflutningsverðs skilar sér ekki til neytenda. Gott dæmi um það er styrking gengis íslensku krónunnar frá áramótum, sem hefur þýtt umtalsverða lækkun á innkaupsverði. Samt hafa neytendur á Íslandi mátt búa við hækkanir á vöruverði. Það er því afar langsótt að kenna vondum bændum um flestar ófarir í verslun og þjónustu. Því hafa Samtök verslunar og þjónustu veðjað á rangan hest þegar þau ákváðu að gera íslenska bændur að sínum helsta óvini. Ætli þar sannist ekki máltækið um að sjaldan launi kálfurinn ofeldið. Verslunin fær nefnilega drjúgan hluta tekna sinna af sölu á íslenskum landbúnaðarafurðum. Þetta er enn dapurlegra fyrir SVÞ í ljósi nýrrar könnunar Capacent um að 92,3% þjóðarinnar telja að hér á landi eigi að stunda landbúnað og 75% vilja að við séum ekki öðrum þjóðum háð um landbúnaðarafurðir. Þá vill helmingur þjóðarinnar áframhaldandi tollvernd. Væri ekki ráð að hætta gasprinu, grafa stríðsaxirnar og setjast niður til að finna skynsamlegar lausnir? Við erum jú öll á sömu skútunni. /HKr. Út eru komnar í Reykjavík umfangsmiklar tillögur samráðsvettvangs fráfarandi forsætisráðherra um aukna hagsæld á Íslandi. Samráðsvettvanginn skipa fulltrúar stjórnmálaflokka, nokkurra stærri fyrirtækja landsins og ýmsir fleiri, nánast alfarið af suðvesturhorni landsins. Tillögurnar eru ekki endanlegar heldur vinnuskjöl unnin af verkefnisstjórn – með takmörkuðu samráði, þrátt fyrir nafnið. Birting þessara tillagna kemur enn fremur á hárréttum tíma þegar stjórnarmyndunarviðræður eiga sér stað og er án efa ætlað að hafa áhrif á þær. Markmið tillagnanna eru í sjálfu sér jákvæð og framtakið ágætt. Reyna á að auka hagvöxt og framleiðni, lækka skuldir ríkisins og einfalda stjórnsýsluna. Það veitir ekki af. „Samráð gegn landsbyggðinni“ Stefán Ólafsson prófessor fjallar um tillögurnar á eyjan.is í grein sem hann nefnir „Samráð gegn landsbyggðinni“ og segir þar meðal annars: „Markmið samráðsins er að auka hagvöxt og hugsunin er svolítið í anda gamalla hugmynda iðnríkisins um fjöldaframleiðslu, með megináherslu á aukna stærðarhagkvæmni – fækkun og stækkun eininga. Sú leið á stundum rétt á sér, en ekki alltaf. Þarna liggja helstu annmarkar verksins eins og það stendur núna – óklárað að vísu. Þetta eru ekki tillögur um að bæta samfélagið eða lífsgæði almennings. Þetta eru fremur einhliða tillögur um aukningu hagvaxtar, með hagræðingu í opinbera geiranum og auðveldara rekstrarumhverfi í einkageiranum, m.a. með minni ríkisafskiptum í anda markaðshyggjumanna. Það er of þröngt sjónarhorn.“ Taka má undir þessi orð Stefáns. Tillögurnar byggja einmitt alfarið á klassískri hagfræði sem gengur út á það að markaðurinn viti alltaf best. Markaðurinn veit ýmislegt, en fjarri því allt. Ef út í það er farið er einfalt mál að reikna út með sömu aðferðum að Ísland í heild sé óhagkvæm rekstrareining. Við erum fátt fólk í stóru landi. Ef við flyttum t.d. öll til Tókýó yrði það aðeins til að fjölga íbúum þar um 0,8%. Það væri sennilega hagfræðilega „rétt“ en samt dettur engum í hug að leggja það til fyrir alvöru. Þess vegna þurfum við víðara sjónarhorn þegar við erum að móta stefnu til framtíðar. Tillögur um uppstokkun rekstrarumhverfis landbúnaðarins án samráðs við bændur Meðal efnis í tillögunum eru róttækar tillögur um uppstokkun rekstrarumhverfis landbúnaðarins. Þær eru unnar án nokkurs samráðs við bændur og bera þess merki. Hugtakanotkun er röng og ónákvæm; fæðuöryggi er í tillögunum kallað matvælaöryggi en um matvælaöryggi er ekkert fjallað. Tillöguhöfundar rugla þarna saman tveimur mikilvægum hugtökum. Sjálfsþurftarbúskapur, sem í huga flestra er neikvætt hugtak tengt fátækt, er lagt út sem fæðuöryggi, en fyrrnefnda orðið hentar tillöguhöfundum betur til að varpa neikvæðu ljósi á landbúnaðinn. Sjálfbærni er ekki nefnd í samhenginu. Staðhæft er að verksmiðjubú séu hérlendis í hvítakjötsgeiranum. Þessi hugtakanotkun er sérkennileg því að ef íslensku búin eru verksmiðjubú skortir hugtak fyrir það rekstrarform sem viðgengst á erlendri grund. Stærsta svínabú í Bandaríkjunum er til dæmis með 200 sinnum fleiri gyltur en allt Ísland. Það fyrirkomulag hefur hingað til verið það sem kallað er verksmiðjubú. Það er líka sérkennilegt að leggja til, með óhóflegri hagræðingarkröfu vegna lækkunar eða niðurfellingar tolla, að stuðla að því að önnur búvöruframleiðsla þróist í átt að verksmiðjubúrekstri. Lögð er til lækkun tolla sem yrði með þeim hætti að hún riði að fullu nautakjötsframleiðslu, ostaframleiðslu, mjólkurduftsframleiðslu, svínakjötsframleiðslu og kjúklingaframleiðslu svo dæmi séu tekin. Ekki er gerð nein tilraun til samanburðar á gæðum þeirrar vöru sem hér innanlands er framleidd eða hinni sem flæðir inn á heimsmarkað hverju sinni. Dýravelferð er þannig lögð að jöfnu við illa meðferð, kjöt sem framleitt er með lágmarks notkun dýralyfja lagt að jöfnu við kjöt af dýrum sem fóðruð eru með sýklalyfjablönduðu fóðri. Engin tilraun er gerð til að meta umhverfisáhrif af stórauknum innflutningi. Vinnuumhverfi það sem m.a. ASÍ berst hér fyrir og þykir sjálfsagt er einskis metið. Ekki er hugsað um hver áhrif tillagnanna yrðu á byggð í landinu, ferðaþjónustu, úrvinnsluiðnað og aðrar greinar. Það er svo sannarlega þröngt sjónarhorn eins og Stefán Ólafsson orðar það. Samtal, ekki eintal Bændur eru alltaf tilbúnir að ræða um landbúnaðinn til lengri eða skemmri tíma. Við fögnum þessum gögnum sem vinnuskjali inn í þá umræðu. Nauðsynlegt er hins vegar að hafa samráð við atvinnugreinina og að tillögur séu þá ræddar hver fyrir sig og um leið hagsmunir þjóðarinnar í víðu samhengi og til lengri tíma. Hér er m.a. átt við að tekið sé tillit til hluta eins og fæðuöryggis, sjálfbærni og matvælaöryggis. Við leggjum til að reynt verði að hemja skaðleg áhrif þeirrar valdbeitingar sem nú á sér stað í verslun þar sem hagkvæmni stærðar verslunar er náð fram með viðskiptalegu ofbeldi gagnvart þeim sem neðar standa í virðiskeðjunni. Við teljum til dæmis að reynsla t.d. innan ESB ætti að geta orðið Íslendingum víti til varnaðar í þeim efnum. Íslenskir bændur eru reiðbúnir að ræða hvað sem er – en þá viljum við samtal, ekki eintal. /SSS Kallað á lausnir Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri: Forláta Unimog kominn í dagvistun Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri er nú komið með í dagvistun forláta þýskan Unimog sem Erlingur Ólafsson garðyrkjubóndi í Reykjadal hefur lánað safninu. Verður hann hafður þar gestum safnsins til sýnis. Erlingur hefur gert þennan Unimog upp af mikilli list, en hann mun vera af árgerð 1951 (Model 2010). Þetta farartæki fékk hann frá Suðureyri við Súgandafjörð, þar sem bíllinn hafði þjónað sem slökkvibíll í fjölda ára. Unimog var upphaflega hannaður sem landbúnaðartæki og eins konar „jeppa-dráttarvél“. „Múkkinn“ eða „Mugginn“ eins og hann var oft kallaður hér á landi var formlega kynntur Íslendingum á bílasýningu Ræsis hf. í Reykjavík sumarið 1954. Næstu tvö árin var tugur Múkka fluttur inn, líklega flestir til búverka, því með þeim komu sláttuvélar, plógar og e.t.v. fleiri verkfæri. Aflúttök eru að framan og aftan og undir kvið mátti koma fyrir sláttuvél, sem gekk út til vinstri. Eins og íslenskum tolla yfirvöldum var lagið stóðu þau fast á því að dráttarvél gæti ekki ekið á meira en 20-30 km hraða, en Múkkinn náði a.m.k. 40 km/klst., og því bæri að tolla hann sem bíl en ekki dráttarvél. Út af þessu spunnust talsverðar deilur. Tíðindamaður Bændablaðsins skrapp á Hvanneyri á miðviku- daginn, en þá var Bjarni Guðmundsson safnstjóri að bjástra við að koma farartækinu í hús ásamt hagleiksmanninum Jóhannesi Erlendssyni. Til að fylgjast með þeim köppum var þar einnig kominn Kristján Andrésson, sem var upphafsmaður að merkilegu Samgöngusafninu í Brákey í Borgarnesi sem opnað var í fyrra. Jóhannes settist upp í vagninn og eftir smá stund hrökk gamli dísilmótorinn í gang með til heyrandi glamri. Hnikaði Jóhannes svo Múkkanum af mikilli lagni á milli dráttarvéla og tóla sem fyrir voru á safninu og var gripnum stillt upp við forláta CJ-2A Willy´s- jeppa með skráningarnúmerinu Í-19. Bjarni segist gjarnan vilja heyra frá mönnum sem reynslu hafa af notkun Unimog til búverka hér á landi eða hafa heyrt af honum sögur. /HKr. Unimog Erlings Ólafssonar er sannarlega glæsilegur. Myndir / HKr. Múkkinn kominn á sinn stað. Hér standa þeir hróðugir tækjaáhuga mennirnir Jóhannes Ellertsson og Bjarni Guðmundsson.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.