Bændablaðið - 23.05.2013, Blaðsíða 30

Bændablaðið - 23.05.2013, Blaðsíða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. maí 2013 Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur Algengast er að plöntur fjölgi sér með kynfjölgun í náttúrunni en það er þó ekki einhlítt því stundum senda þær frá sér rótaskot eða greinar brotna af og skjóta rótum með þeim afleiðingum að til verður ný planta. Kynfjölgun Kynæxlun plantna getur átt sér stað með ýmsu móti, til dæmis sjálfsfrjóvgun, en þá fellur frjó úr fræfli í frævu á sama einstaklingi. Víxlfrjóvgun á sér stað þegar frjó úr fræfli berst í frævu á öðrum einstaklingi. Víxlfrjóvgun gerist einkum með þrennu móti, vindfrjóvgun, vatnsfrjóvgun eða skordýrafrjóvgun. Eftir frjóvgun myndast fræið í aldininu en það getur verið hýðisaldin, hnot, ber eða steinaldin. Hvað eru fræ? Talið er að af þeim um 300.000 núlifandi tegundum sem teljast til plönturíkisins myndi um 250.000 tegundir fræ. Fræ þeirra allra eru í stórum dráttum eins að innri gerð en mjög breytileg að stærð og lögun. Fræ er frjóvgað og ummyndað egg með þroskuðu kími sem síðar verður að nýrri plöntu. Í kíminu eru þeir eiginleikar sem ganga í erfðir. Þegar plöntur hafa aldur og þroska til bera þær blóm og mynda fræ. Sá aldur er mjög breytilegur eftir tegundum. Fræ skiptist í fræskurn, kím og fræhvítu. Skurn umlykur hvítuna og losnar frá þegar fræið spírar. Í fræhvítunni er plöntufóstrið sem er kím og forðanæring handa því. Í kíminu vottar fyrir fyrstu blöðunum og vísi að rót og stöngli. Kím sumra tegunda eins og grasa, hafa aðeins eitt kímblað og kallast einkímblöðungar. Kím annarra tegunda hafa tvö kímblöð og kallast tvíkímblöðungar. Forðanæringin sem kímið notar þegar það fer að vaxa er ýmist geymd í kímblöðunum sjálfum, sem þá eru stór og þrútin af næringarforða, til dæmis hjá ertum, eða geymd sem fræhvíta, utan við kímið. Í korni er til dæmis mikil fræhvíta. Frædreifing Fræ eru mismunandi, bæði að lögun og stærð. Sumar plöntur eins og ösp mynda fræ sem hafa svifhár en garðahlynur mynda fræ sem hafa vængi og svífa. Fræ gulróta og nellikur eru með krókum og enn aðrar tegundir mynda fræ án sérstakra einkenna. Fræ blágresis er svo smátt að aðeins er hægt að greina í smásjá en fræ kókospálma getur verið 20 kíló að þyngd og er á stærð við körfubolta. Fræ berast með ýmsu móti. Lítil fræ berast oft með vindi og eru birkifræ dæmi um það. Önnur eins og fræ hvannar sem oft vex við árbakka, berast með vatni. Enn önnur berast með dýrum. Þá festast fræin í feldinn eða fara gegnum meltingarveginn og eru fræ reyniviðar dæmi um það. Fræ sem berast óskemmd í gegnum meltingarveg dýra eru oftast hörð enda þurfa þau að þola sterkar meltingarsýrur. Stundum þeyta plöntur, til dæmis hrafnaklukka, fræjum langar leiðir með því að spenna aldinið og „sleppa“ síðan fræjunum skyndilega. Einnig er þekkt að fræ spíri í axi og dreifir þá móðurplantan litlum plöntum á haustin í stað fræja. Í seinni tíð hefur maðurinn orðið gríðarlega afkastamikill í dreifingu fræja með því að safna þeim skipulega og sá þeim síðar og rækta af þeim plöntur. Maðurinn hefur flutt plöntur heimshorna á milli og alið þær langt utan náttúrulegra heimkynna. Fræ geta einnig borist með ýmsum varningi milli landa og ekki er óalgengt að fólk stingi niður ávaxtakjörnum og fái upp plöntur. Söfnun og meðhöndlun fræs Auðveldasta aðferðin til að verða sér úti um fræ er að kaupa það í blómabúð en þar má yfirleitt fá mikið úrval af góðu fræi. Íslenskar trjátegundir sem bera fræ reglulega eru birki og reynir. Fjöldi innfluttar trjátegunda hafa borið þroskað fræ hér á landi og margar þeirra sáð sér út í íslenska náttúru. Flest tré þroska fræ á haustin og best er að safna því eins fljótt og hægt er eftir að það hefur náð þroska. Annars er hætt við að það fjúki burt eða að fuglar éti það. Best er að safna könglum, reklum og berjum í þurru veðri og setja það í striga- eða bréfpoka. Ef notaðir eru plastpokar verður að tæma þá eins fljótt og hægt er til að koma í veg fyrir að fræið mygli. Rétt meðhöndlun fræs eftir tínslu er ekki síður mikilvæg en að valið sé fræ af góðum plöntum. Að söfnun lokinni verður að þurrka fræið. Auðveldast er að breiða það á pappír á gólf eða borð, við 20 til 25°C hita. Geymsla á fræi Oft er nauðsynlegt að geyma fræið yfir veturinn og sá því að vori. Yfirleitt nægir að geyma það á köldum og þurrum stað en best er að geyma það í kæli við 0 til 4°C eða í vægu frosti. Fræið þarf að vera í þurrum og loftþéttum umbúðum til dæmis glerkrukku. Í góðri geymslu getur fræ flestra tegunda haldið eiginleikum sínum í nokkur ár. Kynlaus fjölgun Fjölgun plantna getur átt sér stað án sáningar. Þá er um að ræða kynlausa fjölgun og gerist hún án þess að frjóvgun komi til. Kynlaus fjölgun í náttúrunni getur meðal annars gerst með greinum sem skjóta rótum og rótarskotum. Sú aðferð að rækta plöntur með því að búta þær niður, eða taka af þeim aðra hluta en fræ, nefnist vaxtarræktun og er hún algengasta aðferðin við fjölgun margra tegunda eins alaskaösp og víði. Þar sem erfðaeiginleikar eru þeir sömu og hjá móðurplöntunni er í rauninni sífellt ræktuð sama plantan. Henni er bara skipt í marga hluta. Þessi aðferð getur reynst nauðsynleg við fjölgun tegunda sem ekki mynda fræ hér á landi. Plöntuhlutinn sem notaður er nefnist stiklingur og má fá hann úr rót, grein eða blaði. Stiklingar sem komnir eru með rætur og blöð nefnast græðlingar. Talað er um þrenns konar stiklinga eftir því hvenær ársins þeir eru teknir. Vetrarstiklingar eru teknir meðan plantan er í dvala, eftir að vexti lýkur að hausti eða áður en vöxtur hefst aftur að vori. Sumarstiklingar eru teknir á sumrin meðan plantan er í fullum vexti og vorstiklingar eru teknir af jurtkenndum greinum í fullum vexti. Vetrarstiklingar Eins og áður sagði má safna vetrarstiklingum eftir að vexti lýkur á haustin og fram á vor, eða meðan plantan er í dvala. Þó er talið betra að safna efninu heldur fyrr en seinna til að koma í veg fyrir kalskemmdir. Plöntuhlutana ætti að klippa niður í um 15 sentímetra langa stiklinga og ættu þeir helst ekki að vera grennri en 0,5 sentímetra. Meiri líkur eru á að sverir græðlingar ræti sig en grannir. Þegar efnið er klippt niður skal reynt að gera það um 1 sentímetra frá efsta brumi. Þegar búið er að klippa stiklingana niður eru þeir búntaðir saman 10 til15 þannig að þeir snúi allir eins og teygja sett utan um. Síðan er þeim komið í geymslu. Gott og einfalt ráð til að geyma stiklinga er að grafa þá í sand eða snjóskafl. Geymsla Mikilvægt er að halda öndun stiklinganna í lágmarki til þess að forðanæring þeirra rýrni sem minnst þar til þeir eru settir í mold. Æskilegt hitastig við geymslu er 0 til 4°C. Hvernig sem geymslu stikling anna er háttað verður að gæta þess að þeir hvorki fúni né ofþorni. Ef hætta er talin á að stiklingar hafi ofþornað en séu að öðru leyti óskemmdir má leggja þá í vatn í einn til tvo sólarhringa áður en þeim er stungið út. Sumargræðlingar Einföld þumalfingursregla segir að taka eigi sumargræðlinga þegar nývöxturinn er orðinn það stífur að hann bogni ekki án átaks en ekki svo trénaður að hann brotni. Best er því að taka sumargræðlinga þegar lengdarvexti ársprotans er um það bil að ljúka. Auðvelt er að fjölga flestum skraut- runnum með sumar græðlingum en mismunandi er milli tegunda hvenær þeir hætta að vaxa á sumrinu. Taka skal græðlinga af tegundum sem ljúka vexti fyrri part sumars, til dæmis af sýrenu, kvistum og toppum uppúr miðjum júlí. Græðlinga af tegundum sem vaxa lengur, til dæmis runnamuru, er hægt að taka seinna og jafnvel fram á haust. Eins og allar plöntur sem ræktaðar eru af græðlingum eru plöntur af sumargræðlingum erfðafræðilega eins og móðurplantan og því mikilvægt að velja eingöngu hraustar og fallegar móðurplöntur. Sumargræðlingar ræta sig yfirleitt á 4 til 6 vikum. Mega ekki þorna Sumargræðlingar mega ekki þorna og því mikilvægt að setja þá strax í vatn, plastpoka eða blautan pappír eftir að þeir eru klipptir af móðurplöntunni og halda þeim rökum þar til þeim er stungið niður. Áður en græðlingunum er stungið niður þarf að klippa þá, bæði ofan og neðan við sitt hvort blaðparið, og hafa þá 8 til 15 sentímetra langa. Neðra blaðparið er síðan fjarlægt og það efra klippt í tvennt séu blöðin stór til að draga úr útgufun. Hafi greinar sem notaðar eru í græðlingaefni myndað blómvísi fyrir næsta ár skal klippa hann burt. Einnig er æskilegt að fjarlægja þyrna af þeim hluta rósa- eða stikkilsberjagræðlinga sem á að ræta sig. Gott er að stinga blaðlausa enda græðlingsins í rótarhvata til að örva rætingu, áður en honum er stungið niður. Best er að stinga græðlingum í hreinan vikur eða blöndu af vikri og sáðmold. Hæfileg blanda er 60% vikur og 40% sáðmold. Blandan hefur þann kost umfram gróðurmold að hún inniheldur lítið af örverum og því minni hætta er á að græðlingarnir rotni. Vatn rennur auðveldlega í gegnum blönduna, loftrými í henni er mikið og það flýtir fyrir rætingunni. Til að auðvelda stunguna er þægilegt að hafa lítinn staut, til dæmis austurlenskan matprjón eða blýant, við höndina og nota hann til að búa til holu fyrir græðlinginn. Græðlingum skal stungið að minnsta kosti að 2/3 hluta niður svo að þeir ræti sig vel. Sumir telja betra að láta græðlingana halla um 60 til 70 gráður þegar þeim er stungið niður, en það er ekki nauðsynlegt. Hæfilegt bil á milli sumargræðlinga er 3 til 7 sentímetrar eftir grófleika þeirra. Eftir að græðlingunum hefur verið stungið niður skal þjappa lítillega að þeim til að koma í veg fyrir holrými og vökva síðan vel. Svo er gott að breiða yfir ílátið með hvítu eða glæru plasti eða akrýldúk til að halda raka á græðlingunum. Jafnframt verður að gæta þess að ekki verði of rakt á græðlingunum því þá geta þeir rotnað. Birta en ekki bein sól Ílátinu með græðlingunum skal komið fyrir við 18 til 22°C, til dæmis í norðurglugga, og í góðri birtu en ekki beinni sól. Gæta þarf þess að halda vikrinum eða vikur- og sáðmoldarblöndunni rakri með því að vökva reglulega og gott er að úða yfir græðlingana annað slagið. Öll blöð sem kunna að detta af á að fjarlægja við fyrsta tækifæri svo að þau rotni ekki í ílátinu. Misjafnt er eftir tegundum hversu vel þær ræta sig. Birkikvistur og blátoppur eru fljótir til, ræta sig vel og óþarfi að nota á þá rótarhvata. Í öðrum tilfellum er nauðsynlegt að stinga græðlingunum í rótarhvata til að rætingin heppnist. Í vissum tilfellum er nóg að rispa börkinn lítillega á þeim enda græðlingsins sem stungið er niður til að örva rætinguna. Sveiggræðsla Með sveiggræðslu er átt við að grein sé sveigð niður í beði og hluti hennar hulinn jarðvegi. Þessi fjölgunaraðferð hentar til dæmis vel fyrir rifs, sólber og Bjarkeyjarkvist. Til að greinin haldist niðri er gott að festa hana með hæl eða að leggja stein yfir hana. Á einu sumri eða tveimur myndar sá hluti greinarinnar, sem hulinn er jarðvegi, rætur og eftir það má klippa greinina frá móðurplöntunni, stinga hana upp og flytja annað. Garðyrkja & ræktun Um fjölgun plantna Fræ af hlyni. Vetrargræðlingur af víði.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.