Bændablaðið - 23.05.2013, Blaðsíða 43

Bændablaðið - 23.05.2013, Blaðsíða 43
43Bændablaðið | Fimmtudagur 23. maí 2013 Að gefnu tilefni: Almenningar eru afréttareign Almenningar, afréttarsvæði norður af Þórsmörk, er í afréttareign nokkurra jarða undir V-Eyjafjöllum. Árið 1990 gerðu afréttareigendur samning við Landgræðslu ríkisins, til 10 ára, um friðun og uppgræðslu. Nokkru eftir gerð samningsins var hafið öflugt uppgræðslustarf að frumkvæði afréttareigenda og tilstyrk Landgræðslunnar, en einnig með talsverðum tilkostnaði og vinnuframlagi úr eigin ranni. Í augum afréttareigenda var þessi uppgræðsla með það að markmiði að hægt yrði, að samningstíma loknum, að nytja landið á ný. 23 ár eru liðin síðan samningurinn var gerður, 13 ár eru síðan hann féll úr gildi. Afréttareigendur hafa á þessum tíma stundað uppgræðslu af kappi, með ágætum árangri, hlutur þeirra í kostnaði hefur aukist jafnt og þétt og sjá þeir ekki eftir þeim fjármunum, enda með lokatakmarkið í huga, að koma að nýtingu svæðisins á ný. Á þessu tímabili var háð barátta fyrir dómstólum að verja eignarrétt á svæðinu og tókst eigendum það ekki nema að litlu leyti, þ.e. einungis var viðurkenndur eignarréttur þeirra sem afréttareigenda, þrátt fyrir að um landnámsjörð væri að ræða. Síðast en ekki síst breyttist eigendahópurinn á þessu tímabili, ný kynslóð hefur víða tekið við jörðum og réttindum, margir þeirra þekkja ekki til réttinda sinna eða landsvæðið sjálft. Hagsmunir afréttareigenda eru því ekki þeir einir að beita fé, heldur einnig að viðhalda sínum eignarréttarlegu hagsmunum á svæðinu og síðast en ekki síst að viðhalda menningarlegum verð mætum sem felast í að viðhalda þekkingu unga fólksins á svæðinu, þekkingu á framkvæmd smalana o.fl. Barátta að fá að nýta eign sína Félag afréttareigenda á Almenningum hefur nú á fimmta ár háð baráttu fyrir að geta að nýju nýtt réttindi sín á Almenningum og hefur í þeirri baráttu lenti í allskyns hremmingum, aðallega af hálfu hins opinbera, verið kallað öllum illum nöfnum, hótað og orðið fyrir skömmum. Hvers lags stjórnsýsla er það að opinberar stofnanir fari mikinn í fjölmiðlum og vefsíðum og reyni að búa til almenningsálit með stóryrðum? Væri ekki réttara að stofnanirnar treystu lögum sem um þá sjálfa gilda og leikreglum stjórnsýsluréttarins? Í mars síðastliðnum var gefin út ítala af þar til bærri nefnd. Eru afréttareigendur sáttir, telja úrskurð og röksemdafærslu meirihluta nefndarinnar réttan og hyggjast nýta réttindi sín í samræmi við niðurstöðuna. Vönduð vinnubrögð hafi verið viðhöfð og litið til fleiri gagna og víðtækari en einungis skýrslna merktra „Arnalds“. Á málflutningi æsingamanna, þ.m.t. Landgræðslu ríkisins, virðist sem enginn kunni neitt til verka á þessu sviði nema Ólafur Arnalds. Hvað með fróðlegar og áhugaverðar kenningar annarra fræðimanna um að beit og uppgræðsla geti farið saman? Þeir fræðingar verða líklega ekki ráðnir til vinnu í Gunnarsholti. Skýrsla Ólafs Arnalds er líkari gróðurfars- og ástandsskýrslu en beitarþolsskýrslu, t.d. er hvergi uppskerumælt, en það gerir Guðni Þorvaldsson ítölunefndarformaður í rannsókn/vettvangsferð sinni. Þá má einnig benda á að skýrsla Ólafs Arnalds er gerð einu ári eftir gos og ljóst er að margt hefur breyst til batnaðar síðan. Afréttareigendur eru hins vegar ósáttir við að málið þyrfti að fara í ferli ítölugerðar enda hefur ítala lítið verið notuð hingað til nema um sé að ræða nauðbitna og illa farna afrétti, sem Almenningar eru ekki eftir 23 ára friðun og uppgræðslu. Ekki var fyrr búið að gefa ítölu út en línur inn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið urðu rauðglóandi vegna beiðna um yfirmat ítölu. Ekki voru það hagsmunaaðilar, afréttareigendur, sem báðu um yfirmatið, nei, það átti að halda áfram. Fremst í flokki beiðenda fóru systurstofnanirnar Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins og það þrátt fyrir að fulltrúi Landgræðslu ríkisins hafi átt sæti í ítölunefndinni. Fáheyrt er að stjórnvald kæri annað stjórnvald til æðra stjórnsýslustigs og sú framkvæmd reyndar ekki viðurkennd af Hæstarétti Íslands sbr. dóm 20/2005. Aðrir minni spámenn báðu einnig um yfirmat en virðast ekki átta sig á að þeir eiga engra hagsmuna að gæta í máli þessu. Þeir einir hagsmunir, sem aðrir en afréttareigendur geta átt, eru að eiga um svæðið frjálsa för. Það hafa afréttareigendur sannarlega ekki ætlað að banna, en um svæðið liggur ein fjölfarnasta gönguleið landsins, svokallaður „Laugavegur“. Afréttareigendur hafa ekki amast við för fólks um svæðið, þótt það skilji eftir sig ýmsan úrgang á víðavangi og troði niður gróður. Í gegnum tíðina hafa félagasamtök og fyrirtæki sem atvinnu hafa af gönguferðum á svæðinu haldið að þau njóti þar einungis réttinda en beri engar skyldur. Síðustu fréttir herma þó að einhver viðhorfsbreyting sé í uppsiglingu hjá sumum þessara fyrirtækja og er það vel. Afréttareigendur hafa einnig haldið við vegslóða inn á svæðið og á svæðinu, bæði í þeim tilgangi að komast með tæki og áburð til uppgræðslu, sem og í öryggisskyni ef slys verða. Þá hyggjast afréttar- eigendur hafa frumkvæði að því að setja upp skilti á svæðinu hvar ferðamönnum eru kynnt landsvæðið og umgengnisreglur. Landgræðsla fyrir hvern? Landgræðsla ríkisins hefur farið mestan gegn afréttareigendum og hefur það á stundum verið með ósköpum, fúkyrði og hótunum, aðallega í fjölmiðlum, m.a. hótað að stöðvaðar verði greiðslur úr landbótasjóði, málefnaleg umræða það. Svo virðist sem ráðamenn stofnunarinnar hafi ekki heyrt minnst á stjórnsýslulög, hvað þá jafnræðis- eða meðalhófsreglu. Fullyrða undirrituð að þessar meginreglur stjórnsýsluréttarins hafi verið þverbrotnar á afréttareigendum á Almenningum. Landgræðsla ríkisins hefur látið óátalið að nágrannaafréttir séu beittir, afréttir sem jafnvel eru verr grónir en Almenningar. Landgræðslan hefur viljað banna beit á Almenningum vegna nálægðar afréttarins við eldfjöll ! Á gosbeltinu sem liggur þvert í gegnum landið frá norðaustri til suðvesturs er margir stærstu afréttir landsins t.d. sunnanlands Síðumanna-, Holtamanna- Álftavers- og Skaftártungnaafréttir. Mestur hluti gosefna úr Eyjafjallajökli gekk suður af jöklinum og þar með yfir heimalönd og heiðar afréttareigenda. Ekki hefur Landgræðsla ríkisins gert athugsemdir við beit þar eða séð ástæðu til að fylgjast með ástandi afrétta þar. Afréttareigendur áttu í ágætu samstarfi við Landgræðsluna í upphafi, en úlfur virðist hafa verið í sauðargæru og markmið Landgræðslunnar ekki verið það sama og afréttareigenda, þ.e. að græða upp með beit í huga síðar. Skyldi það hafa vakað fyrir Landgræðslunni að ná undir sig þessu landi af afréttareigendum? Það virðist kæta Landgræðslu ríkisins ef stofnunin nær undir sig sem flestum jörðum eða jarðabútum, til hvers vita menn ekki. Skógrækt ríkisins – kemur henni málið við? Skógrækt ríkisins hefur talið sig hafa eitthvað um það að segja hvort fé verið rekið á Almenninga og staðfesti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið það með því að samþykkja beiðni stofnunarinnar um yfirmat ítölu og taldi þar með að stofnunin hefði hagsmuna að gæta. Afréttareigendur hafna þessu algerlega og telja sig ekki eiga að gjalda þess með neinum hætti að vera nágrannar Þórsmerkur. Landsvæðið Almenningar er sérstakt, afmarkað landsvæði með skilgreind landamörk, sbr. landamerkjabréf frá maí 1892, sem fært er í landamerkjabók sýslumannsins á Hvolsvelli og hafa landamörkin, svo vitað sé, aldrei verið vefengd. Í bréfinu er Þröngá glögglega greind sem norðurmörk Þórsmerkur þ.e. hvar skilur á milli Þórsmerkur og Almenninga. Rök ráðuneytisins fyrir yfirmati voru þau að ágangur sauðfjár á Þórsmörk gæti orðið mikill en lítur algerlega framhjá hátt í aldagamalli samningsbundinni skyldu Skógræktarinnar að girða Þórsmörkina af. Skógrækt ríkisins er með þessum hætti hyglað fyrir samningsbrot og er miður að æðstu stjórnvöld skuli verða vís að því. Forsenda fyrir veru Skógræktar ríkisins í Þórsmörk er samningur frá janúar 1920, hvar landeigendur í Fljótshlíð og Oddakirkja, láta af hendi beitarrétt á Þórsmörk gegn því að hið opinbera girði svæðið af, Skógrækt ríkisins vissi því nákvæmlega að hverju gengið var að í upphafi og hverjar skyldurnar voru. Skógræktin girti af myndarskap í upphafi og hélt girðingunni við í 60 ár eða til ársins 1990 þegar samdist um á milli afréttareigenda og Landgræðslunnar að friða Almenninga til næstu 10 ára. Þrátt fyrir að Skógrækt ríkisins ætti enga aðild að því samkomulagi þá var girðingin rifin niður, án þess að hafa nokkra fullvissu fyrir því þá að Almenningar yrðu ekki nýttir frekar til beitar í framtíðinni. Ákvörðunin um girðingarniðurrifið var því tekin algerlega einhliða af Skógræktinni og verður stofnunin sjálf að bera hallann af þeirri ákvörðun sinni. Engin tímatakmörk voru sett af hálfu Fljótshlíðinga og Oddaverja að greiða endurgjald beitarréttarins, girðinguna, og er greiðsluskylda þessi því enn við lýði og ef Skógrækt ríkisins ætlar að skorast undan henni, þá verður ekki annað séð en að skila verði Þórsmörkinni aftur til þeirra sem eftirlétu beitarréttinn. Sá er ekki greiðir leigugjald á það á hættu að vera borin út af eign. Hvers konar gróður á að vaxa á Almenningum? Í umfjöllun síðustu missera hefur, eins og áður hefur komið fram, Skógrækt ríkisins beitt sér í umræðu um nýtingu Almenninga og talið að þar ætti allt að vera skógi/kjarri vaxið. Afréttareigendum kemur þessi umræða spánskt fyrir sjónir því að Skógrækt ríkisins virðist halda að hún geti ákveðið hvað á að vaxa á Almenningum og virðist ekki átta sig á það eru afréttareigendur sem eiga að ákveða hvaða gróður á að vaxa þar, þeirra er nýtingarrétturinn. Skógræktin kemur nú fram með þá málsástæðu að á Almenningum séu skógarleifar. Það breytir engu um að aldagamall eignar- og nýtingarréttur eigenda gengur framar meintri, einhliða verndarskyldu Skógræktar ríkisins. Afréttareigendur hyggjast heldur ekki standa að skógareyðingu og eru ekki á móti skógrækt sem gæti nýst, ef það er gert í samráði við eða af afréttareigendum. Skógrækt ríkisins hefur aldrei með formlegum eða óformlegum hætti lýst því yfir, við afréttareigendur eða aðra svo vitað sé, að skógarleifar séu á svæðinu. Enn og aftur er komið að jafnræði því víða á landinu er skógur eða kjarr, sem telja mætti skógarleifar, en þar er beitt, t.d. við Heklurætur, neðanverðan Jökuldal, Hrafnkelsdal, Skógarströnd og víðar. Skógrækt ríkisins hefur aldrei sáð, plantað eða staðið að skógrækt með einum eða neinum hætti á Almenningum, hvað þá hlúð að meintum skógarleifum, hvorki að sjálfsdáðum eða í samvinnu við afréttareigendur. Landgræðsla án Landgræðslu? Afréttareigendur á Almenningum geta ekki mælt með samstarfi við Landgræðslu ríkisins og velta fyrir sér hvort ekki sé betra að stunda landgræðslu án Landgræðslunnar. Í raun sjá þeir eftir að hafa gert áðurnefndan samning um friðun við Landgræðsluna árið 1990 og hefðu betur staðið að uppgræðslunni á eigin forsendum. Afréttareigendur á Almenningum eru „vörslumenn landsins“, eins og landgræðslustjóri talar fjálglega um á tyllidögum, þeir átta sig fyllilega á ástandi afréttarins og hyggjast nýta hann með hóflegum hætti og ætla ekki að láta ofstækis- og duttlungafulla embættismenn segja sér fyrir verkum framar. Stjórn Félags afréttareigenda á Almenningum Guðmundur Viðarsson, Skálakoti Guðmundur Guðmundsson, Núpi Anna Birna Þráinsdóttir, Varmahlíð. Úr Almenningum. Fremst á myndinni má sjá gróskumikið uppgræðslusvæði. Mynd / Guðni Þorvaldsson

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.