Bændablaðið - 18.07.2013, Blaðsíða 30

Bændablaðið - 18.07.2013, Blaðsíða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 18. júlí 2013 Geitur hafa alla tíð verið mikilvæg- ur búpeningur í Noregi og er talið að fyrstu geiturnar hafi komið til landsins fyrir um 6 þúsund árum frá suðurhluta Evrópu. Nýting þeirra hefur fyrst og fremst verið til mjólkurframleiðslu undanfarna áratugi og í dag eru í landinu um 35 þúsund geitur á um 400 búum og því að jafnaði um 90 geitur á hverju búi. Landsframleiðsla geitamjólkur nemur um 23 millj- ónum lítra og er mjólkin notuð í margskonar afurðir, þó fyrst og fremst til ostagerðar. Töluvert er auk þess selt beint frá býli enda mikil hefð fyrir heimavinnslu afurða í Noregi. Mörg ólík geitfjárkyn Allt fram til þarsíðustu aldamóta var einungis til eitt geitfjárkyn í Noregi, þ.e. hin norska mjólkurgeit. Eftir því sem ræktunin í suðurhluta Evrópu sótti fram var munurinn á mjólkurframleiðslu ólíkra kynja slíkur að bændurnir hófu að flytja inn betri geitur og hafa mjólkurframleiðslueiginleikar hinnar norsku geitar þannig verið bættir stórlega. Auk þess eru í landinu mörg önnur geitfjárkyn í dag, s.s. til ullar- og kjötframleiðslu. Mikil fækkun búa Þegar mest var, voru skráðar 360 þúsund geitur í Noregi en það var árið 1855. Síðan þá hefur fjöldi þeirra fallið jafnt og þétt, þó mest síðustu 50 árin og í dag eru í um 35 þúsund geitur í landinu. Á sama tíma hefur nytin aukist verulega enda mjólkurframleiðslan verið nokkuð óbreytt síðustu 45 árin þrátt fyrir stöðuga fækkun í norska geitastofn- inum. Fá um 250 krónur fyrir lítrann Það eru 332 bú með framleiðslurétt í landinu og er í gildi kvótakerfi. Kvótinn fyrir árið 2013 er 22,8 milljón lítrar þannig að meðalfram- leiðsla hvers bús er um 70 þúsund lítrar árlega. Þó eru einnig til mörg stór bú líkt og mæðgurnar Ann Vigdis Solli og Linda-Mari Solli Sørensen reka við Skogs-fjordvatn á eyjunni Ringvassøya norðan Þrándheims en bú þeirra var heimsótt í tengslum við ársfund NMSM sem haldinn var í júní síðastliðnum. Þær eru með 220 þúsund lítra geitamjólkurkvóta og eru með pláss fyrir 300 geitur í nýbyggðu 600 m² fjósi en dagsframleiðslan er allt að 2.500 lítrar. Fyrir hvern lítra fá fram- leiðendur 12-13 norskar krónur (um 250 íkr) og er þá opinber stuðningur innifalinn. Geitur þurfa mikið pláss Að sögn Lindu-Mari var mikill munur á geitum hennar eftir að þær komu í nýju aðstöðuna og eru þær nú miklu rólegri. Þá er öll aðstaða hreint til fyrirmyndar og aðbúnaður bæði fyrir kiðin og geiturnar einkar góður. Geitur eru í eðli sínu afar virkar og þurfa örvun svo þeirra náttúrulega atferli sé sem best mætt. Bændurnir hafa því oftast afar fjölbreyttar innréttingar hjá þeim, tröppur og palla auk þess sem oft á tíðum má finna margs konar leikföng í stíum geitanna, s.s. bolta, brúsa eða annað slíkt sem heldur þeim við efnið. Oft er hálmur notaður í stíur geitanna en í norðurhluta landsins er slíkt ekki í boði og þá algengast að vera með annað hvort strekkmetal mottur eða plastrimla í stíunum. Þó svo að mjólkurgeiturnar geri ekki verulega miklar kröfur til umhverfisins þá er þó eitt sem skiptir höfuðmáli í norskri mjólkurframleiðslu og það er góð loftræsting. Þar sem geiturnar framleiða mikla mjólk umsetja þær jafnframt mikið magn af fóðri og það kallar á öflug loftskipti svo ekki komi upp hósti og einhverjar lungnapestir. Bera snemma Huðnurnar bera framan af árinu, frá janúar og fram í apríl, og líkt og hér á landi fá þær 1-2 kið. Strax við burð eru kiðin tekin undan og sett á sjálfvirkar mjólkurfóstrur sem sjá um að skammta þeim mjólk eftir þörfum. Á þessu búi eru geitur sem eru af Alpin-kyni, sem er þekkt afurðakyn, og safna geiturnar afar litlum holdum. Það er því svo að hafurskiðin eru aflífuð við fæðingu, enda ekkert upp úr þeim að hafa að sögn Lindu-Mari. Mjólkar 12 geitur í einu! Á búinu er mjaltabás þar sem pláss er fyrir 24 geitur og eru 12 mjólkaðar í einu og svo eru tækin flutt yfir á hina hlið bássins. Um afar fullkomið DeLaval-mjaltakerfi er að ræða og sýna rauð ljós stöðu mjalta sem gerir allt eftirlit auðvelt. Oftast sjá tveir um að mjólka og reka geiturnar að þó svo að einn geti vel séð um þennan verkþátt, en þar sem geiturnar fá kjarnfóður í mjaltabásnum eru þær afar viljugar að koma til mjalta. Nokkuð misjafnt er eftir geitum hvað þær mjólka en á þessu búi er meðalnytin um 750 lítrar/geit og afurðahæstu geiturnar mjólka um 1.000 lítra á hverju mjaltaskeiði. Aðspurð um endingu geitanna sagði Linda-Mari að þær næðu oft 5-6 mjaltaskeiðum en auðvitað entust sumar skemur. Færibandagarði Þar sem greinarhöfundur er afar mikill áhugamaður um tæknilegar lausnir þá vakti tvennt verulega athygli á þessu búi. Annars vegar áðurnefnd fóstra fyrir kiðin og hins vegar sjálfvirka gjafakerfið fyrir rúlluheyið, kerfi sem vel mætti staðfæra og hafa í fjárhúsum. Um er að ræða rafdrifinn afrúllara sem er stjórnað af lítilli tölvu og setur hann í gang nokkrum sinnum yfir daginn. Á sama tíma keyrir gúmmí- færiband eftir garðanum og flytur heyið til geitanna. Þegar líður að næstu gjöf byrjar færibandi á því að keyra í öfuga átt og tekur því moðið í burtu áður en hið ferska gróffóður kemur á ný. Snorri Sigurðsson sns@vfl.dk Nautgriparæktarsviði Þekkingarsetri landbúnaðarins í Danmörku Utan úr heimi Norskar geitur framleiða 23 milljónir lítra af mjólk Líkt og við hefðbunda mjólkurframleiðslu með kúm er notaður sérstakur kjarnfóðurbás sem sér um að gefa geitunum fóður í litlu magni oft yfir daginn. Einn gjafabás hentar fyrir 75 geitur. Myndir / Snorri Sigurðsson Eins og hér sést lítur garðinn út fyrir að vera ósköp venjulegur en í botni hans var gummífæriband sem bæði sá um að gefa geitunum og að fjarlægja moðið. Það þarf ekki endilega að kaupa dýran búnað til þess að koma til móts við þarfir geita. Í norskri geitamjólkurframleiðslu er hefð fyrir því að ala kiðin með kúa- mjólk með fóstrum og skammta kiðin sér sjálf.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.