Fréttatíminn - 08.04.2011, Qupperneq 30
Fallvaltar framfarir í Afganistan
Þ
etta lag hef ég ekki
heyrt síðan á síðustu
öld,“ hugsaði ég. Úti á
götu heyrðist titillagið
úr Titanic hljóma í ein-
kennandi spiladósarútsetningu
íssalans. Íssöluvagnar virðast vera
eitt af nýjustu gróðafyrirtækjunum
hér í Kabúl. Maður sér þá alls staðar
– og heyrir. Ég get ekki að því gert
að mér finnst erfitt að hugsa um
Kabúl sem stríðssvæði þegar ég
sé fólk sleikja íspinna í makindum.
Höfuðborg Afganistans hefur breyst
mikið síðan ég kom hér fyrst árið
2008. Hér er uppgangur, það er ekki
hægt að orða það öðruvísi. Húsin
sem voru sprengd í borgarastríðinu
hafa flest verið rifin. Ný hús rísa í
staðinn á leifturhraða sem ber vitni
um slakar byggingarreglugerðir.
Auglýsingabransinn hefur vart
undan að handmála auglýsingatexta
á rúðurnar á nýopnuðum verslunum.
Hlutfall kvenna í búrku hefur hríð-
fallið og djörfustu ungu konurnar
eru farnar að nálgast íranskar tísku-
drósir varfærnum skrefum.
Afganskur eldmóður
Fréttamyndir frá Afganistan sýna
sjaldnast þennan bjartsýna hvers-
dagsleika sem þrífst í skugga
ofbeldis, spillingar og misfarsælla
uppbyggingaraðgerða. Blóðugar for-
síður seljast betur.
Utan frá gæti maður því haldið að
Afganistan ætti sér ekki viðreisnar
von. Þó telur meirihluti Afgana land-
ið sitt stefna í rétta átt; svo segja 59
prósent þeirra sem svöruðu í könnun
sem birtist í liðinni viku. Könnunin
er samstarfsverkefni bandarísku
fjölmiðlanna Washington Post, ABC
News, breska ríkisútvarpsins BBC
og hins þýska ARD. 69 prósent að-
spurðra segja líf sitt gott eða mjög
gott og 65 prósent búast við að hafa
það enn betra að ári liðnu.
Miklu betra nú en þá
Í samanburði við myrka fortíð er
auðvelt að líta nútíð og framtíð
björtum augum. Þótt sífellt látist
fleiri með hverju ári stríðsins gegn
hryðjuverkum, kemst það ekki í
hálfkvisti við fjöldamorðin og ge-
reyðilegginguna í borgarastríðinu á
síðustu öld. Og þótt kvenréttindi eigi
vissulega langt í land, er ástandið
snöggtum skárra en þegar talibanar
voru við völd.
Uppbyggingin hefur ekki verið
eins skilvirk og margir hefðu viljað
en boltinn er byrjaður að rúlla. Brátt
mjakast Afganistan upp af botninum
á heimslistanum yfir læsi því marg-
falt fleiri börn ganga í skóla nú en
áður. Menntunarstigið eykst jafnt og
þétt; háskólaráðuneytið áætlar að
fjöldi háskólanema muni tvöfaldast
á næstu fimm árum. Ungbarnadauði
minnkar og lífslíkur aukast eftir því
sem fleiri hafa aðgang að heilbrigðis-
þjónustu.
Svo brann kóraninn
Það tekur sinn tíma að byggja þjóð-
félag upp úr rústum. Framfarirnar
þrífast best í friðsælu og öruggu
samfélagi. Því miður er fljótgert að
rífa niður það sem hefur verið byggt
upp: sprengja byggingar og drepa
fólk eða hrekja á flótta. Versnandi ör-
yggisástand hamlar uppbyggingar-
verkefnum, hvort sem er afgönskum
eða alþjóðlegum.
Eftir árásina á höfuðstöðvar Sam-
einuðu þjóðanna í Mazar-e-Sharif í
síðustu viku hafa fulltrúar alþjóða-
samfélagsins í Kabúl vart fengið
að fara út úr húsi til að sinna vinnu
sinni. Öryggisfulltrúar óttast að mót-
mælin við Kóranbrennu bandaríska
öfgaklerksins Terrys Jones geti farið
úr böndunum, líkt og í Mazar, þar
sem 12 létu lífið á föstudaginn var.
„Öryggisástandið tekur á taug-
arnar og Mazar var kornið sem
fyllti mælinn,“ segir hin sænska
Maria mér. Einn þeirra sem voru
drepnir var landi hennar og hún var
nýkomin úr minningarathöfn. „Ég
flýtti fríinu mínu um nokkrar vikur;
ég verð bara að komast burt.“
Kannski ekki bara múgæsing
Hrottafull drápin komu öllum í opna
skjöldu. Mazar er friðsælt svæði.
Að auki er fátítt að mótmælum fylgi
slíkt ofbeldi í Afganistan. Árásin er
til rannsóknar, en margir telja að
öfgamenn hafi blandað sér í raðir
friðsælla mótmælenda.
Þrennt af alþjóðastarfsfólkinu
í Mazar var dregið út úr dimmu
sprengjubyrginu sem þau höfðu falið
sig í og dóu skömmu seinna af skot-
og stungusárum. Yfirmaður þeirra,
Rússinn Pavel Ershov, komst því
aðeins lífs af að hann talar reiprenn-
andi dari og gat sannfært dráps-
mennina um að hann væri múslími.
Það er jú bannað í Kóraninum að
bana trúbræðrum.
Vanvirðing við íslam
Í Afganistan eru ríki og trú óað-
skiljanlega samofin og hörð viðurlög
liggja við því að móðga trúna.
„Mér finnst að Obama eigi að setja
klerkinn rakleitt í fangelsi,“ segir
bílstjórinn Najib mér. „Ég veit að
margir Bandaríkjamenn eru ósam-
mála þeim sem brenndi Kóraninn en
ef yfirvöld gera ekkert, þá jafngildir
það þegjandi viðurkenningu. Það er
móðgun við Afganistan og við mús-
líma.“
Najib er ekki sá eini sem skilur
ekki hvernig Vesturlandabúar
telji sig geta komið svona fram við
heilaga bók með því að skáka í skjóli
tjáningarfrelsis. Kóranbrennan
styrkir þá hugmynd margra mús-
líma að stríðið gegn hryðjuverkum
sé í raun krossför gegn íslam. Sú
ímynd hefur styrkst eftir því sem
fleiri óbreyttir borgarar falla í valinn.
Tafir á uppbyggingu hafa að auki
valdið því áliti Afgana að útlending-
arnir séu bara í Afganistan til að
græða peninga, ekki af því þeir beri
hag Afgana fyrir brjósti. Þetta var
álit 54% aðspurðra í könnun Samein-
uðu þjóðanna (UNODC) í fyrra.
Veikburða efnahagur
En hvað gerist ef uppreisnaröflum
verður að ósk sinni og „vantrú-
aröflin“ vestrænu draga sig út úr
Afganistan? Peningaflæðið inn í
landið mun snarminnka um leið og
vestrænar þróunar- og hjálparstofn-
anir geta ekki lengur sinnt sínum
eigin hjálpar- og þróunarverkefnum.
Framfarirnar falla aftur niður á
hraða snigilsins. Þótt uppbyggingin
hafi að mörgu leyti gert Afgönum
kleift að hjálpa sér sjálfir, í menntun,
heilbrigðisþjónustu og stjórnsýslu,
stendur skattheimta afganska
ríkisins ekki undir nema u.þ.b. tíu
prósentum af opinberum útgjöldum.
Að auki er líklegt að allt hæfa fólkið,
sem hefur fengið þjálfun á síðustu
árum, telji sig geta lifað betra lífi
annars staðar og yfirgefi Afganistan.
Afleiddar tekjur af veru alþjóðaliðs-
ins myndu snarlega minnka: leigu-
tekjur og laun, verslun og þjónusta.
Þannig stendur velmegunin í
Kabúl völtum fótum. Þess vegna er
ég smeyk um að Titanic-lagið muni
fljótt hætta að heyrast hér ef öryggis-
ástandið versnar mikið frekar.
Góðar og
vondar fréttir
Margt stefnir í rétta átt í Afgan-
istan, en versnandi öryggi getur
sett strik í reikninginn.
Menntun eykst
n Afgönsk börn geta átt von á
rúmlega tvöfalt lengri menntun
en fullorðnir hafa að meðaltali.
Þegar þessi kynslóð kemst í
tölu fullorðinna mun meðaltalið
snarhækka.
n Meðalmenntun fólks yfir 15 ára
hefur hækkað úr 2,2 árum árið
2000 í 3,3 ár árið 2009.
n Börn í dag geta átt von á átta
ára skólagöngu. 61% barna á
grunnskólaaldri ganga í skóla.
n 28% fullorðinna eru læs, annað
lægsta hlutfall læsra í heim-
inum.
Heilsufar batnar
n Batnandi aðgangur að heil-
brigðisþjónustu hefur meðal
annars minnkað ungbarna-
dauða og aukið lífslíkur.
n Lífslíkur við fæðingu eru 44,6
ár og hafa aukist um þrjú ár
síðan 2000.
n Árið 1990 lést fjórðungur barna
fyrir fimm ára aldur. Hlutfallið
hefur lækkað í 20% núna, sem
er þó enn næstmesti barna-
dauði í heimi.
Fátækt og spilling
n Afganistan er fátækt og
vanþróað land. Spilling og þekk-
ingarskortur standa ríkisvaldinu
fyrir þrifum.
n Rúmur þriðjungur Afgana
dregur fram lífið á tæplega 100
krónum á dag.
n Helmingslíkur eru á að full-
orðinn Afgani hafi þurft að
greiða mútur á síðustu tólf
mánuðum. Meðalupphæðin er
um 18 þúsund krónur.
n Áætlað er að eiturlyfjaefnahag-
urinn velti sem nemur þriðjungi
af vergri landsframleiðslu.
n Afganistan á eðalsteina og
málma í jörðu að verðmæti
u.þ.b 114 þúsund milljarðar ís-
lenskra króna en bágt öryggi og
innviðir hamla námagreftri.
Öryggi versnar
n Í nýjustu Af-Pak-skýrslu Obama
um ástandið í Afganistan og
Pakistan kemur fram ótti um
að staðbundinn árangur, sem
hefur náðst, sé hverfull. David
Petraeus, yfirmaður Banda-
ríkjahers í Afganistan, óttast
harðari bardaga í ár.
n 15% fleiri óbreyttir borgarar
létu lífið í átökum í fyrra en árið
áður. Mannfallið hefur aukist ár
frá ári síðan 2006.
n Samstarf ýmissa hjálparstofn-
ana við herliðið gerir það að
verkum að hjálparstarfsfólk er
ekki lengur undanskilið árásum
öfgamanna. Árásum á hjálpar-
stofnanir fjölgaði um 59% á
síðasta ári.
* Tölurnar eru fengnar frá hinum
ýmsu stofnunum Sameinuðu þjóð-
anna og frá Alþjóðabankanum.
Í Afganistan blandast reiði út af Kóranbrennu saman við heift út í erlent herlið. Mannfall eykst
ár frá ári og mörgum Afgönum finnst fögur loforð um framþróun hafa verið svikin. Þó sýna
kannanir að Afganar eru bjartsýnir á framtíðina, sérstaklega í samanburði við myrka fortíð.
Herdís Sigurgrímsdóttir skrifar frá Kabúl, þar sem vorið færir múgæsingu og ofbeldi, en líka
blóm í haga og íssölumenn með úreltan tónlistarsmekk.
Menntun stúlkna er grundvöllur aukinna kvenréttinda. Jafnvel á háskólastigi eru konur nú 20 prósent stúdenta. Ljósmynd/Nordic Photos/Getty Images
Heilbrigðisþjónustan hefur batnað í Afganistan en ungbarnadauði þar er enn næst-
mestur í heimi. Ljósmynd/Nordic Photos/Getty Images
Herdís
Sigurgrímsdóttir
H.Sigurgrimsdottir
@lse.ac.uk
30 fréttaskýring Helgin 8.-10. apríl 2011