Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.04.1992, Blaðsíða 42

Læknablaðið - 15.04.1992, Blaðsíða 42
156 LÆKNABLAÐIÐ að fram komi að alvarleg atvik og jafnvel dauðsföll geta komið fyrir hjá sjúklingum sem hafa verið alveg hraustir. Orsakir óhappa og slysa í sambandi við svæfingar eru margar. Súrefnisskortur í blóði er sennilega algengasta orsökin. Slíkt stafar oftast af því að ekki er hægt að blása súrefni í lungu sjúklings til dæmis vegna þess að barkarenna hefur farið í vélinda eða erfiðlega hefur gengið að barkaþræða, öndunarvélar hafa farið úr sambandi, vegna öndunarstopps eða af öðrum orsökum. Allalgengt óhapp er að magainnihald renni ofan í lungu og þetta á sér einkum stað við bráðaaðgerðir hjá þeim sem eru með stíflu í þörmum, eftir slys eða hjá fæðandi konum, ef gera þarf keisaraskurð. Þessum óhöppum hefur farið fækkandi á seinni árum. Of stór lyfjaskammtur er talinn valda allmörgum óhöppum, og sama er að segja þegar rangt lyf er gefið. Mannlegi þátturinn hefur verið kannaður talsvert og hefur verið sýnt fram á að meginhluti óhappa sem könnuð voru stöfuðu af mannlegum mistökum. Þau atriði sem einkum voru talin stafa af mannlegum mistökum voru til dæmis að tækjabúnaður var ekki nægilega vel yfirfarinn, lyfjum var ruglað saman, sá sem svæfði hafði ekki nægilega reynslu og einnig var stundum um að ræða kæruleysi eða flýti (3). Dauðsföll af völdum svæfinga og deyfinga henda því miður. Það hefur hinsvegar vafist fyrir mönnum hver tíðni þeirra sé. Erfitt hefur reynst að ná samstöðu um skilgreiningu og einnig hvaða tímamörk skuli notuð. Samanburður milli tímabila er talinn erfiður vegna mismunandi tækni, lyfja og annarra atriða. Eftir seinni heimsstyrjöldina var fyrsta rannsóknin á dauðsföllum af völdum svæfinga sú sem kennd er við Beecher og Todd frá 1954 (4). Kannaðar voru um 600.000 svæfingar. Komist var að þeirri niðurstöðu að dauðsföll af völdum svæfinga eingöngu væru um það bil 1:2.700. Flestar nýlegar kannanir hafa sýnt tíðnina 1:8.000-10.000. Talið er að hægt hefði verið að koma í veg fyrir nálega helming dauðsfallanna. Kannanir varðandi þetta hafa ekki farið fram hér á landi en framvirk rannsókn er að hefjast. A seinustu árum hefur margt verið gert til þess að koma í veg fyrir óhöpp og slys. Kennsla og þjálfun verða stöðugt betri og markvissari. Mörg hjálpartæki og vaktarar hafa verið tekin í notkun seinustu árin, til dæmis púlsoxymælar sem sýna súrefnismettun í blóði og mælir sem sýnir þrýsting koltvísýrings í útöndunarlofti. Minnislistar eru allmikið notaðir. Þá ber einnig að nefna sérstök gæðaátök á svæfingadeildum sem hefur víða verið komið á. Flestir munu sammála um að í gæða- og öryggismálum í svæfingalækningum hafi orðið allmiklar framfarir á undanförnum árum og mönnum sé ljóst hvar skórinn kreppir. Þótt seint sé hægt að komast hjá öllum óhöppum má komast hjá mörgum þeirra með árvekni og vönduðum vinnubrögðum. Þau atriði sem miklu máli skipta eru góð menntun og þjálfun þeirra sem störfin vinna, góður undirbúningur sjúklinganna, fullkominn tækjabúnaður, rétt notkun hans og skipulegt viðhald, góð aðstaða og vel þjálfað starfsfólk á vöknun (þar sem sjúklingar dvelja fyrst eftir að svæfingu lýkur), góð vinnuaðstaða, gott eftirlit með þeim sem eru í þjálfun og síðast en ekki síst góður andi og góð skipulagning á vinnustað. HEIMILDIR 1. Papper EM. The Establishment of Anesthesiology as a Clinical and Scientific Discipline. Acta Anaesth Scand 1978; Suppl.70: 10-2. 2. American Society of Anesthesiologists: New Classification of Physical Status. Anesthesiology 1963; 24: 111. 3. Cooper JB, Newbower RS, Kitz RJ. An Analysis of Major Errors and Equipment Failures in Anesthesia Management: Considerations for Prevention and Detection. Anesthesiology 1984; 60: 34-42. 4. Beecher HK, Todd DP. A study of deaths associated with anesthesia and surgery based on a study of 599.548 anaesthesias in ten institutions, 1948-1952 inclusive. Ann Surg 1954; 140: 2-34. Olafur Þ. Jónsson Svæfinga- og gjörgæsludeild Borgarspítalans

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.