Búskapur hins opinbera 1995-1996 - 01.11.1997, Blaðsíða 5
Formáli
Rit þetta fjallar um búskap hins opinbera. Með búskap hins opinbera er átt við
starfsemi ríkis, sveitarfélaga og almannatryggingakerfis. Hér er þó undanskilin
starfsemi fyrirtækja og sjóða í opinberri eigu enda er slíkri starfsemi að jafnaði
ætlað að standa undir sér með sölu á vöru eða þjónustu á almennum markaði.
í ritinu er meðal annars að fínna yfirlit um tekjur, útgjöld og afkomu hins
opinbera. Birt eru sundurliðuð yfirlit og tölur dregnar saman fyrir hið opinbera í
heild. Jafnframt er fjallað um umfang hins opinbera í þjóðarbúskapnum og í því
skyni stuðst við mismunandi mælikvarða. Þá er gerð grein fyrir skuldum og
lánastarfsemi hins opinbera. Einnig er gerður samanburður á afkomu og umsvifum
hins opinbera á íslandi og í öðrum aðildarríkjum OECD. Við hefðbundið efni
ritsins er bætt efni um menntamál í alþjóðasamhengi. Gerð er grein fyrir
markmiðum og leiðum, Qármögnun og framboði á skólaþjónustu og talnalegur
samanburður gerður. Þetta eru hugleiðingar um þessi efni í ljósi þeirra umræðu
sem nú á sér stað á vettvangi OECD ríkja. Tilgangurinn er sá að gefa yfirlit um
meginatriði umræðunnar frá hagfræðilegu sjónarmiði.
Rétt er að vekja athygli á því að í þessu riti líkt og í síðustu tveimur er fylgt
þeirri breyttu skilgreiningu á umfangi hins opinbera sem kynnt var í Búskap hins
opinbera 1992-1993, sem út kom í apríl 1994. Eldra uppgjör um fjármál hins
opinbera hefur því verið leiðrétt til samræmis við þessa nýju skilgreiningu. Hér er
um að ræða ýmsar viðbætur við tekjur og útgjöld hins opinbera, sem teljast að
réttu með samkvæmt þjóðhagsreikningakerfi Sameinuðu þjóðanna. Þessar breyt-
ingar tengjast breytingum á reikningsskilum ríkisins, sem nú hafa verið
samþykktar á Alþingi.
Uppistaða ritsins er talnaefni fyrir árin 1990-1996. Sömuleiðis er að finna
talnaefni sem nær allt aftur til ársins 1980. Gerð er grein fyrir þessu talnaefni í
fyrsta hluta ritsins og þar er lögð áhersla á búskap hins opinbera í heild.
Áður hafa komið út sjö rit um sama efni; árið 1983, 1986, 1991, 1993, 1994,
1995 og 1996. Ritið sem gefið var út 1996 spannaði tímabilið 1990-1994 og
bráðabirgðatölur ársins 1995. Nú bætast við tvö ár, 1995 og 1996. Ritið kemur út
árlega og er með áherslu á síðastliðið ár. Þetta rit kemur út mun síðar á árinu en
fyrri rit sama efnis, en ákveðið var að fresta útgáfunni þar til endanlegar tölur
liðins árs lægju fyrir. Á vegum Þjóðhagsstofnunar hefur Jóhann Rúnar
Björgvinsson einkum unnið að gerð þessa rits, tekið saman talnaefnið og samið
skýringar.
Þjóðhagsstofnun
í nóvember 1997
Þórður Friðjónsson
3