Morgunblaðið - 24.12.2011, Qupperneq 22
22
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. DESEMBER 2011
VIÐTAL
Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
Búseta Íslendinga í Kaupmannahöfn á sér
langa og viðburðaríka sögu. Eitt sinn voru
það helst stúdentar, sem hugðu á Garðvist
við Kaupmannahafnarháskóla, sem settust
að í borginni við sundið. Flestir til skamms
tíma, en aðrir ílentust þar. Eins og gengur.
Rétt eftir aldamótin síðustu gerðust svo þau
undur og stórmerki að íslenskir kaupsýslu-
menn keyptu nánast hvert einasta danskt
fyrirtæki sem einhver slægur þótti í, auk
margra sögufrægra bygginga sem prýtt
höfðu borgina um aldaraðir. Að auki fór
fjöldi íslenskra fyrirtækja af ýmsu tagi í út-
rás til Kaupmannahafnar. Ekki er laust við
að farið hafi um margan Danann við þessa
þróun. Var búið að hafa endaskipti á hlut-
unum og gamla nýlendan orðin herraþjóð?
Hér heima var blásið á alla gagnrýni sem
barst frá þessum fyrrverandi höfuðstað okk-
ar; þetta var auðvitað ekkert nema öfund í
Dananum. En þetta varði ekki lengi eins og
alþjóð veit og mörg þessara fyrirtækja hafa
nú skipt um eigendur og athafnir íslenskra
útrásarvíkinga eru ekki lengur fyrsta frétt í
dönskum fréttatímum.
En ekki eru allir Íslendingar í rekstri í
Danmörku útrásarvíkingar. Fjöldi Íslend-
inga er með ýmiskonar rekstur í Danmörku,
bæði stórtækan og smærri í sniðum, enda er
þetta það land sem flestir Íslendingar eru
búsettir í, utan Íslands. Margir þeirra hafa
hlotið viðurkenningar og hafa komið með
ýmsar nýjungar. Hverjum dytti annars í hug
að stofna fiskbúð í þessu helsta höfuðvígi
svínakjötsneyslu? Það gleymist líka stundum
að Danmörk er það land sem Ísland á einna
mest viðskipti við á margan hátt og að mati
sendiherra Íslands í Danmörku er sá mark-
aður síður en svo mettaður.
Ekki bara útrásarvíkingar
Íslenskir fisksalar slá í gegn í Danaveldi Íslensk menning hefur margföldunaráhrif á ýmsan hátt
Um tíu þúsund Íslendingar búa í Danmörku Finna ekki fyrir fordómum í sinn garð eftir hrun
Ljósmynd/Getty
Jólin Verslun og viðskipti Íslendinga í Danmörku hafa verið mikil í gegnum árin. Viðskiptin eru af ýmsum toga, bæði stór og smá í sniðum.
Hverjum dettur í hug að opna fisk-
búð í landi þar sem svínakjöt er
þjóðarrétturinn? Þessa hugmynd
fengu íslensku systkinin Vigdís og
Björgvin Finnsbörn. Þau fram-
kvæmdu hugdettuna og reka nú
keðju fiskverslana á Kaup-
mannahafnarsvæðinu undir nafninu
Boutique Fisk.
Fyrsta verslunin var opnuð í Fre-
deriksberg janúar árið 2007 og núna
eru verslanirnar orðnar fjórar. Þar
af er ein í matardeild vöruhússins
víðfræga Magasin du Nord við
Kóngsins Nýjatorg í Kaupmanna-
höfn og hinar þrjár eru í mat-
vöruverslununum Super Best víðs
vegar í Kaupmannahöfn. Tæplega
20 manns starfa hjá fyrirtækinu.
„Við erum alhliða fiskbúð og selj-
um allan ferskan fisk eins og til
dæmis rauðsprettu, þorsk og lax.
Svo erum við með tilbúna rétti sem
þarf að hita upp, svokallaða „make-
away“ rétti sem eru algjör nýjung
hérna í Danmörku,“ segir Vigdís,
spurð um það sem er á boðstólum í
Boutique Fisk. „Við erum líka með
ýmsa tapas-rétti, fiskisalöt og sushi.
Fiskurinn kemur víða að, en við
fáum hann af fiskmörkuðum.“
Vissum ekki mikið um fisk
Vigdís hefur verið búsett í Dan-
mörku í 12 ár og fyrstu átta árin þar
starfaði hún sem grunnskólakenn-
ari, en hún er menntuð sem slíkur.
Björgvin bróðir hennar er garð-
yrkjufræðingur og íþróttakennari
og fluttist til Danmerkur þegar þau
hófu undirbúninginn að opnun versl-
ananna.
„Ég veit stundum ekki hvernig
okkur datt þetta í hug,“ segir Vig-
dís, en hugmyndin kviknaði upp-
haflega í samræðum á milli Björg-
vins og dansks eiginmanns Vigdísar
sem heitir Jesper Lehmann. „Þegar
Danir fara út að borða fá þeir sér
fisk, þeim finnst hann lúxusvara en
þeir eru ekki vanir jafn góðum fisk
og við Íslendingar. Okkur langaði til
að Danir fengju að upplifa það sama
og við og allt í einu vorum við komin
á fullt í þetta. Við vissum í sjálfu sér
ekkert mikið um fisk, en köstuðum
okkur bara út í þetta verkefni og í
dag kann maður alveg ótrúlega mik-
ið,“ segir Vigdís.
Þau hafa lagt gríðarmikla vinnu í
uppbyggingu fyrirtækisins, forðast
eftir mætti að taka lán og reyna að
gera sem mest sjálf. „Auðvitað hefur
þetta verið rosalega erfitt. En samt
svo skemmtilegt,“ segir Vigdís.
Hún segir að þau hafi verið „mjög
dönsk“ í allri sinni vinnu við fyr-
irtækið. „Þó að við séum íslensk, þá
erum við danskt fyrirtæki og vorum
aldrei í þessum „2007 gír“. Við tók-
um t.d. veð í íbúðinni okkar í upp-
hafi og engin há lán. En sumir Danir
höfðu áhyggjur af rekstrinum hjá
okkur þegar allt hrundi heima. Þá
höfðu birgjar okkar samband við
okkur og spurðu hvort við gætum
ekki örugglega borgað.“
Gæði og fjölbreytni
Sérstaða Boutique Fisk felst fyrst
og fremst í gæðunum og fjölbreytn-
inni. „Við vitum vel að við erum ekki
ódýrasta búðin. En líklega sú besta
og við erum öðruvísi. Við leggjum
mikið upp úr samræmdu útliti búð-
anna og t.d. eru allir starfsmenn
eins klæddir.“ Mikil vinna er lögð í
að þróa nýja rétti og framsetningu
og Vigdís segir að hugmyndirnar
komi alls staðar að; á ferðalögum,
þegar þau fara út að borða, með
því að horfa á sjónvarp eða skoða
tímarit.
Flaggskip Boutique Fisk er svo-
kölluð „store in store“ í matardeild
Magasin du Nord sem af mörgum
er talin vera mekka sælkerans í
Kaupmannahöfn. Þar fæst sælke-
ravara frá ýmsum fremstu fram-
leiðendum vandaðrar matvöru
heims. Vigdís segir reksturinn
passa vel inn í það umhverfi.
„Þetta er góð búð fyrir okkur, þó
að við borgum nokkuð mikið fyrir að
vera hérna. Annars höfum við breytt
aðeins um stefnu síðan við opnuðum
fyrstu búðina. Ég ætlaði til dæmis
aldrei að vera með tilboð, en það er
bara svo stór hluti af viðskiptahátt-
um hérna, þannig að nú bjóðum við
upp á tveir fyrir einn og alls konar
afslætti, rétt eins og allir aðrir. Við
erum að selja matvöru sem er í dýr-
ari kantinum og Danir halda að sér
höndum í kreppunni. En við höfum
lifað vegna þess að við erum skyn-
söm.“
Höfum lært af
reynslunni
Boutique Fisk hefur fengið mikla
athygli á þeim tæpum fimm árum
síðan fyrsta verslunin var opnuð og
fengið talsverða umfjöllun í dönsk-
um fjölmiðlum. Vigdís segir að það
hafi mikil áhrif og sé góð auglýsing,
en þau hafa ekki auglýst mikið. „Til
dæmis hélt þekktur tískukóngur í
Danmörku matarboð í sjónvarps-
þætti í fyrra og hann keypti allan
matinn hjá okkur. Eftir þann þátt
jókst salan gríðarlega. Allt svona
skiptir miklu máli.“
Vigdís segir erfitt að segja til um
hvernig fyrirtækið muni þróast.
„Það skiptir máli að vera opinn fyrir
öllu og tilbúinn að læra af reynsl-
unni. Við ætluðum aldeilis að sparka
upp einhverjum hurðum þegar við
byrjuðum og kenna Dönum að borða
fisk. En það er ekki rétta viðhorfið
til að komast áfram og við rákum
okkur fljótt á það. Auðmýkt er mik-
ilvæg í svona rekstri og að bera virð-
ingu fyrir kúnnunum. Svona höfum
við lært af reynslunni. Ég sá sjálfa
mig aldrei fyrir mér í eigin rekstri,
en hér er ég núna og það er frábært
að fá að vinna við áhugamálið sitt.“
Boutique Fisk býður upp á fjöl-
breytt úrval af sjávarfangi.
Selja Dönum fisk í Magasin du Nord
Fisksalar Systkinin Vigdís og Björgvin Finnsbörn selja Dönum fisk og ýmsa
sjávarrétti og reka verslanir á fjórum stöðum á Kaupmannahafnarsvæðinu.
Vigdís og Björgvin Finnsbörn
Íslendingar í Kaupmannahöfn