Morgunblaðið - 24.12.2011, Qupperneq 26
26 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. DESEMBER 2011
Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Kirkjuklukkur klingdu og sírenur
vældu þegar útför Václavs Havels
fór fram frá dómkirkju frá fjórtándu
öld í Prag í gær. Fjölmargir þjóðar-
leiðtogar voru viðstaddir útförina og
allt þjóðlífið stöðvaðist í Tékklandi
þegar landsmenn vottuðu minningu
forsetans fyrrverandi virðingu sína.
Forsetar sextán Evrópuríkja voru
viðstaddir útförina í Vitusarkirkj-
unni, auk ráðherra og þingforseta
frá fjölmörgum löndum, þeirra á
meðal Ásta Ragnheiður Jó-
hannesdóttir, forseti Alþing-
is. Á meðal annarra í kirkj-
unni voru Hillary Clinton,
utanríkisráðherra Banda-
ríkjanna, og eiginmaður
hennar og fyrrverandi
forseti, Bill. Made-
leine Albright, fyrr-
verandi utanríkis-
ráðherra
Bandaríkjanna,
sem fæddist í Tékklandi, flutti ræðu
við útförina. „Hann hafði frelsið í há-
vegum, leit ekki á það sem markmið í
sjálfu sér, heldur leið til að knýja
fram sigur sannleikans,“ sagði hún.
Erkibiskupinn í Prag las bréf frá
Benedikt XVI páfa sem minntist
baráttu hans fyrir mannréttindum,
andófs hans gegn kommúnista-
stjórninni í Tékkóslóvakíu og þáttar
hans í flauelsbyltingunni sem lauk
með því að hann varð forseti landsins
í lok ársins 1989. Havel var forseti
Tékkóslóvakíu til 1992 og síðan
Tékklands til 2003 eftir að þjóðernis-
sinnum í Slóvakíu tókst að knýja
fram skiptingu gamla sambands-
ríkisins í tvö ríki. Lýst var yfir
þjóðarsorg í Slóvakíu í gær í tilefni af
útförinni.
Rokk til heiðurs risanum
Nicolas Sarkozy, forseti Frakk-
lands, lýsti Havel sem „risa“ sem
hefði átt stóran þátt í því að koma á
lýðræði í austanverðri Evrópu og
„barðist alltaf fyrir endursamein-
ingu álfunnar“.
Havel var mikill rokkunnandi og
því var ákveðið að halda rokktón-
leika honum til heiðurs í gærkvöldi í
Lucerna-höll, sem afi hans reisti í
byrjun aldarinnar sem leið.
Lík Havels var brennt síðar um
daginn. Tékkneska dagblaðið DNES
sagði að aska hans yrði sett í graf-
hvelfingu fjölskyldu hans í kirkju-
garði í Prag við athöfn eftir jólin,
hugsanlega á þriðjudaginn kemur.
Frelsishetjan kvödd
Fjölmargir þjóðhöfðingjar og fyrrverandi leiðtogar voru viðstaddir útför
Václavs Havels Allt þjóðlífið stöðvaðist í Tékklandi og þjóðarsorg í Slóvakíu
Reuters
Útför Madeleine Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, flytur ræðu við útför Václavs Havels í Vitusarkirkjunni í Prag í gær.
Stjórnvöld í Sýr-
landi sögðu í gær
að yfir 40 manns
hefðu beðið bana
og 150 særst í
tveimur sjálfs-
vígsárásum á
byggingar ör-
yggissveita í
Damaskus. Ríkis-
stjórn landsins
sagði að liðs-
menn al-Qaeda hefðu verið að verki
en andstæðingar hennar sökuðu
hana um að hafa staðið fyrir árás-
unum til að villa um fyrir eftirlits-
mönnum sem komu til landsins í
gær á vegum Arababandalagsins.
Stjórnin kvaðst búast við því að
eftirlitsmennirnir myndu staðfesta
fullyrðingar hennar um að hún ætti
einkum í höggi við „vopnaða
hryðjuverkamenn“ en ekki frið-
sama mótmælendur eins og mann-
réttindahreyfingar hafa sagt.
Kenna al-Qaeda um
blóðbað í Damaskus
Fulltrúar Araba-
bandalagsins.
SÝRLAND
Indónesísk
stúlka, Mary
Yuranda, sem
týndist í flóð-
bylgjunni ógur-
legu árið 2004, er
nú loksins komin
heim til sín í
Aceh-héraði, sjö
árum eftir nátt-
úruhamfarirnar.
Þegar stúlkan
fannst hafði hún búið hjá ekkju sem
neyddi hana til að betla á götunum
og misþyrmdi henni. Stúlkan er nú
fjórtán ára.
Fannst sjö árum
eftir flóðbylgjuna
Mary Yuranda
INDÓNESÍA
Rússneskur
gervihnöttur
hrapaði til jarðar
í Síberíu í gær,
nokkrum
klukkustundum
eftir að honum
var skotið á loft
með eldflaug af
gerðinni
Soyuz-21B. Slys-
ið varð vegna bil-
unar í eldflauginni. Geim-
ferðastofnun Rússlands hefur orðið
fyrir hverju áfallinu á fætur öðru á
árinu.
Gervihnöttur
hrapaði til jarðar
Soyuz-eldflaug
skotið á loft.
RÚSSLAND
Örlátur og fótlipur fíll í jólasveinsbúningi dreifir jólagjöfum með tilþrifum
í barnaskóla í borginni Ayutthaya í Taílandi.
Reuters
Gjafmildur jólafíll
Franska heilbrigðisráðuneytið
sagði í tilkynningu í gær að sílíkon-
púðar frá fyrirtækinu Poly Implant
Prothése (PIP) ykju ekki líkurnar
á krabbameini. Engu að síður var
um 30.000 konum, sem hafa fengið
slíka brjóstapúða í Frakklandi,
ráðlagt að láta fjarlægja þá, að
sögn fréttaveitunnar AFP.
Franskir læknar hafa fundið átta
tilfelli æxla hjá konum sem höfðu
gallaða brjóstapúða frá PIP. Í til-
kynningunni sagði þó heilbrigðis-
ráðuneytið að konur með brjósta-
púða frá PIP væru ekki líklegri til
að fá krabbamein en konur sem
hafa fengið sílikonpúða frá öðrum
fyrirtækjum. Hins vegar hefði ver-
ið sannað að púðarnir frá PIP ættu
það frekar til að rifna en aðrir
sílíkonpúðar.
Að sögn AFP ráðlagði franski
heilbrigðisráðherrann Xavier
Bertrand konum með púða frá PIP
að láta fjarlægja þá í varúðarskyni
en lagði áherslu á að það teldist
ekki „lífsnauðsynleg“ aðgerð.
Hafi samráð við lækni
PIP er nú gjaldþrota og vörur
fyrirtækisins voru bannaðar í fyrra
þegar í ljós kom að það hafði notað
óleyfilegt iðnaðarsílíkon í stað
hreins sílíkons í púðana.
Tugir þúsunda kvenna í fleiri en
65 löndum hafa gengist undir
brjóstaaðgerðir þar sem notaðir
voru púðar frá PIP, flestar í Suð-
ur-Ameríku og Vestur-Evrópu.
Lyfjastofnun hefur hvatt konur,
sem hafa farið í brjóstaaðgerð hér
á landi, til að hafa samráð við
lækni sinn og leita upplýsinga um
hvaða fyrirtæki framleiddi sílíkon-
púðana sem notaðir voru í aðgerð-
inni.
Brjóstapúðarnir auka
ekki líkur á krabbameini
Franskar konur
samt hvattar til að
láta fjarlægja þá
Reuters
Gallaður Brjóstapúði frá PIP.
Mikið margmenni var í mið-
borg Prag í gær þegar
borgarbúar komu þar saman
til að fylgjast með útför
leikskáldsins og forset-
ans fyrrverandi. Margir
þeirra voru með borða í
tékknesku fánalit-
unum.„Þetta er eins
og að missa mjög
nákominn ættingja,“
hafði fréttaveitan
AFP eftir ungri konu sem var á
meðal syrgjendanna.
„Ef til vill fer nú fólk að líta á
Havel sem heimspeking, ekki að-
eins stjórnmálamann. Það hefur
ekki verið svigrúm til þess hingað
til,“ sagði 38 ára karlmaður.
Tugir þúsunda Tékka vottuðu
minningu Havels virðingu sína í
vikunni þegar lík hans var til sýnis
í gamalli kirkju og seinna í Prag-
kastala þar til í fyrrakvöld.
Margir fylgdust með útförinni
„EINS OG AÐ MISSA MJÖG NÁKOMINN ÆTTINGJA“
Ekkja Havels,
Dagmar Havlova.