SunnudagsMogginn - 29.01.2012, Blaðsíða 17

SunnudagsMogginn - 29.01.2012, Blaðsíða 17
29. janúar 2012 17 Anna Lilja er menntaður mjólkurfræðingur og starfaði í 13 ár í Mjólkursamlagi KEA á Akureyri. Þar kom þó að hún gafst upp og hætti, en það var ekki vegna flogaveikinnar heldur þoldi hún ekki lengur við vegna eineltis á vinnustaðnum. Þetta var árið 2000. Þegar flogaveikisjúklingum líður illa andlega eru meiri líkur á flogi en ella. „Ég er með fullkomnunaráráttu og vildi standa mig vel í vinnunni en treysti mér ekki til að vera í fullu starfi, þannig að ég minnkaði við mig. Fór í hálft starf í nokkra mánuði en gafst svo endanlega upp. Ég varð að velja á milli þess að halda heilsu og að vinna áfram.“ Lengi áttaði hún sig ekki hvers kyns var. „Þetta var mjög skrýtið. Einn daginn var hætt að bjóða mér góðan daginn, svo fór ákveðinn hópur fólks að standa upp ef ég settist við sama borð og það í kaffitímanum. Ég fékk óneitanlega á tilfinninguna að allir hinir væru í vonda liðinu, þar sem enginn þorði að taka af skarið og standa með mér, en fólk hefur kannski óttast að lenda í þessu sjálft.“ Anna Lilja segir eflaust hafa spilað inn í að eiginmaður hennar, Sigmundur E. Ófeigsson, hafði verið í stjórnunarstöðu hjá KEA á sínum tíma, en reyndar áður en eineltið gegn henni hófst. „Skipulagsbreytingar stóðu fyrir dyrum í samlag- inu og í eitt skipti þegar þremur starfsmönnum var sagt upp héldu sumir því fram að hann stæði á bak við það og ég læki einhverjum upplýsingum í hann en Sigmundur kom þessu máli ekkert við.“ Þau hjónin segja að líklega hafi einhverir starfsmenn samlagsins haldið að ráða hafi átt Sigmund til að stjórna fyrirtækinu. Anna segist hafa verið svo djörf að spyrja, þegar fréttist að þremur hefði verið sagt upp, hverjir það væru og fengið svar frá einum samstarfsmanna sinna: Þú ættir að vita það! „Ég var vissulega heppin að halda vinnunni því ég hafði ekki unnið svo lengi sem mjólkurfræðingur. Þarna voru menn sem höfðu unnið í áratug eða lengur sem var sagt upp.“ Önnu Lilju líkaði afskaplega vel að vinna í Mjólkursamlaginu lengst af. „Það má því segja að ég hafi misst 60 til 70 félaga þegar ég hætti en mér fannst ég ekki geta annað. Sjúkdómurinn versnaði heilmikið á þessum mánuðum sem eineltið stóð yfir. Mér leið svo illa andlega að sjúkdómurinn ágerðist.“ Lengi vel taldi hún sökina algjörlega sína. „Það var líklega ekki fyrr en eftir tvö ár sem ég loksins áttaði mig á því að þetta væri vandamál hinna en ekki mitt. Það var ákveðinn léttir en samt vonbrigði því samskiptin við vinnufélag- ana urðu engin eftir að ég hætti. Það tók suma þeirra álíka langan tíma og mig að átta sig á þessu en eftir það fóru þeir að heilsa mér aftur. Ef ég mætti þeim í búð fram að þeim tíma fóru þeir hinum megin við rekkann í stað þess að heilsa mér.“ Anna Lilja segist hafa reynt að tala við einn verkstjórann um málið í upphafi, en hann hafi verið einn þeirra sem lögðu hana í einelti og því hefði ekkert gerst. Hún veit því ekki hvort fjallað var um málið innan fyrirtækisins á sínum tíma. „Satt best að segja veit ég það ekki. Því miður gæti verið að margir í fyr- irtækinu vissu enn ekki af þessu ennþá. En til að losa mig úr þessu sendi ég stjórnendum fyrirtækisins bréf á sínum til þess að lofa þeim að vita hvernig ég hefði það, og sagði þeim að ég væri ekki reið við þá.“ Hætti að vinna vegna eineltis Síðustu tíu árin áður en Anna Lilja fór í aðgerðina voru erfið. Hún segir þó ekki mikinn sársauka fylgja krampaköst- unum. „Það er aðallega að maður kvíði fyrir. Það kemur fyrirboði sem svo er kallaður, en maður veit ekki hvort hann stendur í kortér eða nokkra klukktíma.“ Hún segir biðina eftir því að sjálfur krampinn hefjist aldrei hafa vanist. „Best er að slaka á meðan beðið er, það getur verið mjög erfitt. En maður reynir það.“ Kastið sjálft stóð yfirleitt í eina til tvær mínútur en þau voru stundum mörg á stuttum tíma. „Undir það síðasta, þegar ég var búin að fá hátt í tíu köst á nokkr- um klukkutímum og stefndi í fleiri, þá fórum við upp á sjúkrahús þar sem ég var sprautuð niður.“ Nú hefur hún ekki fengið flog í tvö ár. „Það er algjör draumur. Þetta er eins og nýtt líf. Litla drengnum mínum, sem á að fermast í vor, finnst þetta alveg stór- kostlegt.“ Hann þekkti ekki annað, þar til fyrir tveimur árum, en að móðir hans gæti fengið krampakast með skömmum fyr- irvara. „Það var mikil og erfið ákvörðun fyrir okkur hjónin hvort ættum að láta hann sjá hvernig flogið væri eða ekki, þegar hann var lítill. Við ákváðum að láta hann sjá það strax; sem betur fer, segi ég í dag. Ég er viss um að það hefði verið miklu verra fyrir hann að verða vitni að því þegar hann var orðinn fjögurra eða fimm ára. Þótt það væri erfitt og vissulega gréti hann oft, þá varð þetta eðlilegur hlutur fyrir hann þegar frá leið.“ ’ Anna Lilja hefur ekki fengið flog í tvö ár. „Það er algjör draumur. Þetta er eins og nýtt líf. Litla drengnum mínum, sem á að fermast í vor, finnst þetta alveg stórkostlegt.“ Anna Lilja stendur upp í fyrsta skipti utandyra eftir að hún fór í aðgerðina. Hér er hún ásamt sjúkraþjálfaranum sínum. Anna Lilja með sjúkraþjálfara og talþjálfara. Anna Lilja stendur upp í fyrsta skipti eftir aðgerðina í Rochester. Sigmundur myndaði konu sína í bak og fyrir.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.